Lopapeysurómantík og grásleppuhobbí

Um Gummi fer á veiðar með afa eftir Dagbjörtu Ásgeirsdóttur með myndum eftir Karl Jóhann Jónsson

Gummi fer á veiðar með afa eftir Dagbjörtu Ásgeirsdóttur – með myndum eftir Karl Jóhann Jónsson – er fyrsta bókin af fjórum um Gumma og Rebba. Hún kom út árið 2012 en sú nýjasta, Gummi fer í fjallgöngu, kom út núna fyrir jólin. 1 Í einhverjum skilningi er þetta kunnugleg saga, þótt ég geti ekki beinlínis sagt hvar ég hef heyrt hana áður. Gummi er lítill strákur sem er í sveit hjá ömmu sinni og afa. Í dag fær hann að fara til sjós í fyrsta sinn með afa sínum. Þeir taka lítinn árabát, sigla út og vitja grásleppuneta. Gummi dettur í sjóinn og afi kippir honum upp úr, segir svo ýkjusögur af baráttu sinni við sæskrímsli, og Gummi fær loks að velja hvort hann vill heldur rauðmaga eða grásleppu í kvöldmatinn.

Ég hef ekki lesið hinar bækurnar um Gumma en reikna með því að yrðlingurinn Rebbi, sem fylgir Gumma og afa hans niður á strönd og tekur á móti þeim þegar þeir koma í land, komi þar meira við sögu. Hér gegndi hann algeru aukahlutverki, þótt hann væri raunar í aðalhlutverki í formála. Í öðru aukahlutverki er svo amma, sem hjálpar Gumma þegar hann finnur ekki stígvélin sín (með því að finna handa honum gúmmískó í staðinn) og fær það hlutverk að krefjast þess – við hálfgert háð afans – að Gummi verði í björgunarvestinu, sem svo bjargar honum þegar hann dettur út í. En hún gerir svo fátt annað. Það reynist reyndar hafa verið Rebbi sem stal öðru stígvélinu – og hann skilar því þegar afi og Gummi koma í land. Amma og Rebbi eru þannig eins konar skósveinar í sögunni.

Gummi fer á veiðar er mjög nostalgísk saga, held ég mér sé óhætt að fullyrða. Það eru engin „nútíma þægindi“ í sveitinni. Amma og afi eiga enga spjaldtölvu, engan síma, engan bíl – raunar er eina „tæknitólið“ sem sést í sögunni utanborðsmótorinn á árabátnum (sem vel að merkja er ómálaður úr tré). Fjölskyldumyndirnar á veggjunum eru svarthvítar og eina málverkið af firði og fjalli.

gummiferaveidar2Stemningin er klassísk 21. aldar vestfjarðarómantík – í höfði manni sönglar ekki Bubbi og verbúðin heldur Mugi yfir „spegilsléttan fjörð“, lopapeysurómantík á frístundaöld frekar en aðgerðir í sjógöllum á harðri vertíð. Myndirnar eru samt í einhverjum stíl sem ég tengi við sjöunda áratuginn – í öllu falli 20. öldina – þær hefðu líklega líka verið gamaldags þegar ég var lítill. Ekki þar fyrir að þær eru mjög fínar, fallegar myndir.

Kynjahlutverkin eru kristalskýr og eiga uppruna sinn í einhverri mið-20. aldar frummynd (sem sjálfsagt var aldrei sönn – nostalgía snýst aldrei um þrá eftir veruleika sem var, heldur einhverri mynd af fortíðinni sem tignar einfaldleika, náttúrutrú og einhvers konar ró sem maður saknar úr eigin tilvist). Amma býr strákana sína út fyrir alvöru heimsins, en bíður heima sjálf, sjóferðin er manndómsvígsla fyrir Gumma: „Loksins yrði hann alvöru sjómaður, alveg eins og afi og pabbi.“ „Það voru bara alvöru karlmenn sem stunduðu sjóinn og nú yrði hann einn af þeim.“ Í bakgrunni er glíman við hin íslensku náttúruöfl – þjóðernisrómantísk einsog hún er – hafið og ófrenjurnar sem í því leynast. Þarna er líka náttúrutrúin, þessi hugmynd að maður geti einfaldlega vingast við náttúruna, einsog Gummi og Rebbi vingast, nálgast hana sem vinur frekar en drottnari og þá vingist hún við mann til baka. Í formála höfundar – sem er mjög fínt touch, vel að merkja, það er afar vel til fundið að nálgast lesendur persónulega í barnabók – segir:

Þegar ég var lítil stelpa átti ég mjög sérstök gæludýr. Það voru yrðlingar. Yrðlingar eru börn tófunnar. Þeir eru svona eins og litlir hvolpar. Sumir eru svo gæfir að maður getur leikið við þá og klappað þeim. Þeir eru líka ofsalega stríðnir og svo stela þeir stundum dótinu manns og fela það.

