Óskarsverðlaunin 2014: Framtíðarskáldskapur og fortíðaruppgjör

Nebraska, Her, The Wolf of Wall Street, Dallas Buyers Club, Captain Phillips, Philomena, 12 Years a Slave, American Hustle og Gravity munu keppa um 86. óskarsverðlaunin í kvöld – en í raun og veru eiga samt bara þessar þrjár síðastnefndu alvöru séns á að vinna verðlaunin sem besta mynd. Og ef uppáhaldsmyndin mín vinnur skal ég éta hatt ritstjórans.

En hvernig er best að nálgast þessi blessuðu óskarsverðlaun (eða verðlaun yfir höfuð)? Með góðum drykkjuleikjum, hatrömmum veðbönkum um sigurvegara eða eitruðu dissi um smekkleysi Hollywood? Ég get mælt með öllu þessu – en svo má líka alveg gangast við því að verðlaunin eru ágætis spegill á hvað sæmilega frjálslyndir en þó íhaldssamir Vesturlandabúar eru tilbúnir til að setja á dagskrá þetta árið – hvað þeir tengja við, hvað þeir vilja gera upp, hvað þeim finnst mikilvægt. Og kannski eru „þeir“ við – aðeins eldri og amerískari vissulega, en svona í öllum aðalatriðum eru þetta líka myndirnar sem fá bestu dómana í íslenskum fjölmiðlum á ári hverju. Bestu myndirnar sem vantar eru svo ýmist of langt á undan samtímanum, of útlenskar eða of ungæðislegar fyrir aldraða meðlimi akademíunnar.

Stundum eru línurnar afskaplega skýrar. Heimsósóminn var keyrður í botn undir lok góðærisins með olíubrjálæði, fjöldamorðingjum og djöflarökurum (eins og lesa má í gömlum pistli undirritaðs hér) en línurnar eru öllu óljósari í ár. Sannsögulegar myndir eru vissulega í tísku, sex myndir af níu eru sannsögulegar – af hinum þremur gerast tvær í framtíðinni. En byrjum á klassísku standördunum – myndunum um mannvonsku eða samfélagsmein sem allir geta verið sammála um að sé andstyggileg. Venjulega hefur það þýtt að akademían hefur orðið sammála um að verðlauna slíkar myndir.

Hommahatur, þrælahald og börn til sölu

Eyðni og hommahatur eru meinsemdir sem vert er að vinna á. Sömu sögu má segja um þrælahald og barnasölu. Þetta er frekar einfaldur boðskapur sem við erum líklega flest sammála um núorðið – en á köflum buga skilaboðin bíómyndirnar, það tapast stundum ákveðin dýnamík þegar allir eru sammála um hvað er gott og vont. Þessar myndir lifa hins vegar oft fyrst og fremst á góðum leik, því ef aðalleikararnir lifa sig nógu vel inní hlutverk fórnarlambanna verða myndirnar meira en bara sagnfræðifyrirlestur um flónsku forfeðra okkar.

Þennan ás eiga Philomena, Dallas Buyers Club og 12 Years a Slave allar uppi í erminni – og þær tvær fyrstu væru ekki fugl né fiskur án þess. Philomena er líklega slakasta myndin af hinum tilnefndu – þrátt fyrir einn magnaðasta leik ársins. Sagan sjálf er stórmerkileg – írskar nunnur seldu lausaleikskróga til Bandaríkjanna upp úr miðri síðustu öld að mæðrunum forspurðum. Philomena Lee var ein þessara mæðra – guðhrædd stúlkukind sem hrasaði á dyggðasvellinu og glataði frumburðinum. Þegar við kynnumst henni er hún komin á gamals aldur og er á einum stað lýst svona: „I’ve finally seen first-hand what a lifetime’s diet of Reader’s Digest, the Daily Mail and romantic fiction can do to a person’s brain.“ Með öðrum orðum, ómenntuð almúgakona. Hún hefur þrátt fyrir þetta aldrei orðið mannvonskunni sem gegnsýrir The Daily Mail að bráð og verður því á einhvern öfugsnúin hátt hinn göfugi smáborgari. Gallinn er hins vegar sá að handritið býður ekki upp á mikil tilþrif og kvikmyndatakan er afskaplega jarðbundin, að flestu leyti er þetta hefðbundin Hallmark-sjónvarpsmynd vikunnar – nema þær skarta sjaldnast Judi Dench í aðalhlutverki. Dench er auðvitað fantafín leikkona en hefur fest dálítið í því að leika sterkar, kaldar og yfirvegaðar konur – helst bókstaflega drottningar. En hún nær ótrúlegri hlýju og visku út úr einstæðingsskap þessarar almúgakonu sem var svikin af þeim sem hún trúði á.

