Myndlist vikunnar: Þorgerður Þórhallsdóttir í Kunstschlager

Þorgerður Þórhallsdóttir í Kunstschlager
14.06.2014 – 29.06.2014

Af hverju heitir sýningin þín Nobody will ever die?

Þetta er brot úr setningunni „everything is as it should be, nothing will ever change, nobody will ever die“ sem er fengin úr endurminningabók eftir Vladímír Nabokov, Speak, Memory. Mér fannst þetta passa svo vel við tilfinningu sem ég er búin að vera hugsa um, að líta á minnið sem griðastað, athvarf fyrir breytingum og dauðleika og barnsleg þrá til að hverfa aftur þangað, að vilja ekki sleppa þessum tilfinningum. Upp á síðkastið hef ég mikið verið að spá í minni barnæsku og fæ alltaf tilfinningu þar sem að ég sem barn upplifi algjört tímaleysi og að ég muni alltaf hafa nægan tíma því að það er til svo mikið af honum. En ég var auðvitað ekkert að spá í því á þeim tímapunkti. Þetta er bara tilfinning sem ég fæ þegar ég man eftir vissum stundum í lífinu. Það var ótrúlega mikill skellur þegar afi dó. Ég var tólf ára og það var í fyrsta sinn sem ég áttaði mig á dauðanum og þessum hverfulleika. Þá upplifði ég í fyrsta sinn að það væri ekki til nóg af tíma.

Hvernig eru verkin sem þú ert með á sýningunni?

Togga.Mynd-EggertJóhannson-mblÞetta er eitt vídeóverk sem heitir einmitt „everything is as it should be, nothing will ever change, nobody will ever die“ og er vídeóupptaka sem ég fann heima hjá ömmu af afa, Gísla Magnússyni, píanóleikara, sem hann hefur greinilega tekið upp sjálfur árið 1989 og ég held kannski að það hafi aldrei neinn átt að sjá þetta. Hann er að æfa 4. konsert Beethovens heima hjá þeim í stofunni. Hann flutti þennan konsert síðan 16. mars 1989 með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói og það var fjórum dögum eftir að ég fæddist. Ég notaði semsagt vídeóupptökuna og upptökuna sem að Ríkisútvarpið gerði af þessum tónleikum til að búa til vídeóverkið. Ég fór upp á rúv og hlustaði á upptökuna á safninu. Þetta er allt til á segulbandsspólum og það er mikil upplifun að hlusta á þær, það er svo fýsískt eitthvað og athöfnin sem því fylgir. En þegar ég heyrði klappið í lok tónleikanna á RÚV-upptökunni, og Jón Múla Árnason lýsa fyrir hlustendum því sem á sér stað á sviðinu varð verkið í rauninni til. Klappið var eins og lausn fyrir allar þessar tilfinningar. Jón Múli segir m.a. „ … og nú rísa hljóðfæraleikararnir allir úr sætum til virðingar við Beethoven og Gísla … “ og mér fannst vera svo mikil gleði í þessu og von einhvernveginn, afi var nýorðinn afi og allt hefur verið svo gott eitthvað þarna. Tónlistin er auðvitað ódauðleg og mér þykir viðleitni mannanna til að varðveita verk Beethovens áhugaverð, og mér þykir líka viðleitni mannanna til að varðveita almennt áhugverð, sem og varðveisla RÚV á menningarverðmætum þjóðarinnar og síðan upptakan sem afi gerði sjálfur og varðveitti þar með þetta augnablik.

Hvað er á döfinni hjá þér?

Ég er að fara í ferðalag 4. júlí, til New York og Mið-Ameríku en í haust er ég síðan að fara til Malmö í mastersnám í myndlist.

Eitthvað að lokum?

Já, Páll Ívan segir að koríander sé algjörlega ómissandi á öll íslensk heimili.