Nei eða já: Að vekja upp hina dauðu eða þegar órar verða að veruleika

Um Já eftir Bjarna Klemenz

I: Kringlan og jólin

Kringlan hefir frá árinu 1987 verið til þjónustu reiðubúin fyrir verslunargraða Íslendinga og ferðamenn og er hún „stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur. [Þar] […] eru yfir 180 fjölbreyttar verslanir, veitingastaðir og þjónustuaðilar. Í Kringlunni má finna allt frá bókasafni og kvikmyndahúsi að landsins bestu veitingastöðum og tískuvöruverslunum. […] Láttu fara vel um þig í hlýju og notalegu umhverfi þar sem þú finnur eitthvað við þitt hæfi!“ 1 Í Kringlunni er jafnframt staðurinn þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla og þar að auki er hún aðalsögusvið nýrrar skáldsögu Bjarna Klemenz, , sem kom út ekki alls fyrir löngu hjá forlaginu Tófa. Höfundur sjálfur stendur að forlaginu ásamt kærustu og vini. Téð forlag er nýtt af nálinni.

Kannski er viðeigandi að taka téða bók til umfjöllunar svona skömmu fyrir jólin. Jólin sem teljast hátíð fjölskyldunnar, hátíð þar sem fjölskyldan eyðir hamingjuríkum stundum saman í ró og næði. Helst eyðir hún þeim við kertaljós á meðan hvítur snjórinn þekur jörð. Friður, gleði og væntumþykja ríkja og eigingirndinni er úthýst.

Reyndar koma jólin ekki við sögu í og fer aukinheldur fjarri að inntak jólanna sé efniviður umrædds verks. Nei! Það mætti fremur segja að verði að teljast svört ef jólin eru hvít. Höfundur segir sjálfur í samtali við DV að hann taki til skoðunar neysluæðið og hvernig allt snýst um peninga eða ölluheldur að verslunarmiðstöðvar í Asíu hafi veitt honum innblástur við skrif sögunnar. Þar að auki segir hann að verkið taki á reiðinni gegn auðhyggjunni og neysluhneigðinni sem er svo ríkur þáttur tilveru okkar.

Og þó! Kannski má eftir allt spyrða inntak bókarinnar við jólin? Þau eru jú tími þar sem neysla og kaup allslags varnings spila vegamikla rullu sem og auðvitað peningar eða skortur á þeim. Leggja og kaupmenn mikið upp úr þessum tíma. Vinsælasti samkomustaður almennings fyrir jólin er svo auðvitað þar sem flestar verslanir er að finna; í verslunarmiðstöðvum (reyndar þarf ekki jólanna við til að fólk sæki í slíkar stöðvar).

Ætti því að vera auðvelt að ætla verslunarmiðstöðvum hlutverk musteris í þessu samhengi án þess að vilja þó notast við of gildishlaðið orðfæri. Og ef einhver ætlaði sér að ráðast gegn eða taka afstöðu gegn neysluvenjum og peningahyggju samtímans væri verslunarmiðstöð líkast til ágætis vettvangur til að ná til sem flests fólks með boðskap sínum. Það er og inntak verksins.

II: Innihaldslýsing og umgjörð

segir frá Reyni sem er ungur myndlistarmaður er veröldin hefir ekki hampað. Reynir vinnur fyrir sér sem öryggisvörður í Kringlunni og er ekki allskostar ánægður með hlutskipti sitt:

[L]eið honum í sannleika sagt eins og hann væri að missa vitið af gremju. Hann skildi ekki hvers vegna hann neyddist til að vakna á morgnana til þess eins að klæðast öryggisgallanum, og lét sig dreyma um annars konar líf, þar sem hann mætti í partí hjá þotuliðinu og var umkringdur fallegu kvenfólki. Hann óttaðist að hann yrði einn af þeim sem yrðu útundan, heltist úr lestinni og líf hans yrði firrt merkingu, innihaldi og glamúr – sem var hlutskipti hans á meðan hann sinnti öryggisgæslu í Kringlunni. (bls. 9)

