Mynd í orð komið

Um LÓABORATORÍUM eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

I

a) Mynd á bókarkápu:

Fyrsta viðleitni:
Á mynd ber að líta tvær unglingsstelpur sem staddar eru á þvottasvæði sundlaugar. Má ráða staðsetningu þeirra af grænum flísum í bakgrunni myndar sem og sakir þess að önnur þeirra heldur á handklæði og hin hefir sundgleraugu á höfði. Er æskulýðurinn nýkominn úr lauginni. Þar að auki ber að líta eldri konu með handklæði vafið um höfuð sér. Önnur stúlkan er rauðbirkin, með fremur sítt hár, freknótt með allnokkra undirhöku. Er holdarfar hennar eftir því í bústnara lagi. Hefir hún sérstakan útbúnað á tönnum sem hugsaður er til tannréttinga. Hin stúlkan er ekki síður búsældarleg hvað líkamsvöxt varðar en hefir þó öllu ljósara hörund auk ljóss meðalsíðs hárs. Eins og lög gera ráð fyrir eru þær fatalausar. Sköp eru þó eigi sýnileg á mynd. Ljóshærða ungmeyjan viðhefur fíflagang. Rekur snótin út úr sér tunguna, með aulalegan en jafnframt frygðarlegan svip á snoppunni. Athæfið vekur kátínu hjá þeirri rauðbirknu sem er broshýr á brá. Álengdar fylgist konan með. Upplit hennar ber með sér að henni hugnist eigi framferði fljóðanna. Sú gamla er komin vel til ára sinna, með signa og úrsérgengna mjólkurkirtla sem og hold sem farið er að slá í og þar af leiðandi skorpið og hrukkótt.

Önnur atrenna:
Á mynd eru tvær spikfeitar, ljótar og illa uppaldar stelpur í sundi sem herma eftir munngælum og gera grín að gamalli reiðri kerlingu með lafandi brjóst.

Þriðja tilraun:
Myndin sýnir hverfulleika tilverunnar. Hold er mold þótt það sé haft í flimtingum.

loaboratorium1

b) Mynd í bók

Fyrsta viðleitni:
Á mynd sést par í yngri kantinum af gagnstæðu kyni. Parið er statt í skógi eður garði. Kvenmaðurinn er rauðhærður, klæðalaus að ofanverðu og ber með sér kynþokka. Karlmaðurinn er alklæddur og styður vinstri hönd við hægra brjóst kvenmannsins. Parið kyssist. Leiða má líkur að því að tilfinningahiti sé í spilinu. Má ráða það af því að munir parsins eru á víð og dreif í kringum rautt teppið sem parið liggur á. Gera verður ráð fyrir að ástarleikurinn færist í aukana og að áður en yfirlýkur muni bæði enda allsnakinn og að samfarir eigi sér stað. Auk ástleitna parsins má einnig eygja unga, kjötmikla, bláeyga stúlku með hringlaga gleraugu upp í tré. Heldur hún á súkkulaðistykki sem hún augljóslega graðgar í sig, enda með súkkulaði út á kinn. Horfir hún raunalegum augum á parið.

Önnur atrenna:
Á mynd eru par að kela og feit stelpa að háma í sig súkkulaði. Lítur hún löngunaraugum á parið og hugsar með sér hvað þarf ég að gera til að lenda í svipuðum aðstæðum.

Þriðja tilraun:
Myndin er einskær ádeila á vestrænt neyslusamfélag og líkamsstaðla áráttu þess en jafnframt áróður fyrir því að fólk temji sér hófsemi.
loaboratorium2

II

Eins og glöggir greina þá er hér tekin til umfjöllunar bókin Lóaboratoríum sem inniheldur teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Ætli fari ekki nærri lagi að viðhafa orðið skopmyndir eða spéspegil um þær teikningar sem verkið, er Ókeibæ (hluti af Forlaginu ehf.) gefur út, prýða. Teikningarnar, sem finna má á ótölusettum síðum verksins, eru nokkuð ólíkar að formi og gerð, sumar hverjar með talblöðrum. Sumar sögurnar, sem myndirnar standa fyrir, eru einn rammi aðrar fleiri rammar auk þess sem útlitslega er allnokkur munur á þeim.

Líkt og leitast var við að leiða fyrir sjónir með þremur sjónarhornum á bókarkápu og mynd í bók umrædds verks getur verið mismunandi hvað fólk kemur auga á og hverju það ákveður að lýsa og hverju það sleppir að lýsa. Skal þó tekið fram að höfundur greinar er ábyrgur fyrir þessum þrem sjónarhornum. Getur einnig verið undir hælinn lagt hvaða orð eru viðhöfð þegar myndum er lýst sem og hvaða hughrifum þær valda. Þar að auki kann enn fremur að vera erfitt að koma áhrifum, ef einhver eru, í orð.

[Innskot: Verður ekki farið í verklega þætti bókar þar sem greinarhöfundur býr ekki yfir nægilegri þekkingu hvað það áhrærir. Fæst þó ekki betur séð en að höfundur verks hafi handverkið vel á valdi sínu.]

