Höfundur/Leikstjóri: Ragnar Bragason
Leikmynd: Hálfdán Pedersen
Búningar: Helga Rós V. Hannam
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen
Tónlist: Mugison
Gervahönnun: Árdís Bjarnþórsdóttir
Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir
Leikarar: Kristín Þóra Haraldsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Hanna María Karlsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Hallgrímur Ólafsson.
Ég hef verið aðdáandi Ragnars Bragasonar frá því að ég horfði fyrst á Næturvaktina. Í kjölfarið fylgdu þáttaraðirnar Dagvaktin og Fangavaktin og svo loks kvikmyndin Bjarnfreðarson. Þættirnir mörkuðu nýja tíma í íslenskri sjónvarpsþáttagerð bæði hvað varðar gæði og efnistök. Í þáttunum sáum við hæfni Ragnars til að búa til fjölskrúðugt perónugallerí þar sem litaflóran spannaði gjörvallan regnboga íslenska meðaljónsins. Persónur þáttana eru íslenskar erkitýpur. Flest gátum við speglað okkur í einhverri persónu þáttana, eða í það minnsta sáum við þar einhvern (einn eða fleiri) sem við þekktum úr okkar eigin lífi.
Aðalpersónur þáttanna urðu til í löngu ferli. Ragnar vann að þróun handritsins í spunavinnu með leikurunum. Þannig gátu leikarar mótað sínar persónur frá grunni, skyggnst undir yfirborð sálarlífs þeirra og gefið þeim meiri vídd heldur en ef þeir hefðu fyrst kynnst sínum persónum fullmótuðum í tilbúnu handriti. Í gegnum allar seríurnar skyggndumst við smám saman dýpra í sálarlíf þeirra og bakgrunn. Við kynntumst þeim betur með hverri nýrri þáttaröð og fylgdumst með þeim þroskast.
Þessi aðferð handritsþróunar hefur verið Ragnari hugleikin. Hann hefur notað hana í fyrri verkum sínum, svo sem kvikmyndunum Börn og Foreldrar sem hann gerði í samstarfi við Vesturport. Nærtækustu dæmin eru svo leikverkin tvö sem hann hefur sett upp í Borgarleikhúsinu á þessu leikári og því síðasta; Gullregn á síðasta leikári og svo Óskasteinar sem lauk nýverið sýningum.
Fann ég á fjalli fallega steina
Í Óskasteinum kynnumst við 5 stereótýpum sem lenda saman í óvæntum aðstæðum sem þau þurfa að takast á við í sameiningu. Fjórir bankaræningjar leita skjóls í leikskóla í litlu þorpi eftir misheppnað rán í banka krummaskuðsins. Í eftirdragi eru þau með eldri konu úr þorpinu sem varð fyrir tilviljun vitni að ráninu. Hvatamaðurinn að ráninu, fimmti ræninginn, komst undan með flóttabílinn og peningana. Við fylgjumst með ræningjunum eyða nóttinni á leikskólanum á meðan þau bíða þess að bílstjórinn snúi við, sæki þau og skutli þeim aftur í borgina á vit öryggis, ævintýra og betra lífs. Við kynnumst fólkinu og fylgjumst með átökum þeirra bæði hvert við annað sem og við sig sjálf.
Eftir því sem á líður nóttina skyggnumst við frekar inn í sálarlíf persónanna, innbyrðis tengsl og forsögu. Hópinn skipa feðgarnir Trausti og Steinar og makar þeirra, Sísí og Rakel. Steinar er fíkill og hann er sonur Trausta sem er smáglæpon og braskari, ofurskinkan Sísí er stjúpmóðir Steinars en er þó litlu eldri en hann og hin ólétta Rakel sem er kærasta Steinars. Hún er líka fíkill. Svo flækist gíslinn og krabbameinssjúklingurinn Agnes inn í þetta allt saman. Hún er með krabbamein. Þau eru krabbamein.