Til þess að vinna bug á hlutskiptinu fær hann hugmynd að gjörningi sem felur í sér að „hefja skothríð með paintballbyssu í […] eyðimörk eftirlíkingarinnar“ (bls. 12) Kringlunni á lýð og ljósaskilti. Skothríðin á að koma honum kortið í myndlistarheiminum og „skoða þanþol kapítalismans, ögra honum og spyrja um eðli lífsins.“ (bls. 12) Fær hann því vini sína, Jóhann og Erlu, sem eru á svipaðri bylgjulengd, með sér í lið við að koma andhófsgjörningnum í framkvæmd. Gjörningnum, sem fær nafngiftina Nei, er ætlað að vekja umtal, vera ádeila á auðhyggju, „ atlaga að listheiminum“ (bls. 15). Aukinheldur vakir fyrir þeim að vekja þá uppvakninga sem Kringluna sækja og „djönka sig upp af drasli aðeins neyslunnar vegna“ (bls. 17). Margt fer þó öðruvísi en áformað er.

Þessi 156 síðna, 3. persónu frásögn samanstendur af 37 misstuttum köflum og skiptist í þrjá lýsandi hluta: „Undirbúning“, kaflar 1-4, „Aðdraganda“, kaflar 5-24 og „Framkvæmd“, kaflar 25-37. Sjónarhorn frásagnar er þó ekki einvörðungu frá sjónarhóli Reynis heldur er einnig skyggnst inn hjá öðrum persónum. Aðrar persónur sem lesandi fær að glugga í eru Dísa, fyrrverandi kærasta Jóhanns og Pétur kennari Dísu. Lítið fer fyrir innliti hjá Erlu og Jóhanni.

Ytri sögutími verksins er augljós og er nærtækt að tengja hann nýliðnum efnahagsskakkaföllum og sá innri spannar líkast til viku eða skemmri tíma. Er samt nokkuð um afturlit sem þó ná ekki svo langt aftur í tímann. Er því óhætt að skella nafngiftinni nútímasaga á bókina.

III: Persónur

Þeirra fimm persóna sem koma við sögu í verkinu hefir þeirra þegar verið getið. Aðrar persónur spila ekki teljandi rullu. Persónur þessar eiga það sammerkt að reiði blundar í þeim. Beinist reiði sú einkum og sér í lagi að samfélagi þær álíta gegnsýrt af peningahyggju. Má það auðvitað augljóst teljast þegar litið er til Reynis, Jóhanns og Erlu, þótt hvatir Jóhanns og reiði hafi ef til vill meira með höfnun Dísu að gera, enda er hann ennþá yfir sig ástfanginn af henni. Ást sem hún endurgeldur ekki. Og án þess að vilja uppljóstra of miklu þá beinir hann gjörningnum Nei inn á aðra og öllu öfgafyllri braut þar enn lengra er gengið og Nei verður Já.

Dísa er menntaskólanemi sem jafnframt vinnur í Eymundsson í Kringlunni. Hennar persóna er sú sem hefir hvað minnst á hornum sér og kemst hvað næst því að vera „venjuleg.“ Allavega í samanburði við hinar persónurnar. Menntaskólakennarinn Pétur brúar máski bilið. Í honum er listræn taug sem hann hefir um margt lagt til hliðar og lent, svo að segja, í brauðstritinu. Þótt svo sé má greina með honum fyrirlitningu á smáborgarahætti þar sem í „staðinn fyrir að ræða um hugmyndir og framtíðina […] [er rætt um] barneignir, útivist, heilsu, íbúðir, og veraldlega hluti.“ (bls. 48) Raunar er það hann sem er hvað myrkastur í viðhorfum sínum:

