Smalar, shamanar og óargadýr: Dagur 2 á Reykjavík Dance Festival

– Lítil stelpa með gullhjarta deyr við það að verða stelpa

og upprunalegi afríkudansinn vinnur ballettinn.

 

Solid+Gold_7449_Christian+Tundula

Solid Gold

Ég varð strax spennt fyrir sýningunni þegar ég vissi að annar dansarinn væri frá Kongó. Þetta yrði þá alvöru dans! Leikmyndin var engin og áhorfendur voru beðnir um að slökkva á farsímum því það væru nemar í salnum sem gætu numið farsímabylgjur. Þegar ég gekk inn í salinn tók ég eftir dansaranum sem sat í áhorfendastúkunni og það var flott innkoma þegar hann stóð upp og gekk inn á sviðið. Hann byrjaði með bakið í áhorfendur og byrjaði að hristast eins og í flogi með því að virkja ósjálfráða taugakerfið eins og frá ósjálfráðum straumi. Þessi straumur hefur svolítið verið í tísku í samtímadansinum og það er alltaf hálf pirrandi að sjá hluti sem eru í tísku þó þeir séu flottir. En, jæja, það er líka hægt að horfa fram hjá því og dást að hæfileikum dansarans og finna líkamlega fyrir áhrifunum hreyfingarinnar.

En hreyfingarnar voru gjörsamlega dáleiðandi þegar hristitransinn var búinn. Silkimjúkar og sterkar á sama tíma, hendur sem hreyfast eins og í vatni eða hunangi og fætur sem stíga þéttan takt. Þessi taktur var svo numinn af tæknigræju og hljóðin endurómuð. Dansarinn framkallaði þannig tónverk með dansinum, losnaði frá takmörkunum líkamans og fyllti í rauninni út í allt rýmið með hljóðbylgjunum sem hann framkallaði.

Svo fór hann í gegnum mismunandi dansstíla, eins og yfirlit yfir svarta danssögu. Enginn ballett þar. Allt frá náttúrutengdum athafnadansi til salsa og krumps og sýningin kveikti mikla löngun til að dansa. Að mínu mati hefði þó mátt stytta sum atriðin og kannski blanda stílunum meira saman á skilunum á milli stefna.

Julie

Seinni sýningin byggðist á sömu hugmynd, að vinna með hljóðin frá dansaranum. En þarna var dansarinn með frábæra rödd og söng heimslög með popplögum inn á milli. Þegar röddin var endurblönduð gerðust einhverjir töfrar sem eru svo eftirsóknarverðir í leikhúsi. Hún var frábær dansari en eins og í fyrra verkinu hefði mátt stytta marga kafla og á tímabili var ég orðin þreytt á því sem var að gerast. Sérstaklega þegar hún endurtók ti ti ti úr chicitita. Þá mundi ég eftir því af hverju ég nenni stundum ekki að fara á danssýningar. Leiðindaaugnablikið. Þar sem þú kemst ekki neitt og langar mest til að verkið klárist en það gerist ekki. En svo byrjaði ég að pæla í þessari pirrandi ti endurtekningu. Chica- stelpa og chiquitita- litla stelpa … var þetta augnablikið sem lítil stelpa er að verða að stórri stelpu, eða var ég að lesa of mikið í þetta? Á endanum var eins og dansarinn gripi hljóðið og eyddi því út með hendinni og á sama tíma stöðvaðist ti-slátturinn og píphljóð úr hjartalínuriti tók við. Á undarlegan hátt kærkomið píp. En þetta var táknrænt augnablik og ef báðar sýningarnar eru lagðar saman má komast að mörgum áhugaverðum pælingum eins og hvort hafi komið á undan tónlistin eða dansinn eða skiptir það einhverju máli? Hvað er alvöru dans? Er það ballett eða transdans frá uppruna mannsins. Var þetta sýning til að vekja athygli á óformlegum dansi sem er mun eldri og dreifðari en ballett nokkru sinni. (kannski gott fyrir uppskrúfaða balletsnobbara). Og er þá konan kúguð eins og frumdansinn? Það er hægt að pæla í ýmsu út frá þessu.

Annars var eins og tæknin réði stundum svolítið sýningunni. Eins og það vantaði niðurskurð í atriði, meiri vinnslu og ófyrirsjáanleiki því þau voru oft langdreginn og mér fannst hún bera þess merki að þessi hljóðtækni væri heldur ekki alveg nógu þróuð. En dansararnir voru ótrúlegir og hreyfingarnar dáleiðandi. Það mynduðust mörg mögnuð augnablik og tónverkið sem myndaðist með dansinum var flott á löngu köflum. Að mínu mati hefði danshöfundurinnmátt mátt klippa og stytta en kannski er ég ekki í nógu góðri þjálfun við að horfa á dansýningar.

 

Fronting

Fyrirliðarnir í hljómsveitum eru smalar, shamanar og óargardýr háðir eða tengdir áhorfendum. Þeir bera ábyrgð á kraftinum í skemmtuninni. Skemmtikraftar. Hvernig axla þeir þessa ábyrgð?

Sýningin samanstóð af þremur sólóum þar sem mismunandi tónlistarfyrirliðar komu fram og héldu tónleika án söngs og tónlistar nema þeirrar framkallaðri eða miðlaðri af líkamanum. Hvernig axla þau miðlunarábyrgðina? Hvernig opna þau hjartað á sér og hvað er inn í hjartanu? Eða snýst þetta bara um stemmningu eða nógu beitta króka?

Andinn í sólói Gunnars
Dansandi í reifi í margmenni með glimmerið í loftinu.
Hoppandi með fjöldanum
svingandi.
Berjandi á bringu,
æsandi,
tælandi
farandi yfir strikið.
Elskandi áhorfendurnar. Elskandi.
Sitjandi svo niður (búinn á því).
Andandi
Dansandi aldandi axladans
Glennnutrúðandi
Sexítrúðandi
Goð eða vélmenni
Stónsstælandi
Stuðandi hræddur stuðbolti
Feikandi
Fórnandi sér
Standandi óhræddur upp eftir fórnina
Bíðandi eftir viðbrögðum
Vill ekki sleppa
Fyllandi af mikilmennskubrjálæði
Fáránlegur töffari
Keyrir trix
Höndin og stýrið
Breytist svo í Jesú á krossinum
deyr titrandi
Liggur ekki nógu lengi í dái
Reynir svo að hrista eitthvað út
Það virðist ekki takast
Fórnandi sér
Reiður
Það virðist ekki enn takast
Svo hann fær nóg
Og fer út
 

 

Andinn í sólói Kötu
Kippandi mjúkum ósjálfráðum kippum sem berast niður líkamann í bylgjum
eins og höggöldur.
Jákippir og neikippir.
Spennan magnast með
lyftandi höndum með jákippum eins og fullnæging.
Eðlisdansandi
höfuð og hár slammandi
eins og dýr með sjálfstætt líf.

 

Andinn í sólói Unnsteins
Líkamsljóð um
Rómantískt númer
tregi þögn.
Skemmtandi kraftur.
Grípandi klöpp
Stjórnandi áhorfendum eins og smali.
Glóandi. Kynnandi hljómsveitina
Gerandi smá grín að öllum
 

Vegna þess hve verkið var grípandi eru ljóðin styttri því sem líður á sýninguna en það er eðli þessara frábæru listamanna í miðlun. Auk þess voru skynfærin orðin næmari fyrir líkamstónlist eftir verkið á undan og mér finnst vert að minnast á það hversu vel verkin voru valin saman á hátíðinni.