Síðar í dag (klukkan 11 að íslenskum tíma, 13 að sænskum) verður tilkynnt um nýjan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Starafugl hefur undanfarnar vikur talið niður með myndböndum af verðlaunahöfum fyrri ára.
Í fyrra vann kanadíska skáldkonan Alice Munro – við mikinn fögnuð – og höfðu þá einhverjir á orði að það eina neikvæða við að hún skyldi valin væri að þá fengi Margaret Atwood þau líklega aldrei, því samlandar fái þau að jafnaði ekki með svo stuttu millibili að Atwood entist ævin í að bíða (og maður er víst ekki gjaldgengur lengur þegar maður er dauður). Hér að ofan má sjá Atwood og Munro ræða saman á Skype – um bókmenntir.
Við látum svo vita um sigurvegara ársins strax og tilkynningin berst frá Stokkhólmi.