Fréttabréf myndlistarmanna: Óframinn

Upp með hendur, niður með brækur! Allt í góðu gamni því að hvert listaverk er glæpur sem aldrei var framinn. Listin reynir á mörk innan samfélags og eins og arðbærar tölur úr skapandi geiranum sýna er hún, og ekki síst hinn gagnrýni undirgeiri, hollt innlegg í hvaða mál sem er. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, helsti stuðningsfulltrúi íslenskrar sköpunar, vill og ætlar samfélaginu gagnrýni og rökræðu. Illugi Gunnarsson tilkynnti á verðlaunafhendingu myndlistarsjóðs að hlutverk lista sé að siða samfélagið og ennfremur að listamenn ættu ekki að vera hræddir við stjórnmálamenn heldur öfugt. Listamenn taka undir þar sem þeim er alls ekki sama og neita því að samfélagið sé ekki til með því að sýna sína takta, félagsráðgjafarnir sem þeir eru. Glæpurinn er enn óframinn því um list er um er að ræða.

„Við erum ekki pólitíkusar. Við erum ekki aktivistar. Við erum listamenn.“ tilkynntu Ólafur Ólafson og Libia Castro í fjölmiðlum þegar þau drógu sig úr Sydneyjar Bienálnum sem nú stendur yfir, ásamt sjö öðrum listamönnum með hækkandi tölu. Upp komst að systir fyrirtæki helsta styrktaðila bíennalsins frá árinu 1973, Transfield Holdings, rekur búðir á Manuseyjum og Nauru þar sem hælisleitendur eru hafðir í varðhaldi. Gjörðin var í mótmælaskyni og fékk bíenálsráðið til þess að standa á öndinni, mitt á milli „hugmyndafræði og meginreglu“, ráðalaust. Luca Belgiorno-Nettis, stjórnarformaður bíenálsins og forstjóri Transfield Holdings, sagði af sér og telur að þar með sé ekki hægt að halda því fram að óorð sé á bíenálnum. Listamennirnir sem drógu sig úr sýningunni munu þess í stað halda vinnustofur, málþing og sýningar í almannarými til þess að siða samfélagið. Megi fleiri listamenn draga sig af launalista bíenálsins og varpa ljós á þetta viðfangsefni. Eini ólöglegi aðilinn í þessu samhengi eru pappírslausar manneskjur sem hafa ekki frekara samhengi til þess að draga sig úr.

Það gerðist fyrir stuttu að listamaður var talinn hafa framið glæp með sinni sköpun. Um er að ræða Ásmund Ásmundsson sem kærði Kristin E. Hrafnsson fyrir meiðyrði en þegar málið var flutt fyrir rétti var það Kristinn sem kallaði Ásmund glæpamann fyrir verknaðinn Fallegustu bók í heimi. Þar hefur Kristinn tekið sér úrskurðarvald um siðferðislegu mörkin sem listamönnum er dæmt að dansa meðfram en stíga ekki yfir. Í þessu tilfelli eru það hin almáttugu höfundarlög. Crymogea útgáfa, sem gaf út hið margumrædda hráefni Fallegustu bókar í heimi, hefur í auglýsingum sínum sett fram það boðorð að „Bækur skulu vera fallegar.“ Þar leggur Crymogea línurnar fyrir neytendendur, fagurfræðilega en líka siðferðilega: það skuli gæta ákveðinna marka, það sé ekki hægt að neyta listaverka hvernig sem er á eigin áhættu og ábyrgð, líkt og annarrar „vöru.“ Þú getur ekki bara valsað inn í Ikea og keypt þér saltkjöt og baunir á túkall og ælt yfir lífstílsvarninginn. Iðrun, samkvæmt Crymogeu, hefði falið í sér að brenna bókina. Nýlistasafnið stökk á sínum tíma til og tók bókina niður, til betrunar síns lagers. Í þessu tilfelli er enginn tekinn út af launalistanum, brotin eru algjör: þann sem svíkur bræðralagið er vísast að gera pappírslausan.

En söss, við skulum „skynja meira, hugsa minna“, taka okkur afdrep í kastala bóhemsins sem gestir Ragnars Kjartansonar og bera okkur í öllum okkar guðslegu allsnægtum meðan við glimrum með sköpunargáfunni og feminískum þráðum og emjum: Ó framinn.

Fréttabréf Myndlistarmanna mun birtast um það bil mánaðarlega – á Starafugli og sem prentaður einblöðungur.