Dallas Buyers Club er vissulega ansi sjónvarpsmyndaleg líka á köflum, en er þó töluvert öflugra kvikmyndaverk. Ron Woodroof er gagnkynhneigður kúreki sem fær eyðni og læknast hægt og rólega af hommafóbíunni á meðan hann leitar lækninga – sem er í raun ágætis táknmynd fyrir sögu alnæmis og baráttu samkynhneigðra á Vesturlöndum. Einn af jákvæðum fylgifiskum alnæmis var nefnilega sá að sjúkdómurinn þjappaði að einhverju leyti samkynhneigðum saman og varð til þess að réttindabarátta þeirra varð bókstaflega upp á líf og dauða – og svo fengu þeir stundum óvænta bandamenn þegar hinir gagnkynhneigðu uppgötvuðu að þetta var ekki bara hommasjúkdómur. Helsti styrkur myndarinnar er svo kúrekinn McConaughey, leikari sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga, og Woodroof er eiginlega eldri útgáfan af þeim kostulega karakter David Wooderson sem hann lék í sinni fyrstu mynd, meistarastykkinu Dazed and Confused. Lýsingin eldri og þroskaðri á hins vegar vart við fyrr en í seinni hluta myndarinnar – þetta er mynd um mann sem þroskast ansi seint, sem vissulega á einnig ágætlega við um McConaughey sem leikara.

Það sem er forvitnilegast við þessa sögu er þó hvernig barátta Woodroof krystallar í raun ameríska drauminn og villta vestrið – kúreki sem fer á svig við lögin til þess að bjarga fólki (og sjálfum sér) og græðir sand af seðlum á meðan, þótt þeir peningar fari þegar á líður í það að redda meiri lyfjum og leika á sífellt ágengara lyfjaeftirlit. Þarna er einhver forvitnileg dæmisaga um einkaframtak og ríkisafskipti – en á meðan talsmenn einkaframtaksins finna sannarlega mikla hetju í Woodroof þá má á móti benda á það að kapítalísk lyfjafyrirtæki virðast hreinlega hafa keypt upp bandaríska heilbrigðiskerfið. Þarna liggja ýmsar forvitnilegar og erfiðar spurningar sem myndin gerir ekki neinar alvöru tilraunir til að svara. Kannski hefðu slíkar tilraunir gert hana kröftugri – en þær hefðu líka getað gert hana óþarflega móralska.

