Myndlist vikunnar: Listvísi

Hvað er Listvísi?

Listvísi er málgagn um myndlist sem var stofnað árið 2012. Það kemur út á prenti tvisvar á ári og inniheldur efni sem fjallar um list á mjög margvíslegan hátt. Þetta er vettvangur fyrir óhefðbundna og hefðbundna umfjöllun um list, sem og hið ritaða orð í listum. Þrjú tölublöð hafa komið út og þau innihalda alls konar sem fjallar um list, listamenn, listrænu og allskonar listrænan fjanda.

Hvernig standa á bak við þetta apparat? Og hvað kom til að þið ákváðuð að stofna þetta?

Listvísi var stofnað af Birtu Þórhallsdóttur og Freyju Eilífi Logadóttur. Við höfðum verið að skoða gömul tímarit um listir og menningarmál og langaði í rauninni bara til að stofna tímarit um eitthvað. En síðan fórum við stöllurnar saman í réttir norður á Vatnsnes og þar varð hugmyndin að Listvísi til og við ákváðum að stofna málgagn sem fjallaði einna helst um myndlist. Þetta var meðal annars vegna þess að okkur fannst myndlist oft vera í minnihluta í þessum ritum sem hafa sjallað um menningarmál.

Hverjir senda inn efni? Hvernig nálgast maður þetta?

Málgagnið hefur verið til sölu í Kunstschlager og Útúrdúr (þegar það var og hét), en annars má nálgast okkur og kaupa blaðið beint af býli. Öllum er velkomið að senda inn efni. Næsta tölublað kemur út núna í júní og skilafrestur er 30. apríl. Við tökum við efni á netfangið okkar listvisi@gmail.com