Myndlistarmaðurinn sem selfie af sjálfum sér.

Opnum fyrir athyglisbrestinn – Vildi verða ljóðskáld

Viðtal við myndlistarmanninn Leif Ými Eyjólfsson

Leifur Ýmir Eyjólfsson er 27 ára myndlistarmaður búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur unnið að myndlist sinni samhliða ýmsum verkefnum síðan. Nýverið opnaði hann sýninguna Hvað finnst þér um Evrópusambandið í Gallerí Salerni sem er staðsett á salerni veitingastaðarins Bast að Hverfisgötu 20 en Leifur stofnsetti galleríið Gallerí Skítur og Kanill árið 2008 á salerni Myndlistarskólans í Reykjavík og er því heldur betur kominn á heimaslóðir. Leifur hefur fengist við ýmsa miðla í listsköpun sinni og hefur undanfarið kannað fleti klassískrar listsköpunar. Umrædd sýning telur t.a.m. 11 málverk en frá því að hann lauk námi hefur hann málað myndir af blómum og hugsað um Evrópusambandið.

Ég hitti Leif á Bast þar sem hann hafði selt málverk af sýningunni á hundrað svissneska franka. Fagurblár seðill skreyttur verkum svissneska skúlptúristans Alberto Giacometti og portrettmynd af listamanninum sjálfum lá sléttur á borðinu fyrir framan hann. „Þeir gátu ekki tekið við þessu á barnum“ sagði Leifur, „ég tími ekki að skipta honum þannig að ég ákvað frekar að reyna að nota hann strax.“ Ég var hjartanlega sammála honum, þetta var fagur seðill sem ég hefði sjálf kosið að ramma inn fremur en að leysa út í bankanum. Við keyptum okkur sitthvorn drykkinn, Leifur bjór á happy hour og ég kaffi með sýrópi sem er eins á bragðið sama hvað bragðið heitir.

Mig langaði til þess að forvitnast um pólitískt inntak í verkunum þínum.

Já það er svona svolítið óvart … Það er svolítið gaman að vera að pæla í eða það er áhugaverður útgangspunktur að hugsa bara svona um það sem er að gerast í dag, bara alveg í dag eða í gær eða kannski á morgun.

Hvað finnst þér um Evrópusambandið og höfundur sýningar.

Hvað finnst þér um Evrópusambandið og höfundur sýningar.

Þá í samfélaginu?

Já svona það sem er í gangi í heiminum og líka eitthvað sem, Það er líka svona fallegt, svona að snúa upp á, sýna fram á vitleysuna. Þú veist reyna það, það tekst kannski ekki alltaf. Það er fallegt þegar það næst eitthvað svona, skrítin … eitthvað sem passar ekkert saman. Eitthvað svona sem gefur einhverskonar … eða eitthvað sem bendir á eins og þetta, með Evrópusambandið, þú veist, það eru allir að tala um þetta einhvern veginn en það nennir enginn að tala um þetta (hlær).

Einmitt, og nennir ekki að kafa neitt dýpra í það kannski.

Nei, þetta er líka svo mikil vitleysa. Svona hringavitleysa sem er gerð til að rugla fólk bara eða ég er alveg ruglaður, ég skil ekkert í þessu eða þú veist, ég viðurkenni það alveg. Það eru kannski margir sem þykjast vita nákvæmlega hvað þetta snýst um og reyna að skilja það. En ég held að ástæðan fyrir því að þau eru að rugla svona mikið með þetta, Evrópusambandið, ég held bara að fólk sé hrætt við að það séu reglur.

Já, eða ekki reglur…

Eða ekki reglur, að þeir geti ekki svindlað á manni lengur.

svinSvo gerðiru risavaxna sparígrísi sem lokaverk úr Listaháskólanum.


Já, það er svona svipað.

Það tengdist IceSave, að við ættum samt að borga IceSave?


 Já, eða sko, ég var líka svolítið að pæla í þessari „klassísku list“, ég er búin að vera svolítið „obsessed“ af svona still- life eins og maður segir á ensku, það er hægt að breyta því í „stillt líf“ og ef maður þýðir það úr frönsku þá þýðir það dauð náttúra.

Það er líka áhugavert þegar maður hugsar það út frá því hvernig augum fólk lítur náttúruna í dag. Það er svolítið verið að drepa hana.

Rosa stillt.

Rosa stillt.

