Skjaldborg er eitt af segulmögnum Vestfjarða þegar sumarvertíðin hefst og viðeigandi þegar sumarlangar nætur í ægifögru landslagi að fegurðarfíkillinn Kossakovsky sé aðalgestur hátíðarinnar. Það var ekki laust við að hin háleita fegurðarumræða og ofurrómantík sem tröllríður listþönkum landans fengi sinn skerf beint í æð á opnunarmynd hátíðarinnar, ¡Vivan las Antipodas! eftir Kossakovsky. Þessi mynd hans er óður til fegurðar og einfaldleika, ljóðræn upplifun sem kallast mun sterkar á við myndlist en sögudrifna framvindu heimildamynda þar sem upplýsingar eða fræðsla um ákveðið efni er meginviðfangið. Myndin er langt ljóð um andpóla á átta stöðum á jörðinni þar sem kvikmyndataka og hljóð markast af öfgum. Upplifunin er því all sérstök og ekki laust við að reyndi nokkuð á opnunarsýningargestina, þó megnið af þeim hafi verið stórhrifið af dramanu sem kvikmyndatakan og nálægðin við einfalda litla hluti skapaði, og minnti stundum á ofurraunsæi dýralífsmynda, stemningu sem hverfist um litla atburði á afskekktum stöðum, stundum jafnvel stöðum sem hverfast meira um ægifegurð en mannlíf og framvindu sem við tengjum við frásagnarlist kvikmyndarinnar.
Það finnst vel á hátíð sem þessari, þar sem fjölbreyttar myndir eru til sýnis, hversu persónulegar og sérstakar myndir Kossakovskys eru, fullar af einhverskonar ólgandi þrá en um leið rómantískri depurð, litbrigði mannlífs í sterkum andstæðum og táknmyndum sem varða smæð einstaklingsins frammi fyrir kerfinu, massanum, Sovétinu. Nostalgíska ljóðrænan í ofur raunsæislegum stíl hans, t.a.m. í Miðvikudagur 19. júlí 1961 vekur hughrif sem setur Rússland samtímans í annað samhengi en við eigum að venjast; þar sem einhverskonar sagnfræði er komið á framfæri, viðhorfum, pólítískum boðskap. Pólítíkin í þeim myndum sem sýndar voru á hátíðinni er annars konar pólítík, þær eru pólítískar því þær krefja okkur um að stoppa við og einbeita okkur hægt og rólega að hinu mannlega, margbrotna, beygða. Um það snýst íhugunin.
Það var ekki laust við að upplifunin á stílbrögðum Kossakovskys, sem stundum var krefjandi, hafi þvingað mann í stellingar þar sem maður fylltist efasemdum og leiða yfir stýringu sjónarhornsins í nokkrum öðrum „fræðandi“ heimildarmyndum, þar sem sögumaður eða þularrödd leiðir áhorfandann að niðurstöðu (boðskap) myndarinnar. Eins má segja að skringilegheitin í sumum klippum hans, þar sem t.a.m. hægt pan myndavélar niður götu í leit að einföldu smáatriði – þar sem jafnvel ekkert „á sér stað“ – hafi haft þau áhrif á mann að manni fór að leiðast mjög 3 sekúndna klippireglan í öðrum myndum, þar sem „smáatriðum“ á klimaxi er slett inn eins og glimmer til að skreyta myndir sem eru annars fastar í einhverskonar boðunarrás. Við þörfnumst lofts/andrýmis í myndum þar sem okkur er boðið að upplifa okkur í sporum spectatorsins, heimildargerðarmannsins: Ein mynd á hátíðinni fangaði þessa spennu sérstaklega vel, hið persónulega ferðalag kvikmyndagerðamannsins og sjálfsmynd viðfangsins, myndin Salóme eftur Yrsu Roca Fannberg – en hún hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar í ár. Það fór vel á því að mörgu leyti þar sem Yrsa nam við heimildamyndagerðardeild Pompeu Fabra í Barcelona, þar sem Kossakovsky kennir í dag og myndin er framleidd af nemanda Kossakovsky frá sama skóla, Helgu Rakel Rafnsdóttur hjá Skarkala ehf.
Lærdómsrík hátíð fyrir fagfólkið sjálft.