Verður hér gerð tilraun til að finna rauðan þráð Lóaboratoríum og koma myndum í orð. Það fyrsta sem augað kann að nema eru kvenlíkamar sem seint yrðu spyrtir saman við fyrirsætur og tískubransann. Sú mynd sem líkast til flestir hafa af þeim geira er af grannvöxnum fljóðum með lögulegan, ávalan barm, lítt greinanlegar mjaðmir og afturenda. Svo er það myndin af barmmiklu beðjunni sem, til að heimfæra þá mynd, mætti segja að eigi sín heimkynni í Ásdísi Rán og áþekkum kvenkosti.

loaboratorium

Snotur sprund myndu einhverjir segja, gervileg aðrir, holdgerving fegurðar enn aðrir. Einhverjir kynnu að notast við orðið staðalmynd í þessu samhengi og vilja meina að þær standi fyrir hugmynd sem reynt sé að þröngva upp á samfélagið; að engin ein tiltekin líkamsgerð eða líkamsgerðir séu öðrum æðri og að þessi tiltekna ímynd sé í raun og sanni draumsýn ein.

Hvað sem því líður eru þessar manntegundir því að gera fjarverandi í Lóaboratoríum. Það er eingöngu þegar kemur að því að útlista verkið sem þær skjóta upp kollinum og þá sakir fjarveru þeirra. Bróðurpartur teikninganna er af holdugu fólki á öllum aldri sem sumt hvert er við það að bæta á sig. Finna má manneskjur sem fylla seint upp í fegurðarstaðla, nema auðvitað þeirra sem á því eru að feitt sé fallegt. Aukinheldur eru viðföng verksins illa tennt, hárprúð á röngum stöðum, illa ölvuð, viðhafa litla háttprýði sem á tíðum mætti tengja við grótesku eða líkamsgrín. Raunar liggur beint við að tengja sköpunarverkin grótesku. Er svo vanabundnum kynhlutföllum snúið við og eru kvenverur meirihluti myndefnis.

[Innskot: Hér er náttúrlega leitast við að nota lítt gildishlaðið orðfæri. Hægt væri að viðhafa annað orðfæri, sem máski kynni að fara fyrir brjóstið á einhverjum, og lýsa karakterum bókar sem sílspikuðum eða akfeitum sem og viðurstyggilegum á allan máta með sín bólum skreyttu andlit og líkama sem einna helst minna á Holuhraun eða flatböku, auk þess sem þau hafa aldrei heyrt talað um spegil og er það sannlega „Guði sé lof“ því þá ræki í rogastans við að berja sína hryllilegu ásýnd augum. Þar að auki graðgar það í sig fæðuna líkt og sé það á akkorði.]

Það liggur í hlutarins eðli þegar eitthvað er tengt við grótesku þá eru ýkjur og afskræming boðorð dagsins. Einnig felur formið í sér að viðmiðum sé snúið á haus, að hátt verði lágt. Spilar þá líkaminn, starfsemi og oft og tíðum einnig niðurrif hans vegamikla rullu í umsnúningnum. Öll umrædd atriði eiga við Lóaboratoríum og án þess að ætla sér að fara í fræðilega úttekt eða of mikla túlkun á verkinu þá verður nokkuð ljóst að teljast hér ræðir um spéspegil á íslenskt/vestrænt (of)neyslusamfélag, staðla þess, fegurðarviðmið og viðmið almennt séð. Taka verður þó fram að ekki verður öllum myndum auðveldlega troðið í þann flokk og þá ekki heldur endilega gróteska flokkinn.

Sömuleiðis mætti velta fyrir sér hvort myndirnar séu í sínum afkáraskap nokkuð raunsönn lýsing á ástandi; hve fólki (Íslendingar) sé orðið feitt og vandamálin sem við sé að etja séu lúxusvandamál; að hin vestrænu lúxuslönd „baði“ sig í fitu og ofneyslu og séu jafnframt plöguð af óseðjandi hungri. Þar að auki mætti setja myndirnar í samhengi við þá útlitsdýrkun sem talin er serða vort samfélag og líta á þær sem ádeilu á þá tilbeiðslu. Ekkert er þó sérstaklega frumlegt við þá nálgun. Það er máski mergur málsins.

III

loaboratorium3Bók sem þessari hefði hugsanlega auðnast að verða hneykslunarhella hefði hún komið út fyrir tíma Fóstbræðra sem brutu blað í viðlíka grínaktugu og grótesku efni. Segjast verður eins og er að allt kemur þetta afar kunnuglega fyrir sjónir. Þar af leiðandi er bókin voðalega lítið stuðandi. Máski má þó fremur kenna tíðarandanum um það. Tíðaranda sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna nema þá umræðan snúist hugsanlega um múslima, kvenréttindabaráttu eða Framsóknarflokkinn. Vissulega kann þó stuð-stuðullinn að vera persónubundinn og getur vel verið að myndirnar komi við kaunin á mörgum, þótt það þurfi ekkert endilega að vera tilgangurinn.

[Innskot: verður að teljast líklegt að það sé tilgangurinn enda felst fyndnin og ádrepan oftar en ekki í stuðinu]

Stóra spurningin er þó auðvitað hvort verkinu takist að kitla hláturtaugarnar?! Og þó að sá sem þessum texta hnoðar saman viti vel svarið við þeirri spurningu þá ætlar hann þó að láta hverjum og einum það eftir að dæma um fyrir sig, enda fer best á því að hver reyni að koma sinni túlkun í orð.

-Myndirnar hér eru teknar á facebook hér og hér.