Bíó vikunnar: Steinsnar milli fordæminga og fordóma

Snorri Ásmundsson listamaður birti á dögunum myndband sem síðan hefur skotið upp kollinum á helstu fréttamiðlum Íslands. Í myndbandinu syngur Snorri ísraelska þjóðsönginn, Hatikvah, á hebresku. Það má heita frekar hlutlaust mat að hann syngi hann illa: tilþrifalítill söngurinn virðist hluti af verkinu. Futuregrapher útsetti tónlistina. Marteinn Þórsson sá um kvikmyndatöku og klippingu. Öll sú vinna virðist nógu vel leyst af hendi til að vera óáhugaverð andspænis innihaldi verksins.

Innihaldslýsing

Myndbandið hefst á nærmynd af konu með svarta blæju fyrir andlitinu. Hún er hrifsuð burt af karlmanni með gyðingastjörnu um arminn. Eftir það birtist Snorri, syngjandi, í dragi. Kjóllinn hans er þröngur og það rísa fjaðrir upp úr bakinu á honum. Snorri segir sjálfur að dragið sé skírskotun í Dönu International, sem vann Eurovision árið 1998, fyrir hönd Ísraels. Snorri er meikaður, með rauðan varalit og augnskugga. Hann er umkringdur karakterum sem hver og einn hefur augljósa skírskotun til þjóðernis: tveir karlmenn með downs-heilkenni eru klæddir í svarthvíta múnderingu haddískra gyðinga; þriðji fulltrúi gyðinga, sá með stjörnuna um arminn, leikur á hljómborð á meðan hinir dansa; kona í bleikum kjól og vesti, með kúrekahatt dansar líka um og ríður stundum á baki svartklæddu konunnar með blæjuna. Uppstillingin með karakterunum öllum er brotin upp með nærmyndum af einstökum persónum dansandi eða máluðum vörum Snorra syngjandi milli skeggbroddanna hans. Stundum birtast varir, tennur og tunga Snorra í nærmynd án þess að hann sé að syngja. Yfir öllu er Eurovision-leg glysáferð og ljósbrot flögra um, eins og af svífandi glimmeri.

Verkið kemur við kauninn á mér sem áhorfanda. Ég geri ráð fyrir að það trufli fleiri, og að það sé ætlun listamannsins. Hlutlæga lýsingin hér að ofan gerir ekki grein fyrir þeirri virkni eða þeirri tilfinningu. Þegar ég horfi á myndbandið slær það mig, frá fyrsta áhorfi, sem gyðingaandúð. Það gerist áður en ég skoða hvers vegna, hvort sú upplifun er réttmæti, áður en ég geri mér grein fyrir þáttunum sem myndbandið er sett saman úr, og ég taldi upp hér að framan.

Næringargildi

Mér finnst erfitt að nota orðin gyðingahatur, gyðingaandúð og and-semitismi. Þeim hefur verið beitt sem skálkaskjóli til voðaverka, til að teflonhúða Ísraelsríki gegn gagnrýni og mótspyrnu. Þannig verður þeim áfram beitt, vegna þess að það er hægt. Að orðin séu notuð með þeim hætti breytir því ekki að and-semitismi er til. Það þurfti ekki annað til en sigur á fótboltamóti til að þjóðernissinnaðir öfga-hægrimenn fengju óvanalega mikið pláss á götum Þýskalands, veifandi fánunum sínum, ógnandi utanaðkomandi, og hrópandi, meðal annars, að nú skuli senda gyðingana aftur í gasklefana. Auðvitað er það fámennur hópur sem talar svona, og áhrifslaus um þessar mundir. Útbreiddari eru aðrar birtingarmyndir – og sumar þeirra finnast líka á Íslandi. Ég man vel eftir gyðingabröndurum sem gengu á Íslandi þegar ég var barn, og byggðu ýmist á hugmyndinni um nísku gyðinga, græðgi eða helförinni sem góðum brandara. Enginn þeirra sem sögðu þessa brandara leit á sig sem nasista. Ekki einu sinni fordómafullan, held ég. Kannski hefði enginn þeirra í reynd komið fram við gyðinga með öðrum hætti en fólk almennt. Frændur mínir. Fínir kallar. Að brandararnir voru and-semitískir er alveg dagljóst fyrir því.

Stundum er eins og fyrirbærið vondi kallinn sé fasti í höfðinu á fólki. Og nú þegar það er á vitorði flestra Íslendinga að Palestínumenn eru ekki ótíndir glæpamenn sem helst ættu að láta sig hverfa, þá virðast einhverjir álykta að Ísraelsmenn hljóti að vera það. Eitthvað í þá veru finnst mér birtast í myndbandi Snorra. Um leið gruna ég sjáflan mig um óþarfa viðkvæmni, og nálgast hann því tvístígandi. Kannski óþarflega tvístígandi. Ég náði sambandi við listamanninn gegnum Skype og spurði hann út í myndbandsverkið. Ég komst meðal annars að því að Snorri er býsna teflonhúðaður sjálfur.

„Ætla ekki að svara“

Ég byrjaði á að spyrja Snorra hverju hann myndi svara þeim sem saka hann um and-semitisma í þessu verki.

„Ég veit það ekki. Mér er alveg sama. Eg er ekkert að dansa kringum neitt. Ef einhver vill setja mig undir einhvern hatt hefur hann fullt leyfi til að gera það. Ég ætla ekkert að svara því.“

Hvað með mörkin milli gagnrýni á framferði ríkis annars vegar og háðs í garð menningar þess, íbúa, fólksins sjálfs hins vegar. Skipta þau máli?