Það er svona að þýða allt eins og með þessi svín og það að fara í svona rosalega klassískan miðil, maður fyllist oft svona.. eða hvað segir maður, maður verður svona „strand“, manni finnst eins og það sé búið að gera allt en sem er ekki rétt af því að maður er ekki endilega að reyna að finna upp einhvern miðil. Ég held það sé frekar sko að finna upp hvernig er hægt að nota það sem er til og halda áfram, þú veist, tólin, með þeirri meiningu. Mér finnst það rosalega krefjandi, að ætla sér að fara út í þannig miðla sem taldir eru „dauðir“.

Áttu þá við málverkið?

Þetta klassíska. Höggva í, gifs, já, öll þessi efni. Svo heldur maður að það sé búið að gera allt en kannski ekki. Maður verður bara að segja sjálfum sér að það sé ekki búið að gera allt og halda áfram.

Þetta er kannski samspil miðilsins við einfaldleikann, eins og sparígrísirnir voru einföld birtingarmynd ruglingslegrar pólitíkur þá er klassísk listsköpun mótstreymi við hið „flókna“ listform sem er búið að vera ríkjandi undanfarna áratugi?

Þá er maður líka kannski kominn inn á það að vera alltaf að nota bara nýjustu tækni sem er líka svolítið spennandi. Eins og Goya og grafíkmyndirnar hans, hann var að nota nýjustu tækni þá, en myndi hann þá í dag vera að vinna með einhverjar koparristur? Það væri forvitnilegt að sjá hvað hann væri að fást við væri hann uppi í dag. En samt sem áður þá eru þessi efni eins og brons alltaf falleg en ef það kæmi kannski einhverntíma upp þrívíddarbronsprentari, já það væri svolítið klikkað.

Finnst þér svona tækni, eins og þrívíddarprentarar, vera svindl í myndlist?

Nei, ekkert endilega, af því að maður hannar náttúrulega í tækin en mér finnst svolítið heillandi þessi aðferð eða þetta ferli – handverkið. Handbragð.

Úr Portrait. http://issuu.com/leifurymir/docs/portrait

Úr Portrait. http://issuu.com/leifurymir/docs/portrait

Já, það er kannski það sem gerir verkin einstök? Það sem listamaðurinn leggur í verkið með líkama og sál á móti því að láta tæki sjá um handverkið. Vantar þá ekki þessa „tilfinningu“ í verkið?

Jú, kannski. En svo er það líka oft hugmyndin. Að sjálfsögðu þarf maður oft að leita til fagmanna, það er fáránlegt að ætla að kunna allt þótt það sé heillandi á sama tíma að vera svona einyrki. En mér finnst rosalega gott að geta fengið hjálp. Svo þegar maður fær áhuga fyrir því að vinna með eitthvað ákveðið efni þá auðvitað leitar maður sér þekkingar um það. Eða klúðrar því alveg þar til maður fattar það.

Ég upplifi svolítið með myndlistina þína, eins og með þessa sýningu og svo sparígrísina, þá nærðu fram ákveðinni tilfinningu – þessu kalda pólitíska „steitmenti“. Til dæmis þegar þú fluttir inn 16 skúlptúra til landsins frá Frakklandi sem mótaðir voru utan um 1,5 lítra pasties flöskur. Þú keyrðir með þá í litum fornbíl alla leið frá Frakklandi og silgdir svo með þá í norrænu til landsins þar sem bíllinn bilaði. Þeir voru í raun mjög „hefðbundir“ fígúratívir skúlptúrar sem urðu á sama tíma mjög pólitískir þegar maður vissi um innihald þeirra.

Já, þeir fjölluðu svolítið um landamærin.

Lög og reglur?


Já, þetta var náttúrulega algjör smáglæpur.

En það var kannski ekkert hugmyndin til að byrja með, hún kom kannski svolítið á eftir?

Ég held að það sé ekkert endilega alltaf mikilvægt að vera búinn að skilgreina hvert einasta smáatriði en maður þarf samt vita hvað maður er að gera. Það er rosalega gaman líka, þegar þú færð svona hugmynd og framkvæmir hana og sérð ekki eitthvað sem aðrir sjá síðan kannski í verkinu. Eitthvað nýtt og það er rosalega fallegt líka. Það verður eins og hugljómun.

Það snýst þá kannski líka um að treysta sjálfum sér sem myndlistarmanni? Að maður treysti hugmyndunum sínum, að þær séu verðugar og maður þurfi ekki að byrja vinnuna á mjög ákveðni hugmyndafræði.

Síminn hringir og Leifur svarar og talar í stutta stund. Eitthvað um að roðfletta skötusel og að hann hafi fengið greitt í svissneskum frönkum og geti því ekki komið heim með meðlæti.

Svo hefuru gert bókverk líka er það ekki?


Jú, mig langaði alltaf fyrst til að vera ljóðskáld. En svo hugsaði ég að það væri alveg vonlaust og ákvað þá að fara í myndlist.


