Vattenfallet // Fossinn eftir Nils Dardel.

Spennt nálgast: 1. september

Maður þarf sjaldan jafn mikið á spenningi að halda og á mánudögum – ekki síst svona þegar haustið er að bresta á. Starafugl vill vera öðrum að gagni, gerir hvatningarorð Sölva Fannars að sínum – „Í dag verð ég mikilfenglegastur frumuklasa“ – og hleypir af stokkunum nýjum dagskrárlið: Spennt nálgast.

Einhver mikilvægasti gjörningur menningarandans er neimdroppið – það kemur listaverki til nýrra skilningarvita sem það sprengir vonandi upp á gátt. Án neimdroppsins hefðum við aldrei lært neitt af viti. Spennt nálgast er reitur til að láta vita af því magnaðasta sem þú (og við) hefur lesið, heyrt, séð, snert, gleypt eða á annan máta innbyrgt og þú (eða við) vilt deila með öðrum. Lag, ljóð, bók, plata, myndlistarsýning, myndband – þið getið ýmist skrifað ábendingarnar í kommentakerfið eða sent þær á starafugl@gmail.com (og þá munu þær birtast nafnlaust).

Starafugl fagnar að venju sérstaklega því obskúra og framandi, því sem gleymdist eða er við það að gleymast – en hefur ekkert á móti Rihönnu.

Skáldsagan Love Like Hate frá árinu 2010 eftir víetnamska-ameríska rithöfundinn og ljóðskáldið Linh Dinh 1 fjallar um Kim Lan og Hoang Long og segir frá hjónabandi þeirra, afkomendum og aðstæðum. Hún spannar síðustu 50 árin og sögu Suður Víetnam á þessum tíma – og fjallar meðal annars um fólkið sem fannst Bandaríkjamenn hreinlega hafa yfirgefið sig. Stríðið er þarna einhvern veginn alltaf einsog nöfin – allt hreyfist í takt við það, en bókin fjallar um svo miklu meira, um hefðirnar og ástirnar og hörkuna, með seigfljótandi og biksvörtum húmor.

Ef þið viljið heldur lesa hefðbundna Víetnamstríðssögu um dópandi hermenn í hafi af rotnandi líkömum, sem koma heim í þeirri trú að þeir séu hetjur en mætir ekkert nema útigangslíferni og áfallastreituröskun mælir Starafugl með The Sorrow of War eftir Bao Ninh – sem er að mörgu leyti einsog Platoon og Fourth of July á röngunni og fjallar um hermann í Norður Víetnamska alþýðuhernum.

Hat Cheo Thuyen er svo frábært grúv með Víetnamska dan bau spilaranum Pham duc Thanh og gott til að ná sér niður eftir ósköpin hér að ofan. Það má jafnvel setja það á rípít.

fagelskramman

Fuglahræðan // Fågelskrämman eftir Nils Dardel.

Sænski myndlistarmaðurinn og spjátrungurinn Nils Dardel (1888-1943) er þess virði að maður myndagúgli honum – eða ef maður er í Stokkhólmi má líta við á Moderna Museet og fara á sýningu (sem verður tekin niður þann 14. september næstkomandi).

Ætar kökuskreytingar er væntanleg ljóðabók frá Emil Hjörvari Petersen – þriðja ljóðabók Emils (sem er þekktari fyrir Sögu eftirlifenda – en Starafugl birti einmitt tíser úr þriðja og síðasta bindinu á dögunum) og sjötta ljóðabók í flokki kaffibollaseríu Meðgönguljóða. Emil heldur útgáfuhóf í Bókabúð Máls og menningar á fimmtudaginn klukkan 17. Starafugl hefur ekki mætt í þetta partí eða lesið bókina – en er spenntur fyrir hvorutveggja.

Tímaritið The Reykjavík Grapevine – sem er oft ritstýrt af innanbúðarfuglinum Hauki Magnússynigaf í gær heila plötu með stuðbandinu Pink Street Boys (sem Haukur segir að sé hugsanlega besta íslenska plata allra tíma, hann er samt ekki alveg viss). Við mælum með því að þið tékkið á henni. Þá hefur ný skífa Sólstafa, Ótta, verið að fá rokna dóma úti um allar trissur – hún kemur í búðir í dag (við mælum með því að þið farið út í búð frekar en að kaupa hana af netinu, og svo finnum við heldur ekki góðan hlekk).

Starafugl var búinn að benda á Somebody-app Miröndu July – það er frábært – en mælir einnig með smásagnasafni hennar Noone Belongs Here More Than You (og þeir sem fíla það ættu líka að tékka á Eeeee eee eeee eftir Tao Lin). Þar má meðal annars lesa um vatnshrædda sundkennara, miðaldra laumuhomma sem dreymir um kynlíf með unglingsstúlkum og fleira – en það er stíllinn, húmor sem er í senn svo hlýr og kvikindislegur, svo náttúrulegur og afbrigðilegur, sem gerir Noone Belongs Here More Than You að æðislegri bók.

Látið okkur endilega vita hvað ykkur finnst magnað. Þetta er bæði auðveldara og skemmtilegra ef þið takið þátt. Kommentakerfið er opið og netfangið er starafugl@gmail.com.

   [ + ]

1. Þess má geta að Linh Dinh var gestur ljóðahátíðar Nýhils árið 2007