12 YearsÞað er hins vegar ólíkt meiri kraftur í 12 Years a Slave. Þetta er alvöru bíómynd enda hefur Steve McQueen sýnt með Hunger og Shame að þar fer alvöru leikstjóri. Myndin er stundum aðeins of epísk, tökurnar eru stundum aðeins of stórar og leikurinn stundum aðeins of hástemmdur – en oftast ná McQueen og leikararnir þó réttum tóni – Chiwetel Ejiofor ber myndina á herðum sér sem Solomon Northop og veldur því vel, þótt hann sé ekki alveg jafn magnaður og hann var í nútímaútgáfunni af sömu sögu – þeirri stórkostlega vanmetnu og frábæru mynd Dirty Pretty Things. Hann var þó í raun meiri hetja þar. Hetjuskapur Salomons er helst sá að hreinlega lifa af – en til þess þarf hann stundum að vera gunga og horfa fram hjá óréttlætinu sem umkringir hann. Það óréttlæti krystallast í þrælahaldaranum sem Michael Fassbender leikur af óþægilega miklum sjarma og ambáttinni sem Lupita Nyong‘o leikur – þau eru djöfullinn og engillinn í þessari sögu og Fassbender og Nyong‘o veita þeim þann eldmóð sem þarf. Northop er hins vegar oftast aðeins áhorfandi að þeim hildarleik þegar djöfullinn ofsækir engilinn – og þegar hann er þvingaður til þess að verða þátttakandi þá er það til þess að ganga í hlutverk djöfulsins. Sem hefði getað orðið upptaktur af mjög flóknu og forvitnilegu siðferðisdrama ef Brad Pitt hefði ekki birst sem guðinn í vélinni og bjargað málum á frekar ótrúverðugan hátt. Hins vegar bjargar ýmsu þegar Ejiofor á sitt kröftugasta móment undir lokin þegar hann er kominn aftur til manna – en reynist nær alveg mállaus gagnvart sínum gamla hversdegi.

Loks er rétt að nefna Captain Phillips, hasarmynd um sjórán skammt frá ströndum Sómalíu. Myndin er ágætlega spennandi en undir kraumar þessi árekstur Bandaríkjanna við svörtustu Afríku. En hins vegar gerir myndin sáralítið með þá spennu – sem hefðbundin spennumynd er hún ágæt (engin Die Hard samt) en hún kann ekki almennilega að nýta sér spennuna sem myndast við árekstur þriðja heimsins og fyrsta heimsins. Og þar sem hún nýtir ekki það tækifæri jaðrar við að hún sé hálf-siðlaus með því að stilla hinum göfuga hvíta manni upp gagnvart svarta skúrkinum. Það eru örlitlar vísanir í bakgrunn sjóræningjana og hvaða aðstæður öttu þeim út í sjóránin – en það eru veikburða tilburðir sem fá lítinn tíma. Hins vegar tekst Barkhad Abdi að bjarga myndinni frá sjálfri sér með mögnuðum leik sem sjóræningjakapteinninn Muse (Raunar hefði Captains verið betra nafn á myndinni, enda helsti styrkur hennar samspil kapteinanna tveggja). Hann fær í raun sáralítið að vinna með en það er nógu mikið í gangi á bak við þessi augu til þess að gefa manni að minnsta kosti einhverja hugmynd um bakgrunn þessara manna. Svo er vísir af forvitnilegu og að einhverju leyti réttlætanlegu Stokkhólmsheilkenni hjá Phillips kapteini undir lokin, sem lítið verður þó úr.

Pótemkíntjöld McGuffins

Muniði eftir tölvukubbnum sem gat grandað heiminum? Ekki ég heldur – en ég man samt að ég hef horft á fleiri en eina hasarmynd þar sem þessi tölvukubbur hefur verið í aðalhlutverki. Þetta er það sem Hitchcock kallaði McGuffin – eitthvað sem allir girnast en skiptir kvikmyndagerðarmennina eða áhorfendurna engu. McGuffinar eru einfaldlega afsakanirnar sem eru búnar til svo Tom Cruise, Cary Grant og James Bond geti hlaupið um, klifið háhýsi og lent í byssubardögum. En þegar ég horfði á Margin Call, einhverja bestu myndina sem gerð hefur verið um Wall Street hrunið, þá vitraðist mér eitt: McGuffinar eru kannski meinlausir í bíó en þeir eru stórhættulegir í raunveruleikanum. Það eru McGuffinar sem hefja stríð, tortíma heimsveldum og valda kreppum. Þessir McGuffinar geta verið þjóðerniskennd, trúarbrögð eða peningar – hin heilaga þrenning – blekking sem virkar bara ef allir í salnum trúa henni. Enda eru þetta allt tilbúnar hugmyndir sem hafa ekkert raunverulegt verðmæti umfram það samkomulag sem við höfum gert með okkur um að trúa. Og þótt við séum sum skeptísk á réttmæti blekkingarinnar borgum við samt venjulega vörurnar sem við kaupum úti í búð og sýnum vegabréfið á landamærum heimsins.

