Ritstjórnarpistill: Með grátandi nasista á öxlinni

Það tekur á að upplifa misheppnað listaverk. Það er næstum vandræðalegt, tilfinningin er einsog að ganga inn á einhvern á klósettinu: Ó, varstu að gera vont listaverk hérna, afsakaðu. Svo lokar maður hurðinni og gengur út í hléi. Fer aftur fram í stofu og segir: Vitiði hvað hann er að gera þarna inni? Því maður þegir ekki yfir svonalöguðu. Það er siðlaust.

Í gær fór ég og sá Nóa eftir Darren Aronofsky. Hún var dálítið svona. Reyndar var ég búinn að lesa svo margt slæmt um hana áður en ég fór – svo mikið að það má spyrja sig hvers vegna í ósköpunum ég fór – að líklega hefur það dregið mikið úr högginu. Myndin er einfeldningslegt bull upp úr magnaðri sögu, hrært saman við einhverja nýaldarnáttúruverndarstefnu og biblíufasískan heimsósóma. Mikið af því síðarnefnda á reyndar augljóslega uppruna sinn í bókinni góðu – sagan af syndaflóðinu, drottnaranum sem þóknaðist að tortíma heiminum sem olli honum vonbrigðum, inniheldur einhvern ljótasta boðskap bókmenntasögunnar.

En það sló mig líka að annað en með mörg pólitísk listaverk þá hafði ég þrátt fyrir allt engan ímugust á Nóa. Mér leið aldrei einsog hún væri að gera mér neitt. Ekki einsog mér leið til dæmis þegar ég las Hreinsun eftir Sofi Oksanen um árið, sem mér fannst vera dólgslegur yfirgangur. Kannski var það einmitt vegna þess að hún var ekki að öllu leyti „illa gerð“ ¬– hún náði inn á mig, náði sambandi við tilfinningalífið í mér og hafði þannig greiðari aðgang að heilabúinu. Mér fannst hún vera manipúlerandi og mér fannst ég að mörgu leyti berskjaldaður gagnvart henni.

Listamenn vinna (meðal annars) við að framleiða tilfinningar. Og þegar sú vinna blandast miklum pólitískum meiningum, hvort sem þær meiningar eru fasískar eða róttækar eða bæði, verður til svæði sem er í senn afskaplega heiðarlegt og óheiðarlegt. Svona einsog þegar maður tilfinningakúgar fjölskylduna sína til að vera sammála sér með því að opna fyrir allar flóðgáttir. („Ef þú kemur ekki með mér og mótmælir Evrópusambandinu þá sker ég mig á púls!“) Nói náði ekki sambandi og því var þetta bara einsog að lesa yfirdrifið dramatískt opnuviðtal við einhvern sem maður þekkir ekki. Maður ypptir öxlum og hugsar: voðalega getur fólk nú vælt. Að lesa Hreinsun var hins vegar líkara því að elska grátandi og innilegan nasista (ég tek hana ennþá nærri mér og vil hafa um hana stór orð).

Það er heilmikið vald sem maður gefur listamanni þegar maður leyfir honum að krukka í heilanum á sér, krukka í tilfinningalífinu, og þeyta manni austur og vestur eftir fagurfræðilegu behag. Það er brjálæðislegt, eiginlega, að nokkur maður skuli þiggja slíkt vald. Og óþægilegt hversu margir virðast taka því sem gefnum hlut. Gera einfaldlega áhlaup. Það er einhvers konar mikilmennskubrjálæði – einhver Hitlerskomplex – að vilja stýra hugsunum annarra. Þar liggur líka munurinn á kjallaragrein og listaverki – kjallaragreinin mætir manni til rökræðu, meira að segja hrokafyllstu kjallarar. Listaverkið þrífur bara í hnakkadrambið á manni, hristir mann og gerir manni að hlýða, gefast upp – og eina leiðin til að sporna við því er að reiðast.

Það er hins vegar líka ábyrgðarhlutur að standa á sama um heiminn og enginn listamaður lifir það af til lengdar að vera afstöðulaus. Pólitísk listaverk eru bæði nauðsynlegt og sjálfsagt innlegg í samræðu samfélagsins um sjálft sig. Einhvern veginn hefur samræðan um pólitík í listaverkum samt yfirleitt stoppað á með-eða-á-móti stiginu – ertu hlynnt(ur) pólitík í listaverkum? Frekar en hvernig er siðlegt að stunda pólitík í listaverkum? Er alveg sama hvernig það er gert? Hvað gerum við með falangistaballöðuna fallegu? Fyrirgefum við sósíalrealísku ljóði einfeldni sína ef meiningin er góð? Hlæjum við að henni? Hvernig metum við gæði pólitísks listaverks? Ættum við kannski líka að reiðast Nóa, ef við erum „sammála“, því hann gerir málstaðnum svo mikið ógagn?

Gott listaverk er yfirleitt meiri spurning en fullyrðing, það vekur mann til umhugsunar frekar en að það kynni manni niðurstöður, það er afdráttarlaust og miskunnarlaust, en það hafnar vissunni – það opnar nýja farvegi í höfðinu á manni og í hjartanu. En margir þeirra sem stunda pólitík, bæði í skáldskap og í alvöru, eru því miður uppteknari af að sannfæra mann um að það sem þeir eru sjálfir með í höfðinu sé rétt, en að hjálpa manni að uppgötva heiminn sjálfur.