Mynd: Af facebooksíðu forsætisráðherra.

Fréttabréf myndlistarmanna: Hoppað af gleði

Framsóknarflokkurinn fagnaði því að frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána var samþykkt sem lög á Alþingi hoppandi af gleði. Slík tjáning er óalgeng innan listheimsins, og hefur ekki orðið vart við hana þó að listin starfi vissulega af heilum hug með „hópa samfélagsins“ og „almenning“ í huga.

Listin „means business“ eins og hún hefur sýnt ítrekað nýverið þar sem listamenn hafa tekið upp á því að sniðganga sýningar í hrönnum til að standa á bakvið málefni og sýna pólitíska samstöðu. Í fyrstu atrennu var það á Sydney Biennalnum þar sem hópur listafólks neitaði að taka þátt vegna þess að aðalstyrktaraðilinn, Transfield Holding, rekur alræmdar flóttamannabúðir í landinu; næst á Manifesta í St. Pétursborg þegar rússneska kollektífið Chto Delat sniðgekk sýninguna og hafnaði þar með „gíslatöku“ sýningarstjórans til þess að sýna pólitíska samstöðu með Úkraínu. Þar næst var það á Whitney Biennalnum í New York þar sem kollektífið HOWDOYOUSAYYAMINAFRICAN? sniðgekk sýninguna vegna rasískra undirtóna samsýnanda. Eftir standa yfirlýsingar hvers hóps fyrir sig. Listamennirnir hafa verið googlaðir og eftir að Transfield Holding steig til hliðar hafa listamenn í Sydney gengið aftur inn á sýningarpallana. „Business as usual“ verður því nærtækara máltækið. Listamenn hoppa varla hæð sína. Hugsanlega er þó pólítíkin á Íslandi ungæðislengri, jákvæðari, hugsanlega sér hún tækifærin enda framsóknamenn óþekkir unglingar líkt og Auður Jónsdóttir rithöfundur komst að orði. Á sama tíma og samsýnendur Ragnar Kjartanson á Manifesta sniðgengu var orðrómur um að vinir hans myndu halda fermingarveislu í Vín, Rússlandi og rétttrúnaðarkirkjunni til samglaðnings.     

Lukka Sigurðardóttir hafði velvild „almennings“ í huga á útskriftarsýningu LHÍ og vildi benda á fáfræði þess „hóps“ að vita ekki betur og atast í listverkum sem er þó „passað“ upp á með öryggismyndavélum. Friðardúfunni var sleppt með góðu fordæmi og lögreglukæru. Annar kvenskörungur í listinni, Þorgerður Ólafsdóttir, vildi á dögunum einnig sýna fram á lögmæti og réttarfar innar listarinnar með því að andmæla því að listamönnum sé líkt við hústökufólk þegar útburður Nýlistasafnsins átti sér stað. Þorgerður reynir þar með að hreinsa listamenn af óorði sínu og sýna að listin vilji ekki læti, hún vilji vel. Og þó, Ólafur Ólafsson og Libia Castro sýna nú með hoppandi pönk sveitinni Pussy Riot á sýningunni Take Liberty! í Þjóðminjasafni Noregs og því spursmál hvenær íslenski listheimurinn sér listræna gildið í mönnunum „af erlendu bergi brotnu“ sem smygluðu sér inn á foropnun útskriftasýningar LHÍ og frömdu skemmdarverk í hofi lista í Reykjavík.

Hugur listarinnar til „hópa samfélagsins“ liggur að mati Theodor W. Adorno í ófélagslyndi lista þar sem listin myndar með sér sjálfstæði og óvirkni í samfélagslegri gagnrýni. Í sinni ítrustu mynd getur slíkt orðið að afturför. Þegar vafi leikur á um hvor stefnan er tekin virðist húmor geta fyllt upp í eyður. Blásið er lífi í þöglar styttur af þjóðlegum goðsögum og hetjuminnum Einar Jónssonar með „léttleika og húmor í fyrirúmi“ af listfræði- og myndlistarnemum og Snorri Ásmundsson dansar sem Dana International meðal rétttrúnaðargyðinga. Listræn lesning segir að Snorri sé þar með að fjalla um minnihlutahóp en rétt missti þó af austurríska skegginu, frægasta skeggi Austurríkis, sem myndmáli í pólitíska staðhæfingu.

Guðmundur Steingrímsson kallar leiðréttingu Framsóknarflokksins bruðl líkt og oft er haft á orði um listamannalaun. Listamenn geta nú beitt geðveikis-lífsýni sínu og félagsfræðirannsókninni sem á dögunum sýndi að „almenningur“ vill fremur sjá blinda og heyrnarlausa en geðveika í vinnu enda framlag lista til samfélagsins tvísýn ef ófélagslyndi lista er ekki til staðar.

Því eins og skáldið segir: Valhopp. Togn.