Hæ Dóra, hvað ertu að bauka?
Akkúrat þessa stundina er ég að klippa kvikmynd sem ég tók upp um daginn ásamt Magnúsi Halli vini mínum og óperusöngvara. Hún er bara ein mínúta og svokallað „one-take“ svo það er ekki beint mikil klippivinna en það er samt alltaf eitthvað sem þarf að breyta og bæta. Svo þarf ég að fara að taka niður sýningu sem var úti á Granda á Menningarnótt, en þar var fjöllistasýning með fullt af myndlistar- og tónlistarfólki og svaka stuð.
Í stærra samhengi þá var ég búsett í Berlín síðasta vetur að læra þýsku og gera myndlist en kom heim í sumar til að vinna fyrir peninga, meðal annars í leikmyndum fyrir auglýsingar og svo vann ég verkefni með þýskum vídeólistakonum í Seljavallalaug. Ég fer aftur út í haust og ætla þá að stofna Studio Festisvall með Árna Má vini mínum, en okkur langar að búa til nokkurs konar listamiðstöð fyrir unga íslenska listamenn sem koma til Berlínar og geta þá leitað til okkar og fengið aðgang að vinnurými og tengslaneti. Stúdíóið verður líka höfuðstöðvar listahátíðarinnar Festisvall í Þýskalandi en Árni Már hefur stýrt þeirri hátíð frá árinu 2010 og síðustu tvö árin unnið að samstarfi milli íslenskra og þýskra listamanna sem við viljum efla.
Hvaða sýning var þetta á laugardaginn?
Hátíðin kallaðist Mucho Grandi, en við buðum fólki að heimsækja vinnurými tónlistar- og myndlistarfólks sem hefur haft aðsetur á Granda síðustu ár. Þar komu saman aðilar frá listahátíðinni Festisvall, æfingarýmunum Járnbraut og Reglu hins öfuga pýramída og rými Skiltamálunar Reykjavíkur. Við vorum með stóra myndlistarsýningu í tveimur rýmum með yfir þrjátíu listamönnum og svo var tónleikadagskrá allan daginn og fram á kvöld í rými Járnbrautar. Þar vorum við búin að smíða glæsilegan bar og buðum gestum upp á alls kyns veitingar í föstu og fljótandi formi. Því miður var þetta bara eins dags skemmtun og sýningin því ekki lengur sjáanleg en það var rosa góð mæting sem er frábært.
Ég held það sé mikilvægt að sýna almenningi starfsemina sem hefur verið í gangi á þessu svæði undanfarin ár. Til dæmis eru krakkarnir í Járnbraut að missa rýmið sitt svo þetta var nokkurs konar lokahátíð í rýminu fyrir þær hljómsveitir. Nýlega hafa nefnilega verið að opna þarna veitingastaðir og verslanir sem laðar fólk enn frekar í þessa átt sem er bara jákvætt en þróunin er því miður oft þannig að fyrstu landkönnuðir nýrra svæða eru listamenn, sem byggja svæðið upp með áhugaverðri starfsemi og í kjölfarið mæta svo rekstraraðilar með peninga milli handanna og bola listamönnunum í burtu. Við skulum vona að það verði ekki þróunin á Granda.
Hvað varst þú að sýna?
Ég var sjálf að sýna fjórar teikningar af mávum. Það er frekar óvenjulegt því ég hef ekki mikið teiknað síðan ég fór í Listaháskólann. Ég held samt að þessi verk hafi frekar orðið til út frá texta, en ég vinn oft með texta og tungumál á einn eða annan hátt. Mávar tengjast höfninni og hafinu og höfðu áður fyrr mun rómantískari merkingu í hugum okkar. Helena Eyjólfsdóttir söng um hvíta máva sem hún bað fyrir ástarkveðjum yfir hafið og þeir prýddu postulín fínustu heimila. Núna borða þeir ruslið okkar, stela brauðinu frá öndunum á Tjörninni og éta svo ungana þeirra. Mávarnir hafa aðlagast borgarmenningunni, en ætli verkið tengist ekki lúmskt íslenskri rómantík í því formi sem hún birtist snemma á sunnudagsmorgnum, þegar mannfólkið leitar að lófa til að leiða heim meðan mávarnir kroppa í leifarnar af nætursnarlinu.
Arna Óttarsdóttir
Arnór Kári
Árni Már Erlingsson
Baldur Geir Bragason
Bergur Thomas Anderson
Björk Viggósdóttir
Darri Lorenzen
Dóra Hrund Gísladóttir
Erling T.V. Klingenberg
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir
Gylfi Freeland Sigurðsson
Halldór Ragnarsson
Helena Aðalsteinsdóttir
Helga Páley
Helgi Pétur Hannesson
Helgi Þórsson
Hrefna Hörn
Kalli25
Katla Rós
Kristína Aðalsteinsdóttir
Liu Lifen
Logi Bjarnason
Loji Höskuldsson
Magnús Andersen
Ragnar Jónasson
Ragnar Már Nikulásson
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Rögnvaldur Skúli Árnason
Sigurður Angantýsson
Sigurður Ámundason
Þorvaldur Jónsson
Þór Sigurþórsson
Þórarinn Ingi Jónsson
Þórdís Erla Zoega
Lord Pusswhip
Just Another Snake Cult
Kælan Mikla
MARKÚS & THE DIVERSION SESSIONS
Nolo
Knife Fights
Wesen
Skelkur í bringu
Útidúr
DEEP PEAK
Grísalappalísa
DJ Benson Is Fantastic
DJ Lamp Vader
it is magic