Peningarnir eru McGuffininn í þremur af óskarsmyndum ársins. Þetta er augljósast í The Wolf of Wall Street, hér dansa allir í kringum gullkálfinn – sem á Wall Street er löngu orðið fullorðið naut. Scorsese gerir stólpagrín af hálf bernskum karlmönnum sem gera sig af fífli fyrir þennan ómerkilega græna McGuffin – DiCaprio og félagar lifa vissulega hátt framan af en enda svo skríðandi um gólfið eins og slefandi smákrakkar. Bókstaflega. En feigð myndarinnar er þó falin í titlinum sjálfum. Jordan Belfort (DiCaprio) var rísandi stjarna sem var svo hakkaður í spað af viðskiptatímaritinu Forbes og kallaður í fyrirsögn The Wolf of Wall Street. En í staðinn fyrir að gera út af við ferilinn gerði greinin hann að stjörnu – í augum upprennandi siðblindingja var fátt svalara en að vera siðlausasti úlfurinn í skóginum. Svipað gerðist með Wall Street Olivers Stone á sínum tíma – skúrkurinn varð mörgum fyrirmynd. Og það er hreinlega eins og ófáir gagnrýnendur myndarinnar hreinlega reikni með sömu örlögum fyrir þennan úlf – myndin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregða upp glansmynd af spilltum kaupahéðnum og þá er réttilega bent á að lítið sjáist í fórnarlömb Belforts, en það er þó óvenjuleg krafa – fæstar bíómyndir eru skammaðar sérstaklega fyrir að sýna ekki það sem gerist handan rammans. En ákæran um að myndin geri skúrkana töff er samt afskaplega hæpin – ég endurtek: Belfort er sýndur skríðandi hjálparlaus um gólfið eins og slefandi smákrakki. Það er fátt töff við það. En sjálfur aldist ég upp við þann heilaga sannleik að einn stærsti skandall óskarssögunnar væri að Dances With Wolves – um margt dæmigerð issue-mynd um illsku fortíðarinnar – skyldi vinna Goodfellas Scorsese. En sjálfum fannst mér hins vegar Goodfellas stjarnfræðilega leiðinleg og siðlaus upphafning á skúrkum, nokkurn veginn það sama og margir saka The Wolf of Wall Street um núna. En þetta var þegar ég var fjórtán ára – kannski hef ég meiri samúð með mafíósum heimsins núna.

