Rýni: Líkmenn glatkistunnar eftir Bjarka Bjarnason

Ég ætlaði ekki að fara á bókasafnið. Ég átti ennþá sex bækur ólesnar frá því ég fór þremur vikum fyrr – hafði ekki snert þær. Þess utan átti ég keyptar/gefnar á bilinu 20-30 bækur til viðbótar sem ég var óður og uppvægur að komast í. Ég les hægar en flestir og margfalt hægar en ég þyrfti að gera til að seðja lyst mína. En sonur minn fjögurra ára graðgar þessu í sig – enda kann hann ekki að lesa og þar fyrir utan miklu færri stafir í hans bókum – og var búinn með allan sinn bunka hundrað sinnum. Auk þess hafði ég gleymt hönskunum mínum á bókasafninu í síðustu heimsókn. Héraðsbókasafni Ísafjarðar. Sem er í gamla sjúkrahúsinu. Fallegasta bókasafni landsins. Og þess vegna fór ég samt. Þótt ég þyrfti engar bækur og mætti eiginlega alls ekki við þeim.

Aram Nói hreiðraði um sig á barnabókadeildinni og ég ranglaði um í eirðarleysi. Leit í skápinn með nýjustu bókunum. Ráfaði inn í skáldsagnadeildina og skimaði hillurnar af gömlum vana. Og tók fram eitt og annað, einsog maður gerir, leit inn í það og skilaði aftur til baka. Var ekki viss hvort mig langaði að lesa sumt, var ekki einu sinni viss hvort ég væri búinn að lesa annað. Beið þess að Aram væri búinn að velja nægju sína svo við gætum farið. Við vorum boðnir í mat og máttum eiginlega alls ekkert vera að þessu. Og ekki einsog mig vantaði neinar bækur.

Ég tók síðan fram bókina Líkmenn glatkistunnar eftir Bjarka Bjarnason. Eiginlega tók ég hana bara fram vegna þess að mér sýndist standa Bjarni Bjarnason og ég kannaðist ekki við að sá ágæti maður hefði skrifað bók með þessu nafni. Ég las fyrstu síðurnar þar sem fjallað var um heimkomu handritanna 1971 og að „hugsanlega“ væru fimm kíló af hassi ofan í kassanum með Flateyjarbók („Jeg siger mange tak for hashen i kassen“ segir Gylfi Þ.„og enginn tók eftir því frekar en hann væri að þakka fyrir matinn“). Textinn þótti mér furðu lifandi fyrir íslenska skáldsögu, óforskammaður, gáfulegur en fullur af brennandi aulahúmor – dálítið megaskur, kannski, eða guðbergskur, oft alveg við það að rjúka út í geim, nuddar sér utan í almættið og lágkúruna í senn. Kannski fyrst og fremst texti sem að leyfir sér – íslenskir rithöfundar eru yfirleitt of passasamir til að skrifa glannalega og ef þeir eru það ekki þá er alltaf einhver sem réttir þá af fyrir útgáfu.

Svo ég tók bókina að láni og frestaði öllum hinum, setti hana fremst í röðina. Líkmenn glatkistunnar fjallar um bókmenntaunnandann Ingólf Arnarson (sem er með Heimsljós á heilanum) og fóstbróður hans, Leif Hróðmarsson – hún hefst einsog áður segir við heimkomu handritanna en eftir það munstra þeir bræður sig á togara, fara með honum til Þýskalands þar sem þeir stinga af og enda í hippanýlendunni Friðriksíu í Kaupmannahöfn, þar sem þeir fást meðal annars við klámmyndaleik og alvarlegri leiklist, áður en Ingólfur snýr aftur til Íslands í tæka tíð fyrir lýðveldishátíðina.

Ég hef enn ekki sett fingurinn á það nákvæmlega hvað það er sem mér finnst svona dásamlegt við bókina – að mörgu leyti er það alveg rétt sem gagnrýnandi Morgunblaðsins, Börkur Gunnarsson, sagði á sínum tíma að stefnuleysi aðalsöguhetjanna nái inn í sögubygginguna „þannig að lesandinn verður hálf-áttavilltur líka“. En það er einhver veginn bara ekkert verra, það er eiginlega bara betra, og þvert á Börk fannst mér það kannski einmitt verða til þess að sagan náði mér með afgerandi hætti. Form og innihald héldust þannig í hendur og hjálpuðust að við að skapa sérstaka stemningu.

Svo undirstrikaði það áttavillurnar að ég skildi aldrei hafa heyrt um höfundinn – og segir eitthvað um smæð íslensks bókmenntasamfélags að það sé beinlínis stórfurðulegt að ríflega þriggja ára gömul skáldsaga hafi farið framhjá mér – og ekki hafði ég heldur heyrt um forlagið „Frá hvirfli til ilja“. Ég leit ítrekað á kápuna til að rifja upp bæði titil bókarinnar og nafn forlagsins – og hvort höfundurinn héti ekki áreiðanlega Bjarki en ekki Bjarni (sem hefur átt alls kyns góð furðulegheit til sjálfur, meðal annars í Mannætukonan og maður hennar) – og þetta væri nú allt saman til í alvörunni, ég væri ekki bara að ímynda mér þetta.

