Myndlist vikunnar: Sagað í Kunstschlager

Sindri Leifsson
Sýning: Sagað
Kunstschlager sýningarrými
Rauðarárstíg 1
01.03.14 – 15.03.14

Hvað getur þú sagt mér um þessa sýningu?

„Látum okkur sjá. Hún er um einhvers konar svona vinnuferli og kannski vinnuferli sem ég tek frá mismunandi stöðum. Þetta eru svona leifar af útskriftarsýningunni eða ekki leifar heldur framhald, það eru alltaf einhverjir punktar sem að halda áfram frá sýningu til sýningu. Ég hef mjög gaman að þessu vinnuferli þar sem er ekkert endilega allt til sýnis heldur eru þetta svona nokkrir punktar sem eru sýnilegir úr ferlinu eða sem ég geri sýnilega. Tímarammi sýningarinnar er slíkur að ég er sjálfur í rýminu og vinn það með hjálp ýmiskonar verkfæra en það er kannski á einhverjum tímapunkti svolítið óljóst hvað eru alvöru verkfæri og hvað eru mín verk eða mínir skúlptúrar, hvað er notað til vinnunnar og hvað er vinnan. En á sýningunni fékk ég lánaðan hefil frá afa mínum sem að ég notaði alltaf þegar ég var lítið barn. Þegar maður er lítill fiktar maður í allskonar og finnst gaman að prófa sig áfram og mér fannst þessi hefill svo skemmtilegur, ég notaði hann stanslaust í nokkra daga en það sem var skemmtilegast var efnið sem að umbreyttist.“

Sindrihefill
Vinnur þú oft með þessa umbreytingu?


„Já, svona umbreytingu efnissins, að eitthvað sem er svona heilt stykki eða spýta sem allt í einu eru spænir. Hér er ég að vinna með efni og set fullt af efni í kringum mig en er ekkert endilega með eitthvað markmið, vinnan verður vinnunnar vegna og vinnan verður í forgangi, svona labor. Undir venjulegum kringumstæðum í framleiðsluferli þá er það endaniðurstaðan sem er markmiðið, þá er það varan sem að stýrir öllu vinnuferlinu en hér er ég að fara aðeins aðra leið.“

Er ferlið mikill partur af þínum verkum?

„Já, alveg mjög mikið og ferli sem að samtvinnast, ferlið í þessari sýningu tengist öðrum ferlum og það eru þessar tengingar sem að mér finnst mjög mikilvægar, það er oft miklu áhugaverðara heldur en að framkvæma einhvers konar hugmynd sem að maður fær.“

Sindrisög
Af hverju Sagað?

„Já, sko þessar sagir, ég er svo heillaður af söginni af því að hver sög er búin til með mjög ákveðna sértæka virkni. Sem sagt tannarblaðið er hannað með mismunandi harðleika viðsins í huga og ein af sögunum þarna inni hefur til dæmis nafnið „the great American tooth“. Þessar sagir eru lauslega byggðar á sögu saga. Ég er í fyrsta skipti að tefla saman sögum sem að ég smíða og einhverju sem er sagað. Þessi málverk sem ramma sig inn sjálf eru söguð, efniviðurinn er fundinn og eru oft panelar eða viður úr innréttingum sem svipar oft til rammaefnis nema í staðinn fyrir málverkið þá fyllir ramminn bæði út í sjálfan sig og umlykur sig á sama tíma.“