Áhugaverður þáttur hátíðarinnar eru hlutinn Verk í vinnslu þar sem höfundarnir kynna verk sín og konsept þeirra. Sá hluti gefur ákveðið tækifæri til þess að verkunum sé lýst og það ferli sem lagt er upp með að skili sér í fullgerðum myndum. Þannig verður til kreðsa fagfólks sem hefur aukna innsýn í það sem aðrir eru að gera í bransanum og því er þessi hátíð mikilvægur þáttur í dynamískri senu kvikmyndagerðarfólks á Íslandi. Sýnt var úr nokkrum áhugaverðum verkum sem von er að komi úr framleiðslu á næsta ári. Þar á meðal voru kynntar mynd um Ólaf Stefánsson handboltakappa, mynd um lífsýnasöfnun Decode, Keep Frozen – mynd um löndunargengi í Reykjavíkurhöfn sem lofar góðu – og Nýjar hendur, um handaágræðsluferli Felix Gestsonar sem fram fer í Frakklandi. Einn af kostunum við þennan hluta er að minni líkur eru á að góðar hugmyndir sem þar eru kynntar dagi uppi þegar fram líða stundir.
Ein af þeim myndum sem lengi hefur verið beðið eftir – frá því hún var kynnt í slíku slotti fyrir fimm árum síðan – var einmitt lokasýning hátíðarinnar í ár, Aumingja Ísland; ern eftir aldri eftir Ara Alexander Ergis Magnússon. Myndin er nokkurskonar rímíx, endurblönduð og aukin mynd föður Ara, Magnúsar Jónssonar kvikmyndagerðarmanns og byggir á klassískri og umdeildri mynd hans Ern eftir aldri. Það má segja að það sé gott að minna okkur á eldri myndina með þessari endurgerð og vekur áhuga á henni en rímíxið er hálf stefnulaus og ófullkláruð mynd þó hún birti einhverskonar spéspegil af því að íslenskt stjórnmál séu jafn innihaldslaus og frasakennd í dag eins og fyrir 40 árum. Í myndinni er örlítill sprettur sem vakti áhuga undirritaðs, brot af 10 ára gömlum heimavídjóum klippara myndarinnar Frosta Jóns Runólfssonar úr vinnubúðum á Kárahnjúkum. Þar var og þó um ákveðinn sentimentalisma að ræða þar sem einstaklingurinn sem rætt var við lést fyrir aldur fram, sem og undarlegan og langdreginn kafla um hetjuför InDefence-hópsins í IceSave deilunni til London með undirskriftir vegna meintrar misbeitingar breskra stjórnvalda á ákvæðum hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum. Tengingarnar og ákveðnir listrænir stælar í myndinni gerðu það að verkum að myndin rann fyrir ofan garð og neðan, þrátt fyrir að vera að einhverju leyti áhugaverð sem myndlist per se.
Eins og áður sagði hlaut Salóme aðalverðlaun hátíðarinnar og er það listaverk á þeim skala sem fær áhorfandann bæði til að velta fyrir sér nýjum hliðum á forminu, raunvanda heimildamynda og sjálfsmynd sinni um leið og óljós saga er rakin án þess að verkinu sé ætlað að varpa upp einhverri skýrri mynd af „sannleikanum“. Áhorfandinn er meðvitaður um það að lokum að hann hefur engar forsendur til að fella dóma yfir viðfanginu eða höfundi myndarinnar en hefur um leið fengið tíma og rými til að horfast í augu við þörf sína fyrir að gera nákvæmlega það.
Uppbygging myndarinnar er óhefðbundin og afskaplega persónuleg en gengur á einhvern furðulegan hátt upp og það alveg án þess að stökkva á auðveldar lausnir sem feli í sér niðurstöður eða dóma. Þar er einlægni höfundarins lykilatriði til mótvægis við það sem í fyrstu virðist kalt viðhorf viðfangsins til tilraunar dótturinnar til að mynda lífið. Myndin skilar því merkilegri sýn á líf og list sem farveg persónulegrar tjáningar sem ekki þarf að skýra eða fella að forákvörðuðum gildum eða viðmiðum um framvindu og mikilvægi atburðarásar. Það er ánægjulegt að upplifa og ferskur vindur ef sá stíll er borinn saman við það form sem flestar myndirnar í keppninni virtust nokkuð fastar í.
Óþarfi er að rýna í eða gera öllum myndum hátíðarinnar skil hér en
vert að minnast á umfjallanir Ásgeirs Ingólfssonar á Klapptré hér og hér og hér og hér …