Kaflarnir eru stuttir og sagan ekki beinlínis á leiðinni neitt – ekki frekar en í mörgum góðum bókum. Hún reynir að segja manni eitthvað annað en að ferðalagið liggi frá A til B og boðskapurinn sé einn, tveir og bingó. Hún er full af ljóðum og ævintýrum og útúrdúrum og skáldskapartilraunum – og ég hafði það á tilfinningunni að upp úr henni mætti fiska heilu trollin af vísunum, þótt ég sé líklega ekki maðurinn til að koma auga á margt slíkt. Og allt þetta á rétt ríflega 100 litlum síðum. Það segir svo líka sitt að söguþráðurinn er eiginlega allur rakinn í 40-50 orðum á baksíðu bókarinnar – að meðtöldum endanum.

Einsog með allt sem er gott er mesti sannfæringarkrafturinn – og mig langar að sannfæra ykkur – fólginn í því að taka einfaldlega dæmi (þótt í því felist víst lítil eiginleg rýni, hvað þá sú faglega rýni sem við eigum að stunda hér). Til að vera viss um að ekkert fari til spillis ætla ég að taka tvö. Þegar skip þeirra fóstbræðra er að koma til Brimarhafnar játar skipstjórinn Sæmundur það fyrir Ingólfi að hann sé hrifinn af konu sem bíði hans á hafnarbakkanum, eftir að hafa uppgötvað hagmælsku Ingólfs. Biður hann Ingólf að yrkja fyrir sig ástarkvæði á þýsku – sem þessi aðdáandi ljósvíkingsins getur auðvitað ekki neitað – því ekki bara er skipstjórinn ekki skáld heldur kann hann litla þýsku ofan í kaupið. Kaflinn Germania hefst síðan svo:

Þegar Sæmundur skipstjóri hafði bundið skip sitt í Brimarhöfn gekk hann þungum skrefum í land. Hann er meðalmaður á hæð en útlitið skiptir ekki máli nema í augum konunnar sem stendur á bryggjunni og bíður hans. Hann var hálfstirður í þýskunni sem hann hafði numið í Bréfaskóla SÍS en einnig með aðstoð Linguaphone eins og heyra mátti á spurningum hans.

Wie heissen Sie?

Das weisst du doch Saemundur, was ist los an dir?

Woher kommen Sie?

Kennst du mich nicht Saemi? Ich bin deine Freundin Maria.

Wie spät ist es?

Es ist früh genug für die Liebe.

Mein Name ist Saemundur und hier ist ein Liebeslied von mir:

Die Frau ist hier die ich liebe
ich finde sie im Stand.
Ich grusse sie mit Gute
und greife ihre hand.

Oh, wie schön, bist du ein Dichter?, segir María og leiðir Sæmund út úr sögunni á meðan fóstbræðurnir ganga eftir hafnarbakkanum og skima í kringum sig.

Félagarnir rekast svo á mann sem er klæddur að hætti Rómverja og talar bara latínu.

Einn skemmtilegasti kaflinn heitir svo Rúgbrauðsgerðin og fjallar um það þegar Leifur hættir í klámmyndaleiknum.

Um haustið sagði Leifur við mig upp úr eins manns hljóði: ég er búinn að fá fasta vinnu.

Nú? Starfar þú ekki sem leikari?

Nei, ég er nú orðinn hundleiður á því fokki og lífið er enginn leikur, min ven. Nýja starfið er af öðrum toga en ég get ekki sagt meira um það að sinni vegna viðskiptahagsmuna. Get þó upplýst að það tengist Rúgbrauðsgerðinni, bætti hann við ábúðarmikill eins og mafíósi eða íslenskur stjórnmálamaður.

Ég vona að þú bakir ekki vandræði, sagði ég.

Enga aulafyndni hér, sagði Leifur, og sýndi á sér fararsnið. En ég hyggst flytja héðan úr Parthenon, og er búinn að fá íbúð inni í Köbenhavn.

Þá tók ég eftir því að Leifur var kominn í jakkaföt, sem ég hafði aldrei séð fyrr í Friðriksíu.

Hann sá að mér brá.

Vertu alveg rólegur, sagði hann. Þetta eru bara nýju vinnufötin mín, ég er hættur að vinna allsber.

Það er ýmislegt sem getur valdið því að maður fagni einni bók umfram aðrar – aðstæður eru einfaldlega algert aðalatriði. Að maður sé vel stemmdur. Ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef kastað frá mér bókum með formælingar á vörunum, til þess eins að taka þær aftur upp seinna og draga fullkomlega í land með svívirðingarnar (þetta gerist að vísu jafn oft á hinn veginn). Mér fannst gaman að finna bókina og vita ekkert um hana, hafa engar væntingar til hennar. Mér fannst gaman að hún væri leyndardómsfull. Fannst gaman að vera ekki viss hvort nokkur þekkti til hennar annar en ég. Mér fannst gaman að hneykslast þegar ég ímyndaði mér að höfundurinn hefði farið með hana á öll helstu forlög en verið gerður afturreka – einsog mér finnst gaman að hneykslast að íslenskum menningarheimi, svona almennt. Að heimurinn hefði hafnað henni – hlandvolgur dómur Barkar gladdi mig, það hefði verið mun leiðinlegra (fyrir mig) ef honum hefði þótt jafn mikið til hennar koma og mér (þótt ég hljóti auðvitað að spyrja mig, einsog maður gerir: hef ég þá rangt fyrir mér/ekki lýgur mogginn?)

En fyrst og fremst fannst mér bókin áhugaverð, dálítið óforskömmuð og fjarskalega skemmtileg.