Af hverju fannst þér það vonlaust?


Ég prófaði að skrifa ljóð en það er svo átakanlegt. Ég nenni því ekki af því að ég fer alveg í krísu, ég veit ekki, ég geng alltof nærri mér.

Of mikil sjálfskoðun?


Ég veit ekki með það. Ef maður hugsar út frá skilgreiningum þá er ljóðlist líklega hreinasta listformið … og kannski teikningar. Mér finnst bara bókarformið svo heillandi ég hef oft gert svona fjölfeldi í samhengi við eitthvað verk, svo sprettur svolítið upp úr því eða öfugt. Ég hugsa ofsalega mikið í svona fjölfeldi eða svona framleiðslu. Það er gaman að breyta sér í svona vél, það er talað um að listamenn séu með svo skrítna vinnutíma en mér finnst mjög gott að vinna eins og verkamaður, hafa svona vinnutíma en svo er auðvitað spurning um hvenær maður er í vinnunni. Mann er kannski að dreyma vinnuna en myndlistarmenn eru ekki með stimpilklukku. Maður útskrifast og langar til að lifa á þessu, maður vinnur að einhverju og þá kemur fyrir að maður fær kannski eitthvað til baka, kostnað og svona.

Koma kannski út á núllinu.

Já, allt annað er svo plús.

Úr Samræðum við Satan. http://issuu.com/leifurymir/docs/samr__ur_vi__satan

Úr Samræðum við Satan. http://issuu.com/leifurymir/docs/samr__ur_vi__satan

Þú gerðir þarna bókverið Samræður við Satan fyrir nokkrum árum síðan. Hún var mjög hnittin og kaldhæðin að einhverju leyti en ég upplifði hana á sama tíma sem mjög mikla berskjöldun. Hún var mjög tilfinningaþrungin.

Já, ég gerði aðra svipaða á Seyðisfirði: Vélritað á Seyðisfirði, en ég geri þetta líka með teikningar. Maður kemst í svona vinnugír eins og maður sé bara vél.

Verður það þá eins og hálfgerð hugleiðsla eða hreinsun?

Já. Ég nota aldrei strokleður

Óheflað

Ekkert frekar en að ég nota ekki photoshop þegar ég tek myndir. Maður tekur bara myndir.

Finnst þér eins og verkin þín og þá líka þessi pólitísku séu persónuleg eða tilfinningahlaðin?

Já, ég held maður komist ekki hjá því.

Helduru að myndlist kveiki alltaf í myndlistarmanninum, þ.e. að hann hafi alltaf eitthvað segja með myndlist sinni? Eins og tæknilega færir tónlistarmenn á móti amatör bílskúrsbandi sem veit ekkert um hljóðfræði. Helduru að Pétur Gautur sé að reyna að segja eitthvað með myndlist sinni?

Ég held það sé ekki spurning um tækni endilega, ég held að það komi bara. Ég fæ nóg, ég tæmi það. Ég teikna kannski, finn mér eitthvað mótíf, reyni að vinna í því þar til mér finnst ég búinn að fá nóg en svo líka er maður með einn bolta á lofti en ég er með kannski tíu verkefni í einu sem vinnast hægt og rólega. Mér finnst það best. Það gerðist eiginlega í leirnum [Leifur stundaði nám í Mótun við Myndlistarskólann í Reykjavík], þá fer maður að hugsa marga hluti samtímis. Svona ferli. En þetta er samt svona gömul saga og ný. Að vera bara í ferli.

Stundum þarf maður líka að fara úr einu í annað. Það er eins og ef það gerist eitthvað í undirmeðvitundinni þegar maður fjarlægir sig frá efninu eða sefur sem fullkomnar svo verkið.

Það fer líka svo mikill tími í eitthvað allt annað en að gera myndlist, ég held að Magnús Pálsson hafi talað um það að það sé best að vinna bara í 20 mínútur á dag og ég held að það sé alveg rétt. Það fer svo mikill tíma í þetta „listræna“ yfir daginn eða eins og ég skil þessa pælingu þá ertu alltaf að gera hitt og þetta, þú ferð í sturtu og svo þarftu kannski að vaska upp og setja í þvottavél en svo fer líka alltaf tími í að þrífa eitthvað eða láta eitthvað harðna í listsköpun þinni. Kannski eru þessar tuttugu mínútur „púra“ listsköpun á meðan allt hitt er svona hversdagsleiki sem er rosalega inspírerandi líka.

Já það getur verið mjög gott að fara í Kringluna þegar maður er alveg að drukkna í eigin listsköpun. Kringlan er eins og andstæða við þetta húllúmhæ sem á sér stað í hausnum í þessu listræna ferli.