Gamanmyndir eiga almennt erfitt uppdráttar á Óskarnum en bæði Wolf of Wall Street og American Hustle eru í grunninn gamanmyndir – en svindla sér inn dulbúnar sem sannar sögur um svikahrappa. Mottóið virðist vera að margur verði af aurum api – og skilaboðin þau að við búum nú þegar á apaplánetu. En American Hustle er alveg skemmtileg svikahrappasaga. Hún er samt aðallega óður til krullujárnsins og hárkollunnar. Upphafsatriðið sýnir Irving Rosenfeld (Christian Bale) að setja um hárkollu af mikilli natni. Eiginlega er pínulítið eins og myndin snúist um Bale að gera grín af sjálfum sér – hann skartar myndarlegri bumbu, enda þekktur fyrir að létta sig eða þyngja fyrir hlutverk – en bumban er fyrir Bale pínulítið eins og hárkollan fyrir aðalpersónuna, ónauðsynleg en aðallega til staðar til að vernda egó svikahrappsins og leikarans, til að viðhalda ímyndinni. Ástarþríhyrningurinn er svo fullkomnaður með Amy Adams og Bradley Cooper – sem eiga margar sínar nánustu stundir með krullujárn í hárinu. Þríhyrningurinn verður svo ferhyrningur þegar eiginkona Irvings fær loksins almennilegt pláss – og reynist fyndnari en þau öll til samans. En ég verð að viðurkenna að fáeinum vikum eftir að ég sá myndina man ég sáralítið af hinu eiginlega plotti – enda er það aðallega afsökun fyrir aðalleikarana fjóra að sýna skemmtilega djassaðan og fönkí leik. Myndin er öðrum þræði eins og Hangover-mynd sem tekur sig of alvarlega – eða kannski er það bara út af því hún fékk vafasama óskarstilnefningu? Að því sögðu er hún vissulega miklu betri en Hangover (sú fyrsta, ég meikaði ekki að sjá tvö og þrjú) enda hefur Bradley Cooper stökkbreyst úr óspennandi svipleysingja í einn forvitnilegasta leikara Hollywood síðan þá. Hins vegar eru forvitnilegustu og skemmtilegustu sambönd myndarinnar sambönd sem fá aldrei nægan tíma til að dafna eins og þau eiga skilið. Þar er annars vegar kostulegt samband lúðalöggunnar Cooper við yfirmanninn sem Louis C.K. leikur af kómísku listfengi og svo afskaplega fallegur brómans á milli Irving (Bale) og borgarstjórans sem Jeremy Renner leikur – þar sem Irving uppgötvar loksins alvöru vináttu á meðan hann er upptekinn við að stinga vininn í bakið. Jú, svo er Robert DeNiro auðvitað æðislegur í litlu hlutverki aðalmafíósans …. satt best að segja er myndin stútfull af frábærum atriðum en það vantar bara eitthvað lím sem heldur þessu almennilega saman.

Peningar eru McGuffin sem svikahrapparnir og kauphéðnarnir í American Hustle taka alvarlega. Í Nebraska þá er vafasamur lottómiði hins vegar hinn fullkomni McGuffin – við vitum allan tímann að lottómiðinn er ekki alvöru og okkur er líka alveg sama, enda virðist aðalpersónan það nálægt grafarbakkanum að hann hefði varla tíma til þess að eyða fimmþúsund kalli, hvað þá milljón dollurum. Enda eru viðbrögð skeptískrar eiginkonunnar þau að átelja hann fyrir að hafa ekki bara unnið fyrir milljóninni þegar hann gat það frekar en að láta sig dreyma um hana núna. Þetta er heimur almúgafólks í órafjarlægð frá glysnum á Wall Street – og á meðan Wall Street-mógúlar eru gjarnir á að halda ræður um það hvernig peningarnir séu tálsýnin sem heldur heiminum saman þá er þetta fólk sem myndi aldrei hafa orð á því en finnur það samt í beinunum. Fyrir því eru peningar fyrst og fremst tæki til þess að koma sér þaki yfir höfuðið eða til þess að sóa á barnum. En þeir eitra líf þessa fólks engu að síður – í einhverjum skilningi er fólkið hér fórnarlömbin sem auglýst var eftir úr The Wolf of Wall Street. Þau eru vissulega mismikil fórnarlömb, það virðist enginn beinlínis hafa farið á hausinn – en eitrið frá Wall Street hefur þó eitrað líf þeirra nægilega til þess að tálsýnin um milljónina breytir kumpánlegum vinum og ættingjum í hungraða úlfa á svipstundu. Aðalpersónan Woody Grant (Bruce Dern) er vissulega hinn erkitýpíski þrjóski gamli kall bíómyndanna – en í raun er honum skítsama um peningana sjálfa og virðist hafa verið það mestallt sitt líf. En það er eins og hann skynji að svona eigi menn ekki að hugsa – og í átakanlegasta atriði myndarinnar játar hann drauminn: hann vill skilja eitthvað eftir sig fyrir synina. Hann veit að það er of seint að leggja meira inn á föðurarfinn sem felst í uppeldi barnanna og þráir því að skilja eftir sig alvöru áþreifanlegan arf, arf sem verður skrásettur í bókhaldsmöppur kapítalismans á meðan gamlir menn og synir þeirra gleymast af því ekkert var til skiptanna.

