Litamanifestóið: Alþýðusaga

Um Þegar litirnir fengu nóg eftir Drew Daywalt, með myndskreytingum eftir Oliver Jeffers

Söguþráðurinn er sirkabát svona: Daníel ætlar að fara að lita en þegar hann opnar litakassann sinn eru þar engir litir heldur bunki af bréfum. Bréfin eru frá litunum, sem eru farnir í verkfall. Kröfur þeirra eru ekki samræmdar – en þó mætti kannski segja að allir vilji þeir betri kjör, þótt hver þeirra skilgreini kjörin á sinn hátt. Svartur vill lita fleira en útlínur, Grár nennir ekki að lita bara stóra fleti (hvali, fíla o.s.frv.), Bleikur fær aldrei neitt að gera nema þegar litla systir Daníels rænir honum til að lita prinsessur, rauður fær aldrei frídaga – og þar fram eftir götunum. Og auðvitað beita þeir samtakamættinum og leggja niður störf samtímis – meira að segja Grænn fer í verkfall, þótt hann sé mjög sáttur við sitt hlutskipti, og sýnir þar með samstöðu með félögum sínum og kröfum þeirra. Með bréfum litanna fylgja sýnishorn af verkum þeirra.

hvitur

Daníel les bréfin og teiknar svo epíska mynd sem kemur til móts við allar kröfur litanna – nema hugsanlega kröfu Ferskjubleiks, en Daníel var búinn að rífa utan af honum pappírinn og skilja hann eftir nakinn, og ekki að sjá að því hafi verið reddað. Daníel fær svo fyrstu einkunn fyrir málverkið og plús fyrir hugmyndaflug. Stétt með stétt, altso, húsbóndinn græðir á að koma til móts við kröfur verkamannanna og allir vinna.

Sagan er sniðug og skemmtileg – klassahúmor. Aram Nói, sonur minn sem las hana með mér, hefur margoft vitnað í hana eftir að við lásum hana í fyrsta skipti og hún er klárlega ein af vinsælustu bókunum á iPadinum 1. Hún er líka margverðlaunuð, bæði á Goodreads og Amazon og Barnes & Noble og Nestlé (já, Nestlé) 2 og ég veit ekki hvað og hvað. Enda er hún bæði skrifuð af nokkru ímyndunarafli og líkleg til að setja ímyndunarafl þeirra sem lesa hana í gang – en umfram allt annað er hún skemmtileg, það er gaman að hugsa sér að litirnir séu alveg fjúkandi reiðir við eiganda sinn fyrir svívirðilega misnotkun (sem stafar þó augljóslega af hugsunarleysi frekar en grimmd). Einsog misnotkun og réttlát vinnulöggjöf eru nú annars alvarleg mál. 3

Mér finnst bókin hins vegar ekki nógu vel skrifuð, þótt sagan sé skemmtileg. Í fyrsta lagi eru sumar setningarnar klaufalegar, hvort sem um er að kenna þýðingunni eða enska textanum. Sem dæmi má nefna setninguna „Ég skín svo fallega á heila akrana af GULU korni“, og að litirnir undirrita bréf sín ýmist með eða án greinis – þinn vinur „Græni litur“ vs. þinn vinur „Grái liturinn“ – og þótt talmálsstíllinn í bréfum litanna sé oft ágætur er hann líka mistækur. Barnabækur eru svolítið einsog ljóðabækur: það er of lítill texti í þeim til að hann megi klikka, það er of mikil þyngd í hverju orði, hverri setningu. Og þá má svo sem halda því til haga að stílfrágangur á barnabókum – frá umbroti til málfars og flæðis – er almennt alveg skelfilegur. Í Þegar litirnir fengu nóg er hann líklega yfir meðallagi, en það er bara ekki nógu gott.

Í öðru lagi er takturinn sögunni er líka einhvern veginn rangur. Henni til dæmis lýkur alltof snögglega, og raunar hefst hún líka of snögglega – púðrið fer allt í bréfið en umgjörðin situr á hakanum. Byggingin er mjög tilþrifalaus og lítið um að bréfin bregðist hvert við öðru 4 eða myndi heildstæða sögu af samfélagi lita – þetta eru fyrst og fremst stök klögumál. Þar er varla þýðingu um að kenna.

Ég verð svo að lokum að nefna að liturinn „drappaður“ er mér einfaldlega ókunnur, þótt hann sé vissulega að finna í orðabók – ég hef aldrei heyrt talað um annað en „drapplitan“. En ég fæst ekki við því finnist öðrum það eðlilegt orðaval, hér er áreiðanlega við mig að sakast, en ég stama á þessu orði þegar ég les það upphátt enda er mér það ekki tamt.

Myndirnar eru flestar alltílagi, fæstar mikið meira en það, fyrir utan lokamyndina – meistaraverk Daníels – sem er auðvitað meistaraverk.

meistaraverk

Skemmtun/saga: 4 stjörnur
Stíll/tempó: 1 stjarna
Myndir: 3 stjörnur

   [ + ]

1. Við sníktum ritdómaeintök af barnabókum á pdf til að geta tekið þær með okkur til Víetnam, þar sem við erum búsettir næstu mánuðina – og kannski ástæða til að halda því til haga að mér skilst að Þegar litirnir fengu nóg sé prentuð á mjög þykkan og fallegan pappír. Slíkt skiptir ekki minnstu máli enda barnabækur oft lesnar í hel.
2. Verðlaunaromsuna má lesa á heimasíðu útgefandans.
3. Eiginlega minnir þessi bók mig svolítið á kennslubók í íslensku fyrir erlenda stúdenta sem ég sá einu sinni í Helsinki – um drekafjölskyldu, þar sem pabbadrekinn er kommúnistadreki og hleypir öllu bókstaflega í bál og brand á borgarstjórnarfundi.
4. Undantekningin er þegar Grænn kynnir til leiks Gulan og Appelsínugulan sem svo takast á um hver sé hinn sanni litur sólarinnar