Já, það getur líka verið rosalega hættulegt að festast í eigin hugsun og ætla að reyna kreista eitthvað fram. Þá þarftu að fara að drífa þig í Kringluna.

Þá er maður kannski ekki að treysta, ef maður gefur sér aldrei „frí“?

Maður getur ekki alltaf verið með höfuðið á fullu, ef maður er alltaf á því stigi þá gerist voðalega lítið. Maður þarf að vera svolítið duglegur eins og ég er alltaf að reyna að tileinka mér að vera raunsær en líka neikvæður eða gagnrýninn og á sama tíma dreymandi.

Hafa báða fæturnar á jörðinni.

Maður þarf að hafa þetta allt. Nei sko, svo að eitthvað gerist.

Maður getur stanslaust verið að tala um hugmyndir sínar og verið einhvestaðar í framtíðinni en þá gerist ekki mikið.

Já, maður þarf að getað talað um framtíðina á meðan maður er að búa eitthvað til. Ef þú ferð að gera eitthvað með höndunum þá fer eitthvað annað af stað, það er svo skemmtilegt. Ef þú ætlar að gera eitthvað svo gerist eitthvað allt annað. Þegar þú ert að leita að skrúfjárninu en finnur svo hallamálið. Þá ertu allavega kominn með hallamálið. Það er svo skemmtilegt þegar maður leyfir sér að vera með athyglisbrest og reynir ekki að loka á hann.

Kannski í hóflegu magni þá?

Nei nei. Opna aftur fyrir athyglisbrestinn. Opnun á athyglisbresti. Það þýðir ekki að loka á þetta sko.

Hvað er svo næst á dagskrá?

Ég sá fyrir mér að árið 2014, eða hvað er 2015?

2014

Já, ég var að spjalla við einhvern um árið 2015 í dag. Það er svo skrítið þegar maður þarf að skipuleggja sig svona langt fram í tímann. Það er svo skemmtilegt líka. En mig langar helst að vera á opnunum á hverjum einasta degi, eða allavega í hverri viku.

Færðu innblástur þegar þú ferð á opnanir?

Já, ég fer mikið á opnanir, ég elska að skoða hvað aðrir eru að gera. Maður getur ekki verið með rassinn uppí nei nefið uppí eða rassinn upp í nefinu á sér alla daga. Listin sprettur ekki af listinni en ég fer aðalega á opnanir til að stela hugmyndum.


Er ekki öll list stolin? En hvað finnst þér annars um listasenuna á Íslandi?

Ég veit ekki, ekki frekar en hvað mér finnst um vísindasenuna á Íslandi en ef maður er að pæla eitthvað í þessari stétt þá auðvitað er maður hluti af henni og manni finnst það rosalega skemmtilegt og er að reyna að fylgjast með eins mikið og maður getur. Þannig að ef maður myndi spyrja vísindamann hvað honum fyndist um myndlistarsenuna þá myndi hann kannski ekki vita það alveg. Mér finnst margt vera að gerast og ég finn fyrir meiri umfjöllun um myndlist og mér finnst það jákvætt en kannski er það af því að maður er að fylgjast með því.

Finnst þér grasrótin haldast í hendur við myndlistarheiminn eða finnst þér hún vera aðskilin – finnst þér grasrótin eiga heima á söfnum?

Já, eins og í Listaháskólanum er verið að tengja listheiminn við skólann þannig að í skólanum er maður strax í tengslum við listheiminn þannig að það er gott flæði þar á milli. Alveg eins og myndlistarmenn leita inn í skólann, þetta blandast svolítið saman.

Er myndlist bara fyrir myndlistarmenn?

Er hún ekki fyrir svona heimilisketti til að stara á í sófanum?

Jú, kannski. En helduru svona að almenningi finnist hann eiga heima á söfnum t.d.? Helduru að manneskja ótengd myndlistarheiminum myndi finnast hún eiga heima á opnun í Nýlistasafninu?


Mér finnst almenningur rosalega leiðinlegt orð. Ég heyrði í útvarpinu í morgun að stjórnvöld ætluðu að birta eitthvað fyrir almenningi og mér fannst það rosalega niðrandi orð. En þú átt kannski við hvort hún sé aðgengileg fyrir fólk sem er ekki myndlistarmenn.

Er hjólastólaaðstaða inn í myndlistarheiminn?

Ég ætla að fá mér sígarettu.

Hér lýkur viðtali við Leif Ými Eyjólfsson en sýningu hans Hvað finnst þér um Evrópusambandið er hægt að bera augum á Gallerí Salerni þar sem verkin fást til sölu á 80- 120 evrur.