Myndin fjallar hins vegar ekki síður um soninn sem á leiðinni að sækja milljónina heyrir nógu mikið af sögum frá gömlum kunningjum og ástkonum pabbans til þess að kynnast loksins þessu þögla önuglynda gamalmenni sem ól hann upp. Þá er ógetið mömmunnar, sem er svo sannarlega kostulegur karakter – og væri alveg ástæða til þess að gera framhaldsmynd þar sem sonurinn fær að kynnast fleiri hliðum á múttu.

Mennskan forrituð

Nebraska er eina skáldaða nútímasagan sem er tilnefnd – hinar lygasögurnar tvær gerast í nokkuð nálægri framtíð. Og ég veit ekki hvort það er tilviljun eða til merkis um skáldskaparást mína að mér finnst þessar þrjár langbestu myndirnar.

Sú eina af þessum sem virðist þó líkleg til að vinna er Gravity. Það skal alveg viðurkennast að það er ekki miklum tilþrifum að fara fyrir í handritinu og mónólógar Söndru Bullock eru ekkert leiftrandi af orðheppni. Kannski hefði orðkynngi gert myndina betri – en ég satt best að segja efast. Það var feikinóg orðkynngi í þeirri frábæru Children of Men sem Alfonso Cuaron leikstýrði á undan þessari – þannig að hann kann alveg að fara með orð. En hann veit líka hvenær myndirnar segja nóg. Algjör þögn hefði mögulega ekki gengið – en Sandra Bullock þarf ekki að segja neitt merkilegt, hún þarf bara að hjálpa Cuaron að koma okkur út í geim. Og þetta er sú bíómynd sem hefur komist næst því að beinlínis taka okkur útí geim, láta okkur finna fyrir þyngdarleysinu og þeim frumótta að vera hjálparlaus í kolsvörtum himingeimnum. Maður verður ekki meira einmana en það. Þetta er bíóupplifun sem líkamleg upplifun, ekki vitsmunaleg – en verður einmitt um leið á sinn hátt frumspekileg, sérstaklega í lokaatriðinu sem hugmyndafræðilega er eiginlega apaatriðið í 2001 afturábak.

Uppáhaldsmyndin mín er hins vegar miklu vitsmunalegri framtíðarmynd. Her er ástarsaga á tímum snjallsíma og Facebook. Hún er það sem gæti gerst þegar stefnumótasíður og Facebook-rómansar aftengjast algjörlega kjötheimum og Joaquin Phoenix verður ástfanginn af Samönthu – sem er nýja stýrikerfið hans. Galdurinn er sá að myndin tekur langsótt konseptið alvarlega – og úr verður merkilega falleg ástarsaga og dýpri en margar sem skarta tveimur líkömum en ekki bara einum líkama og líkamslausu stýrikerfi. Dýptin dvelur þó í þeirri staðreynd að konseptið er alls ekki jafn fjarstæðukennt og það kannski virðist. Flest eyðum við ófáum klukkutímum í að eiga samskipti við tölvuskjái á hverjum degi – og við slökkvum ekkert á tilfinningunum á meðan þótt stundum verði maður vissulega dálítið dofinn í stefnulausu Facebook-ráfi. Og það má nú þegar finna formóður Samönthu í iPödum heimsins. Hún heitir Siri og er vissulega óttalegur apaköttur. Hún er til dæmis handónýt í ástarmálum – þegar ég prófaði að spyrja hana út í slíkt þá sagði hún mér bara að hlusta meira á Huey Lewis and the News. En hins vegar er bara tímaspursmál hvenær hún verður farin að vinna Kasparov í skák, skrifa verðlaunaskáldsögur og bræða mennsk hjörtu. Það er samtíminn sem framtíðarrómansinn Her segir okkur frá – en undir lokin rennur kaldur hrollur niður bakið á manni þegar maður áttar sig á því að framhaldið að Her er líklega annað hvort Matrix eða Terminator. Það sem er óhugnanlegast er sá möguleiki sem myndin ýjar að: að kannski verði það ekki græðgin eða flónskan sem tortímir okkur heldur ástin og einmanaleikinn.