Takk, Snæbjörn – Part II

Það er einn annar punktur sem mig langar til að nefna. Athyglisverðasta greiningin í grein Snæbjörns er innan sviga. Hún er eiginlega hvísluð. Nefnd í framhjáhlaupi, í einhverri allt annarri umræðu. En þessi greining er stórmerkileg. Því verður vart komið í orð hvað hún ávarpar mikið aðalatriði. Bleika fílinn í íslenskri leikhúsmenningu.

(það er óopinbert leyndarmál að Þjóðleikhúsið sjálft sé í raun bara þjóðleikhús Reykjavíkur, eða í besta falli stórhöfuðborgar-svæðisins. Það er ekki þjóðleikhús í neinum skilningi orðsins sem felur í sér leikhús þjóðarinnar. Þeir sem sjá sýningar í því húsi tilheyra ákveðnu svæði og ákveðnum tekjuhóp)

1. Óopinbert leyndarmál.
2. Þjóðleikhúsið sjálft sé í raun bara þjóðleikhús Reykjavíkur
3. Þeir sem sjá sýningar í því húsi tilheyra ákveðnu svæði og ákveðnum tekjuhóp

Elliði Vignisson, Vigdís Hauksdóttir, og hvað þið heitið öll sömul. Þið höfðuð rétt fyrir ykkur. Þjóðleikhúsið er ekki þjóðleikhús ykkar. Það er þjóðleikhús okkar. Okkar sem búum í Reykjavík (eða Berlín), kannski nágrannasveitarfélögum. Okkar sem búum í Reykjavík, kannski nágrannasveitarfélögum, og tilheyrum ákveðinni stétt og ákveðnum tekjuhóp.

Árum saman hefur þessu reyndar verið haldið fram. Yfirleitt af fólki sem býr á landsbyggðinni og/eða er flokksbundið Framsóknarflokknum og/eða Sjálfstæðisflokknum.

Í hvert sinn sem þetta hefur verið nefnt hefur sendiboðinn fengið yfir sig holskeflu ummæla og mannfyrirlitningar sem afkomendur Hildar Lilliendahl og Gillzenegger gætu verið stoltir af.

Fólk sem hefur imprað á þessari staðreynd hefur verið nefnt, menningarsnauðir heimskingjar, fábjánar, skítapakk. rednekkar, rusl, landsbyggðarpakk, o.s.fr. Undantekningalaust í þeirri merkingu að fólkið sem um er rætt, sé óæðri manneskjur. Sub-human. Eigi ekki alveg jafn mikinn rétt á að ganga á jörðinni, hvað þá njóta réttinda, og við hitt fólkið.

Meðal þeirra sem hafa tekið þátt í þessari herferð má nefna virta listamenn eins og Benedikt Erlingsson og Sjón. Þessar kerfisbundnu árásir eru yfirleitt studdar lækum og deilingum fólks sem tilheyrir ráðandi stéttum menningar, menntunar og lista. Oftar en ekki fólks sem berst gegn kerfisbundnu misrétti á mörgum öðrum sviðum mannlífsins.

Svo bara allt í einu, bara svona fyrir mistök, er þetta misrétti afhjúpað. Misrétti sem ekki einungis hefur verið afneitað, heldur gjörsamlega þagað í hel. Misrétti sem hingað til hefur hreinlega verið gert hlægilegt að láta sér detta í hug að geti verið veruleiki er skyndilega viðurkennt á vefriti um sviðslistir á Íslandi, og orðað með þeim hætti að allir viti þetta að sjálfsögðu.

Hér er stórfréttir.

Mér er skapi næst að fullyrða að ansi margir skuldi ansi mörgum ansi margar afsökunarbeiðnir. Hér hefur átt sér stað kerfisbundin misskipting. Misskipting sem er ekki bundin við kyn, þjóðerni eða kynhneigð (þessum samþykktustu tylliástæðum kerfisbundinnar mismununar) heldur einhvers annars.

Þessar átakalínur skýrast að einhverju leyti eftir smekk, en samt einungis að hluta.
Þessar átakalínur skýrast að einhverju leyti eftir búsetu, en samt einungis að hluta.
Þessar átakalínur skýrast að einhverju leyti eftir tekjum, en samt einungis að hluta.

Það er kannski þess vegna sem svo auðvelt er að afneita þessari misskiptingu og hlæja að henni. Það er ekki svo auðvelt að benda á hana. Erfitt að færa sönnur á hana.

Um þessa kerfisbundnu misskiptingu munu efalaust verða skrifaðir margir dálksentímetrar í framtíðinni. Doktorsritgerðir og fræðigreinar. Listamenn verða forsmáðir og dæmdir – eftirá. Rétt eins og sérhver samtími endurskoðar listamenn fortíðar með tólum og greiningum sem ekki þóttu til tísku meðan þeir voru dáðir og dýrkaðir. Við fáum til dæmis svolítið óbragð gagnvart listamönnum fortíðar sem í verkum sínum eða persónulegu lífi gerðu sig seka um hatur gagnvart konum eða rasisma, svo dæmi séu tekin. Þeim er kannski ekki afneitað, en við fáum ákveðið óbragð, tökum þá af stalli. Það er gott að hafa það í huga. En ég nenni ekki að dvelja við það.

Þess í stað langar mig að nota lítinn punkt, einn af mörgum, sem innansvigasetningar Snæbjörns geta af sér.

Nú þegar við erum búinn að viðurkenna fyrir sjálfum okkur að leikhúsið eins og það er presenterað á Íslandi í dag tilheyri einni stétt en ekki annarri. Ákveðnum tekjuhópum en ekki öllum langar mig til að varpa fram einni sýn. Einni pælingu. Einni spurningu.

Leikhús fyrir fátæklinga.

Hvernig myndi það líta út?

Ef við ímyndum okkur að á Íslandi væri rekið leikhús – velheppnað, metnaðarfullt og vinsælt leikhús fyrir fátæklinga. Fátæklinga as in fólk með lágar tekjur. Fólk sem hefur ekki efni á leikhúsmiðum. Heldur ekki bíómiðum. Hefur ekki efni á nýjum gallabuxum. Hvað þá tannlækni. Fólk sem verður kannski pínulítið reitt við hver mánaðarmót þegar launaumslagið særir það – og það svíður alltaf. Fólk sem hefur ekki efni á að borga reikningana. Fólk sem þarf að neyta sér um alminleg matvæli. Fólk sem þarf að neyta sér um áhugamál. Fólk sem fer svangt að sofa. Fólk sem þarf að neyta börnunum sínum um það sem vinum þeirra þykir sjálfsagt.

[Finnst ykkur þetta vera of yfirgengilegt hjá mér? Óþægilegt? Eruð þið hætt að tengja? Ok. Flott. Kannski er það til merkis um ykkar eigin forréttindi.]

Hvernig myndi þetta leikhús líta út?

Höfundur er atvinnuleysingi, búsettur í Finnlandi, skammt frá Rússnesku landamærunum.

Takk, Snæbjörn – fyrri hluti