Ég las bókina með syni mínum, Aram Nóa, sem er fimm ára. Honum fannst bókin mjög góð – hann var dálítið hræddur, meira hræddur þegar Gummi datt í sjóinn en þegar afi var að segja frá sæskrímslinu, og honum fannst þetta með tófurnar mjög áhugavert. Sjálfur tengi ég tófur meira við vargsskap – þegar ég vann sem blaðamaður á Vestfjörðum fékk ég oft sendar myndir frá bændum af lömbum sem tófan hafði nagað andlitið af. Ég er ekki heldur alinn upp við að náttúran sé krúttleg – ég get ekki talið skiptin sem pabbi minn, sjómaðurinn, hefur tuggið það ofan í mig að sjómennska sé engin helvítis rómantík, eða skiptin sem við vinirnir í menntaskóla hlógum að fréttum um bandaríska túrista sem ætluðu að klappa ísbjörnum á Svalbarða, sem svo átu þá. Kannski er of langt gengið af mér að láta tófuna gjalda þessa viðhorfs, þetta eru áreiðanlega einhvers konar fordómar, en mér hefur sem sagt aldrei þótt hún sérstaklega sympatísk og er ekki viss um að ég myndi leyfa syni mínum að halda yrðling fyrir gæludýr.

Bókin vakti mig til umhugsunar um margt – til dæmis að ég gæti miklu betur að því að það sem ég les fyrir son minn sé hollustulesning, en ég gæti að þeim boðskap sem ég læt ofan í mig sjálfur (svona einsog ég leyfi honum ekki að drekka kaffi, þótt ég sturti því ofan í mig sjálfur, viðstöðulaust). Mér finnst allar svona sögur um manndómsvígslur, karlkynslóða á millum, með þessum krúttlegu þjóðernisvísunum, frekar erfiðar. Það verður bara að viðurkennast. Ég dæsi miklu meira í hljóði með sjálfum mér að barnabókunum sem ég les en fullorðinsbókunum – kannski er það líka vegna þess að „erindi“ barnabókahöfundarins er alltaf skýrara, hann er boðberi veraldarinnar, túlkarinn, hann blandar sér í uppeldi barnanna minna. Og kannski líka vegna þess að ég forðast þessa rómantík meira í fullorðinsbókunum – en reyni að hafa það fyrir prinsipp að Aram Nói velji sjálfur hvað ég les fyrir hann.

Ekki þar fyrir að auðvitað er sagan að einhverju leyti raunsæ – hún lýsir heimi sem finnst, tilfinningum sem eru til staðar. Það eru afar sem fara með afasyni á sjóinn, eða pabbar með syni, miklu frekar en ömmur með ömmudrengi eða afar með afastelpur. Og þessi fortíðarþrá í íslenskri menningu – frá Vestfjarðaþríleik Jóns Kalmans til Heima Sigur Rósar, frá Húna II til Aldrei fór ég suður – er raunveruleg tilfinning sem manni ber líklega að taka alvarlega, frekar en að mæta henni bara með yfirlæti.

En það þýðir ekki að hún trufli mig ekki, þýðir ekki að ég upplifi hana ekki sem eins konar eftiröpun af heimi sem er mér ókunnuglegur. Að mér finnist ekki óþægilegt að mata son minn á henni. Að mér finnist þetta ekki vera svolítil skemmtigarða-stemning. Og að ég vildi ekki óska þess, almennt, okkar allra vegna, að fortíðarþráin eða nostalgían tæki dálítið minna pláss í samtímamenningunni. Því henni fylgir ótti við breytingar – íhaldssemi. Og þessi ótti er ekki óskyldur hinum, sem finnst óþolandi að stór hluti barnanna á leikskólanum eigi annað móðurmál, að innkaupalistarnir skuli allir vera í snjallsímum, jólakveðjurnar á YouTube eða að fallegi bærinn sem maður ólst upp í sé nú fullur af einhverjum kebabsölum (þótt vel að merkja sé langsótt að kenna lopapeysurómantíkerum um nasistana, þá er hugsanlegt að þessi fagurfræði ýti undir hina, starfi með henni – í öllu falli ekki gegn henni). Ég er viðkvæmur fyrir þessu.

En það breytir því auðvitað ekki að Aram Nóa, fimm ára, fannst bókin bæði spennandi og skemmtileg. Og það er hún líka.

Frásögn: Fjórar stjörnur.
Stíll: Þrjár stjörnur.
Boðskapur: Ein stjarna.

   [ + ]

1. Eiginlega hélt ég að Gummi fer á veiðar væri nýjasta bókin, ég ætlaði að skrifa um þá nýjustu, en vegna misgánings sem skrifast alfarið á mig, fékk ég fyrstu bókina í hendur og áttaði mig ekki á því að þetta væri sú fyrsta en ekki sú fjórða fyrren gagnrýnin var meira og minna tilbúin.