Trausta væri ekki treystandi til að líta eftir gullfiski. Hann yfirgaf son sinn í æsku og getur ekki tekið ábyrgð á nokkrum hlut. Hann er í sambandi við „skinkuna“ Sísí sem gæti verið dóttir hans. Hún er einföld fitness-gella og hápunktur lífs hennar var þegar hún náði 3. sæti á fitness móti mörgum árum áður. Trausti eyðir megninu af verkinu í símanum. Ýmist að reyna að ná í bílstjórann eða klára einhverja díla sem hann er með í gangi. Þess á milli reynir hann að stappa stálinu í kærustu sína og gera upp fortíðina við son sinn. Samband feðganna er eðlilega nokkuð stirt þótt Steinar virðist fyrir alla muni vilja ganga í augun á föður sínum og fá hjá honum viðurkenningu.
Vandamálið við Trausta er að manni finnst ótrúverðugt að hann myndi lenda í aðstæðum sem þessum. Aumingi eins og hann myndi aldrei fremja bankarán. Trausti myndi aldrei óhreinka hendurnar á þann hátt. Ekki vegna þess að hann sé of varfærinn eða slyngur til þess, heldur vegna þess að hann er bleyða. Hann segir í verkinu að hann hafi fengið son sinn með í verkið af því að hann hafi vilja bæta við hann sambandið og bæta upp fyrir glataða tíma – línan var fyndin og vel lýsandi fyrir Trausta, ef hún hefði passað. Það væri nefnilega mun sennilegra að Trausti hefði son sinn með í ráninu til þess að geta ráðskast með hann, beitt honum fyrir sig, vitandi að strákurinn myndi gera allt fyrir hann.
Steinar var semsagt hundsaður af föður sínum á uppvaxtarárunum og hefur sonurinn síðan verið því marki brenndur. Hann hefur átt erfitt með að fóta sig á lífsleiðinni og er þjakaður af eftirmálum höfnunarinnar sem hann upplifði af höndum föður síns. Nokkuð einföld skýring á því hvers vegna nokkur fetar þennan veg. Hann og Rakel kynnast í meðferð og þegar Rakel verður þunguð verður Steinar staðráðinn í að standa í afturfæturnar, sigrast á fíkninni og koma lífið sínu á réttan kjöl. Hann ætlar að verða syni sínum allt það sem faðir hans var honum ekki. Peningarnir úr ráninu eiga svo að fjármagna flutning litlu fjölskyldunnar til Noregs, þar sem hann ætlar sér að hefja nýtt líf.
Maður gat vel fundið til með Steinari. Strákurinn átti verulega bágt, með brostna sjálfsmynd en samt allur af vilja gerður að verða betri maður og gera rétt. Hann kiknar þó undan álaginu og hleypur út til að fá sér í haus. Hann ætlar sér mikið en hefur ekkert til að byggja það á – fær ekki einu sinni stuðning frá óléttri unnustu sinni af því að sjálfri finnst henni hún ekki eiga það skilið að vera elskuð.
Of grunnt kafað
Það eru margar sögur í gangi og erfitt að gera þeim öllum skil. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að persónunni finnst hún ekki eiga gott skilið. Brotin heimili, systkinamissir, einelti, áfengissjúkir foreldrar – allt eru þetta þær aðstæður sem mótuðu persónur verksins. Allir lenda í erfiðleikum á lífsleiðinni en það sem skilgreinir manneskjuna er það hvernig hún vinnur úr vanda sínum og erfiðleikum, ekki erfiðleikarnir sjálfir.
Helsti vandi verksins er að þar er verið að segja of margar sögur og því fær engin ein að njóta sín til fulls. Það er ekkert sem kemur á óvart. Allar afhjúpanir eru fyrirsjáanlegar og í raun býður maður eftir þeim nánast frá byrjun. Þó að verkið sé ágætis skemmtun og hafi á köflum verið mjög fyndið þá fannst mér eitthvað vanta. Þarna er gerð tilraun til að skyggnast undir yfirborðið og svara því hvað það er sem leiðir fólk út í smáglæpi. Mér fannst því miður kafað of grunnt og svörin of einföld.