Ritstjórnarpistill: Að deila list og deila um list

Ég veit ekki hvort deildu.net eða Piratebay eru réttu aðilarnir til að útdeila – eða græða á 1 – ókeypis menningarafurðum, en mér finnst stundum einsog gagnrýnin á dreifinguna (eða þjófnaðinn) gangi meira og meira út á að menningarafurðir megi bara alls ekki vera ókeypis, og það sé einfaldlega frekja að krefjast aðgengis (altso: menningin tilheyrir þeim sem a) eiga fyrir henni b) geta náð í hana). Svívirðan er þá sú að einhver hafi fengið eitthvað án þess að greiða fyrir það. Sama fólk og skammast yfir fríu niðurhali er svo líklega flest þeirrar skoðunar að bókasafnskort og safnaaðgangur eigi að vera ókeypis – margir jafnvel á því að ríkið megi niðurgreiða tónlistarskólanám niður á núllið, að ekki sé minnst á leikskóla, grunnskóla, menntaskóla, háskóla, útvarp, sjónvarp, bókmenntaþýðingar, atvinnurithöfunda, kvikmyndir, leikhús, sinfóníu.

Það alast ekki allir upp á menningarheimilum. Það alast ekki allir bíófíklar upp við að hafa efni á að fara í bíó – og framboðið í bíóunum er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir, né er nokkur slík gullöld að baki að hennar megi sakna. Oft er löglegri dreifingu alls ekki til að dreifa – það er ekkert víst að ég geti neins staðar keypt mér indítónlist frá Indónesíu. Ég get ekki einu sinni keypt mér íslenskar rafbækur án þess að fara á svig við lögin og krakka þær.

Ég get ekki að því gert að finnast það hálfklikkað að eitthvað fólk úti í bæ hafi sett á fót slíka menningarstofnun að þar geti hver sem er nálgast allan fjárann – líkt og á torrentsíðum – og það sé meira að segja praktískt lítið mál að byggja þannig Alexandríubókasafn, en eina svar heimsins sé: hvernig í ósköpunum förum við að því að stöðva þetta? 

Til hvers? Til að standa vörð um réttindasvínaríið sem skiptir heiminum upp í ótal markaðssvæði, svo aurakratar geti handstýrt því hvar og hvernig menningarinnar er neytt? Til að standa vörð um heiminn sem ég ólst upp í – vestur á fjörðum, þar sem maður gat fengið 10-15 ár af úreldum blokkbösterum á næstu vídjóleigu, gat keypt uppskeru ársins í tónlist og 250 ólíka Now That’s What I Call Music diska í plötuverslunum, þar sem var alltaf biðröð eftir nýjustu bókunum á bókasafninu (og maður var löngu búinn að lesa allt sem var til og höfðaði til manns), þar sem maður tók upp myndböndin í Skonrokki, Popp&kók og Bylmingi og átti á vídjóspólu. Og svo framvegis og svo framvegis.

Svar kapítalismans við nútímanum hefur verið að draga enn frekar úr aðgengi í verslunum – nú fást færri bækur í færri útibúum færri fyrirtækja – og svar listamanna hefur verið að auka framleiðslu á óþarfa drasli: 50 blaðsíðna bæklingar með töff ljósmyndum af hljómsveitarmeðlimum, aðstandendur kvikmyndar röfla yfir listaverkið, bókmenntir koma út í gullbrydduðum gullkornaútgáfum sérhönnuðum til fermingargjafa o.s.frv., allt í nafni einhverrar fáránlegrar vöruvæðingar sem vitleysingar kalla „deluxe“.

Ég á ekki við að það sé ekki vandamál að fólk fái ekki greitt fyrir vinnu sína – eða að starfsskilyrði listamanna og fagaðila séu ekki slæm og meira að segja oft mjög slæm. Ég á ekki við að það sé réttlætanlegt að stela eða höfundarréttur sé til einskis. Ég á bara við að það hljóti að finnast eitthvað gáfulegra svar en að loka bókasafninu með valdi bara af því að það skortir starfsleyfi (og leyfi mér að minna á að margir þeirra listamanna sem mega þola að verkum þeirra sé dreift lifa að hluta eða alveg á (alltof lágum) styrkjum frá sama fólki og „rænir það lífsviðurværinu“). Það væri kannski gáfulegra að sníða einhvers konar ramma utan um batteríið svo enginn verði hýrudreginn.