Hann hélt alltaf að fólk elskaði náungann í krafti heilinda hans og góðmennsku, en það var ekki rétt, öllum var skítsama um góðmennsku og hjartahlýju, fólk elskaði bara þá sem það hafði not fyrir, þess vegna skiptu peningar og völd öllu máli í lífinu, manneskjan var ekkert nema sú vinna sem hún valdi sér í lífinu, og allir voru falir fyrir rétta upphæð. (bls. 65)

Í hugum persónanna (þeirra sem lesandi fær innsýn í) grassera ofbeldisfantasíur sem sóma myndu sér vel í hvaða hryllingsmynd sem er. Ofbeldisfantasíur sem beinast oftar en ekki að samborgurunum. Jóhann er að vísu eini aðili sögunnar sem gerst hefir sekur um að beita ofbeldi. Persónur verksins upplifa sig, eins og nærri má geta, á skjön við samfélagið, í og með þó vegna skorts á velgengni á listasviðinu, því veraldlega sem og í ástarlífinu í tilfelli Jóhanns.

IV: Úttekt

er önnur útgefin skáldsaga höfundar. Árið 2006 kom Fenrisúlfur út hjá Nýhil. Það sem einkennir þá sögu öðru fremur er ógnvænleg, ofbeldisfull og hrollvekjandi heimsendastemming þar sem mörkin milli raunveruleika og fantasíu eru oft og tíðum ógreinileg. Svipað er upp á teningnum í smásögu Bjarna, „Deleríum Klemenz“ er birtist í fyrsta tölublaði Tímarits Máls og menningar árið 2008. Þar er París lögð í rúst.

rær á sömu mið og er spilað markvisst með ofbeldisóra, hrylling og heimsendastemningu. Mætti örugglega víða finna sitthvað sem tengja má við verk hryllings- og ofbeldisflokksins. Nærtækasta dæmið skyldi þó ætla að sé zombie-kvikmynd Georges Romeros Dawn of the Dead frá árinu 1978 þar sem uppvakningar ráfa um í verslunarmiðstöð einni í Bandaríkjunum með það augnamið að gæða sér á þeim lifandi. Þeir lifandi verja sig, eins og lög gera ráð fyrir í viðlíka kvikmyndum, með að splundra hausum uppvakninganna á einn eða annan hátt. Téð kvikmynd þykir bera keim af gagnrýni á vestrænt eða bandarískt neyslusamfélag. Og eins og uppvakningarnir í Dawn of the Dead eru drifnir áfram af stjórnlausri græðgi þá er ljóst af gildishlöðnu orðfæri að meðalneyslujóninn má spyrða saman við réttdræpa zombie Romeros þótt listamennirnir ætli sér ekki að ganga svo langt að aflífa hann. Tilgangurinn er að vekja hann til umhugsunar með því að brjóta niður musterið á táknrænan hátt. Er og augljóslega tekin afstaða í verkinu gegn þeirri neyslumenningu sem Kringlan og viðlíka verslunarmusteri eiga að standa fyrir.

Líkt og hjá Romero í Dawn of the Dead er einfaldleikinn í fyrirrúmi í og lítið um flækjur hvað söguþráð varðar. Gildir það einnig um stílinn sem er nokkuð laus við tilþrif og er textinn endurtekningasamur. Má að auki finna eitthvað af villum í textanum sem skrifast á að líkast til hefir bókin verið skrifuð í flýti. Eru villurnar þó ekki endilega svo mikið til vansa.

Að lokum, svona til að klikkja út, verður að þykja sennilegt að viðlíka órar fyrirfinnist í hugskotum margra. Flestir segja þó nei við þeim. Þessi bók tekur á því hvað yrði ef þetta nei yrði að já!

Bókin er örugglega til sölu í Kringlunni. Væri máski ekki úr vegi að glugga í hana þar.

   [ + ]

1. Tekið af heimasíðu Kringlunnar, www.kringlan.is.