Eitt verka Gilberts & George. Mynd: tate.org.uk

Spennt nálgast: 06.10.2014

Tónlist: Thee Faction er bresk hljómsveit sem að eigin sögn spilar sósíalískt R&B – ekki mótmælasöngva, heldur lausnasöngva. Í fyrra gaf hún út plötuna Good Politics: Your Role As An Active Citizen Within Civil Society með smellum einsog What Susie Digs (hún fílar kommúnisma en þolir ekki firringu), Better Than Wages (t.d. frítími) og Scared of Us. Platan er ekki fáanleg í verslunum og það er ekki hægt að hala henni niður neins staðar – Thee Faction er pólitískt mótfallin milliliðum (nema Paypal, að því er virðist) – en það er hægt að panta hana af þeim beint fyrir slétt sjö pund og fá hana senda hvert sem er án sérstaks sendingarkostnaðar. Hún kostar bara sjö pund, punktur.


Bíó: Under the Skin er vísindatryllir frá því í fyrra í leikstjórn Jonathans Glazer. Myndin er lauslega byggð á samnefndri skáldsögu frá árinu 2000 eftir Michel Faber og fjallar um unga geimverukonu, leikna af Scarlett Johansson, sem rúntar um á sendiferðabíl og pikkar upp karlmenn, tælir þá með sér heim þar sem hún umlykur þá myrkri.


Leikhús: Það er kannski ástæðulaust að benda á það sem allir aðrir eru að benda á – en Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason fær glimrandi dóma þessa dagana og birti höfundurinn eftirfarandi mynd á Twitter í gær, að vonum ánægður:


Bókmenntir: Út í vitann eftir Virginiu Woolf, nýkomin í bókabúðir – loksins, loksins, tæpum 90 árum eftir að hún birtist fyrst á ensku – eftir því sem við komumst næst í þýðingu Herdísar Hreiðarsdóttur (það er ekki tekið fram á heimasíðu Eymundsson og heimasíða forlagsins, Uglu, hefur ekki verið uppfærð lengi – en á Skemmu má sjá að Herdís hefur þýtt þessa bók og skrifað um hana ritgerð; við gefum okkur að ósennilegt sé að tveir aðilar hafi þýtt hana um svipað leyti þótt það sé auðvitað ekki óhugsandi). Starafugl leyfir sér bara að taka undir orð útgefanda: „Út í vitann […] er jafnan talin einn af hátindum nútímabókmennta, einkum fyrir sakir nýstárlegs frásagnarmáta og sálfræðilegs innsæis. Í bókinni er skyggnst inn í líf fjölskyldu og gesta hennar í sumarleyfi á skosku Suðureyjunum. Virginia Woolf (1882–1941) er einn af fremstu rithöfundum 20. aldar.“

Beauty was not everything. Beauty had this penalty — it came too readily, came too completely. It stilled life — froze it.

(Við myndum vitna í þýðinguna ef við hefðum komið
yfir hana höndum – sem gerist vonandi mjög fljótt)


Framúrstefna: Tíu boðorð Gilberts og Georgs. Gilbert Prousch og George Passmore eru tveir breskir myndlistarmenn, sem eru meðal annars frægir fyrir boðorð sín – en líka vel þess virði að myndagúgla. Myndbandið er í boði UbuWeb.

Látið okkur endilega vita hvað ykkur finnst magnað. Þetta er bæði auðveldara og skemmtilegra ef þið takið þátt. Kommentakerfið er opið og netfangið er starafugl@gmail.com.