Hvað er hægt að segja um Gæðakonur Steinunnar Sigurðardóttur? Jú að hún rennur vel þrátt fyrir að vera bæði í þriðju persónu og fyrstu allt í bland , þ.e. sögupersónan María segir frá en talar svo allt í einu um hana Maríu, sem er pínu skrítið en venst furðu hratt. Tungumálið er fagurt eins og við var að búast, þótt það sé pínu uppskrúfað á köflum, sem einnig var við að búast af höfundi, og gefur sterka mynd af persónunum þótt eilítið einfalda. Impressionísk frásagnaraðferð hentar sögunni ágætlega og lesandinn fær rými til að framkalla eigin minningar og hugmyndir af t.a.m. jöklum, París og lambakjöti án þess að vera stýrt um of í átt að hugmyndum höfundar eða persónunnar af þessu öllu.
Sagan hefst með kynnum við gullfallega konu sem María, sem karlmenn eru hættir að sjá, laðast undir eins að. Kynni þeirra í flugvélinni eru stutt en sú fagra, sem við lærum að heitir Gemma, finnur Maríu aftur á kaffihúsi og gerir sitt besta til að móta úr henni öfgafeminista, meðal annars með því að tæla hana í bólið. Við þetta hefst nýr kafli í lífi Maríu, líkt og Stella forðum virðist hún fá ‘grúvið’ aftur og líf hennar verður aldrei samt. Þar verður sagan spenandi, þegar María fer að skoða eigið líf og leikmennina í því. Þetta væri hin besta saga ef Steinunn væri ekki að skrifa tvær sögur í einu, annarsvegar trylli þar sem leynimakk femínista skekur pólitískt landslag Íslands og hinsvegar sögu af fólki og tilfinningunum sem togar það og teygir.
Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að pólitíkinni sé smurt ofan á til að gera söguna spennandi, svo ekki hægt sé að saka höfund um að eiga ekki í samtali við nútímann. Ennfremur er erfitt að skilja mikilvægi þess að koma með einhverja undarlega ádeilu á feminismann hér. Hvað liggur höfundi helst á hjarta?
Einnig mætti skoða betur sögu Maríu sjálfrar, föður hennar og fyrri sambönd. Okkur er sagt trekk í trekk að María getur ekki skilið við eigin upphafnar tilfinningar gagnvart tveimur mönnum en hvers vegna? Það er óupplýst við enda bókar.
Það sem lesendur sækja í verk Steinunnar er skoðun á togstreitu einstaklinga við sjálfa sig og hana er að finna hér. Þar liggur styrkur Steinunnar og þar er styrkur Gæðakvenna. Allt annað er óþarfi að mínu mati.