Það sem ég vildi sagt hafa er eitthvað á þessa leið: Markmiðið á að vera frjáls menning og saddir listamenn. Missum ekki sjónar á því.

Starafugl ætlar að kovera jólabókaflóðið í samræmi við takmarkaða getu sína (altso viðstöðulaus blankheit og velvilja sjálfboðaliða). Fyrstu bækur hafa borist til gagnrýnenda og dómar byrja að birtast á næstu dögum. Líkt og alltaf er hætta á að margt drukkni í hamaganginum. Starafugl ætlar að reyna að leggja áherslu á grasrót, ljóð, barnabækur og bókmenntaþýðingar – þótt svelgur nýrra íslenskra skáldsagna sogi alveg áreiðanlega líka til sín nokkra athygli.

Mér hefur mikið verið hugsað til huglægni versus hlutlægni síðustu daga. Ég hef bæði starfað sem gagnrýnandi og fengið, sem höfundur, mikla gagnrýni. En síðustu mánuðir á Starafugli er fyrsta reynsla mín af því að ritstýra gagnrýnendum – sem er svolítið annað sjónarhorn. Því er oft haldið fram að gagnrýnendur megi ekki vera grimmir, megi ekki hakka verk í sig – og helst ekki hefja þau til skýjanna heldur. Þeir dómar sem hafa valdið sjálfum mér mestu hugarvíli 2 eru ekki þeir dómar sem taka sér skýra stöðu gegn mér heldur hinir sem pakka gagnrýni sinni inn í pseudo-hlutlæga kurteisi. 3 Þar sem er tíundað eitthvað sem var vel gert til þess eins að klykkja út með einhverju um að „þetta hafi því miður ekki gengið upp“ – án þess að tekist sé á við forsendur þess sem ekki gekk upp, án þess að það sé neitt útskýrt frekar. Hefði mátt vera styttri, lengri, hefði þolað meiri ritstýringu og svo framvegis.

Allt er lagt í sölurnar til að maður virðist ekki hafa skoðun sjálfur – því það væri jú svo ósanngjarnt gagnvart höfundinum sem á að fá „faglega“ rýni – eða takast á við þær hugmyndir sem í bókinni eru, takast á við að sjálfur er maður lesandi og það er, hvort sem manni líkar betur eða verr, ekki hægt að lesa án þess að maður sjálfur sé með í för. Gagnrýnandi þarf að gangast við eigin huglægni – að hann sé súbjekt, en ekki objekt, hann sé ekki hlutlaust auga á ferð um landslag til að færa heim einhverja hreina og ómengaða mynd af listaverki sem aðrir geti svo lagt sitt eigið prívat mat á (það gerir fólk þegar það les verkin, ekki dómana). Maður er þarna til að dæma og dómurinn er afkvæmi manns sjálfs og verksins, maður speglar ekki bara verkið heldur líka sína eigin ásjónu.

Það er hugsanlegt að vefurinn leggist svo í dvala upp úr jólum. Ég fer sjálfur til Víetnam og verð þar fram á vor. En það er nú aðeins í það enn.

   [ + ]

1. Eða, jújú, ég veit það alveg, þeir eru það áreiðanlega ekki – þótt það sé líka svívirða að aðstandendur Piratebay sitji í fangelsi við ómannúðlegar aðstæður.
2. Ég er mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni, og skammast mín ekkert fyrir það, maður á ekki að skammast sín fyrir það – ef maður leggur allt sitt í eitthvað er sárt að það sé gagnrýnt, það er kannski nauðsynlegt og stundum hollt, en það er ekkert óeðlilegt að sárna eða reiðast eða einu sinni svara fyrir sig ef manni finnst það eiga við.
3. Og þeir dómar sem ég hef komið mér í mest vandræði út af hafa alls ekki verið eiginlegir ritdómar, heldur skrif um bókmenntasenuna sem slíka – jafnvel bara um verðlagningu bóka.