Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, leikur á flygil á meðan landsbyggðin pixlast. Mynd: Instagramsíða íslensku tónlistarverðlaunanna.

Menningarsamningar skornir niður um 10%

Framlög til menningarsamninga verða skorin niður um 10%, eða 23 milljónir króna og fá allir menningarsamningar á landinu þá samtals 207 milljónir króna frá menntamálaráðuneytinu. Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins besta. Menningarsamningar ríkis og sveitarfélaga eru nú í gildi í hverjum landshluta nema á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur samninganna er að efla menningarstarf á viðkomandi landsvæði og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga við slíkt starf í einn farveg. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði á ræðu á Alþingi að hann gerði sér ekki grein fyrir því hversu mörg störf tapist vegna þessa enda sé ekki ljóst hvar verði skorið niður, einungis hversu mikið.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti máls á því að undarlegt væri að draga saman seglin þótt allir virtust sammála um að reynslan af menningarsamningunum væri farsæl. „Fyrst og fremst velti ég fyrir mér hvað það er við þetta verkefni sem gerir að verkum að mönnum finnst skynsamlegt að skera það niður, þ.e. ef þetta er farsælt verkefni, ef verkefnið býr til atvinnu, ef gengur vel að undirbyggja atvinnuvegina á landsbyggðinni með þessu verkefni. Hvers vegna er það skorið niður?“

„Ekki verður hjá því komist að nefna að á sama tíma og þessir samningar sæta niðurskurði úthlutar forsætisráðherra 200 millj. kr. með SMS-skilaboðum til þeirra sem eru honum þóknanlegir,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna um niðurskurð á framlagi til menningarsamninga.“

Fyrsti menningarsamningurinn var gerður við Austurland árið 2001 en frá árinu 2007 hafa verið í gildi menningarsamningar við alla landshluta utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið menningarsamninganna er að efla samstarf á sviði menningarmála á hverju svæði auk þess að stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og fjölgun atvinnutækifæra á sviði menningar, lista og menningartengdar ferðaþjónustu. Á hverju svæði starfa menningarráð sem eru vettvangur samtarfs sveitarfélaganna og hafa það hlutverk að standa fyrir þróunarstarfi og úthluta fé til verkefna á sviði menningar og menningartengdrar ferðaþjónustu. Fjölmargir menningarviðburðir á landsbyggðinni hafa notið góðs af menningarsamningunum, til að mynda tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður.

Hægt er að lesa umræðuna um málið á Alþingisvefnum.