„Ég átta mig svosem ekki beint á því. Við lesum auðvitað út úr hlutum eftir eigin reynslu, tungumáli og þroska, maður les þannig út úr hlutunum. Ég er áreiðanlega fullur af fordómum. Það er fullt af hlutum sem ég veit ekkert um . Margt sem ég þekki ekki. Ég er meira eins og barnið, að spyrja spurninga. Margra spurninga. Málið er það að ég fékk þessa hugmynd fyrir nokkrum árum. Bjó þá í Antwerpen, stærstu gyðingaborg Evrópu. Þetta hefur alltaf verið mér hugleikið, þetta ástand í Ísrael. Ég var barn þegar ég fékk áhuga á ástandinu í þesum heimshluta. Í dag er ég svolítið að brjóta upp mína eigin fordóma. Gríp mig kannski glóðvolgan við það að orða einhverja skoðun sem ég hef ekki verið með lengi. Þá hef ég í millitíðinni opnað huga minn og hjarta fyrir fleiru. Þú grípur mig glóðvolgan á þeim tímapunkt þegar ég er í mótþróa við ótta.“

Vinir Snorra hræddir um líf hans

„Ég er krónískur óþekktarangi,“ segir Snorri. „Maður þarf að vera óþekkur. Ég get ekki verið þægur mjög lengi. Ég vissi vel að ég var að fara inn á viðkvæmt svæði. Margir vina minna hafa verið hræddir um líf mitt þegar ég hef rætt þetta verk við þá. Málið er að aðferðin við að gera þetta er að þetta er gert í algjörri gleði. Það var mjög skemmtilegt að gera þetta verk. Það var mikið hlegið. Mér hefur alltaf þótt hugmyndin að þessu verki mjög fyndin, skemmtileg. Ef einhver vill merkja mig sem einhvern and-semitista eða nýnasista, þá veit ég bara betur og fólk verður einhvern veginn að eiga þær hugsanir fyrir sjálft sig.“

Ég átti ekki við að Snorri væri nýnasisti, segi ég. And-semitismi birtist víðar, á fleiri máta og fínlegri en sem hreinn og beinn nýnasismi.

„Það eru alltaf skoðanakúganir sem eiga sér stað. Fólk setur margt upp fyrir sér svart og hvítt. en þetta er ekki svart og hvítt. Það á við um allt. Það eru svo mörg lög. Ég á svo erfitt með að horfa á hlutina frá þeim sjónarhóli, að þetta sé svona eða svona. Auðvitað man maður eftir og þekkir af eigin reynslu að hafa hugsað svolítið svart og hvítt. Að hafa myndað sér skoðun með þeim hætti. Fólk hefur þörf til að afgreiða eða túlka, til þess að verða ekki hrætt. Það er það sem ég á við um fordóma, þörfina til að flokka eða túlka, að geta ekki verið opið. Að fólk getur ekki bara horft á hlutina án þess að dæma, án þess að flokka. Þetta er það sem það er. Hlutirnir eru það sem þeir eru. Listin er það sem hún er. Listin er til og hún verður til og hún verður aldrei propsuð. Sú myndlist sem höfðar til mín er ekki propsuð myndlist, sem er propsuð út frá lögum og reglum. Hún gerist þegar maður er tengdur, eins og manni séu afhent verkin.“

Ég geri ráð fyrir að Snorri eigi við það sem sumir kalla skreytilist, þegar hann talar um propsaða list, eitthvað í ætt við innihaldsrýra fegrun. Að hann vilji, þvert á móti, innihald. Ég nefni við Snorra, að þrátt fyrir óbeit hans á svart-hvítum hugmyndaheimi birtist skýrar andstæður í verkinu: þar beiti gyðingur og Bandaríkjamaður múslimakonu valdi. Hann játti því. En hafnaði beint í kjölfarið svo einföldum myndum:

„Maður getur ekkert alhæft heldur. Gyðingar eru ekki svona og múslimar eru ekki svona. Gyðingar eru allavega og múslimar eru allavega. Við erum allavega. Það er ekkert hægt að taka einn hóp og afgreiða: hann er svona. Að hafa þessa konu var líka þess konar ábending. Það þykir mjög sjálfsagt hjá mörgum að beita múslima misrétti. Ég þekki margar sögur og mörg vitni að því, að það er litið á Palestínumenn sem svo að það megi beita þá ofbeldi.“

„Þá ertu að gera lítið úr þeim, sko“

Þegar ég hlusta á orð Snorra, og les þau aftur að spjallinu loknu, hljómar hann eins og honum gangi ekkert til annað en draga úr fordómum. Fólk er fjölbreytt, ekki hægt að draga það í dilka og svo framvegis. Þegar ég horfi aftur á myndbandið passa orðin ekki við það sem ég sé: Að draga fram holdlegu hliðina á andlitum og ljótleika hins smáa með nærmyndum, er meðal þeirra skrumskælinga sem eru sögulegt aðalsmerki rasísks myndmáls. Mér líður eins og ein varta á nefið á Snorra hefði tekið af öll tvímæli um tilgang þeirrar myndbeitingar. En nærmyndin er einmitt af Snorra sjálfum – er ekki í góðu lagi með mannfyrirlitningu ef maður beinir henni líka að sjálfum sér? Snorri er hugsanlega snillingur í einhverju – ef til vill í því að sigla milli skers og báru slíkra spurninga. Hann svarar ekki fyrir hönd verksins heldur segist hafa fengið það „afhent“, fólk megi kalla það hvað sem er, það sé bara það sem það er. Eftir stendur spurningin: já, ókei, en hvað er það?

Mér þótti Snorri hafa sloppið komið sér undan spurningunni um gyðingaandúð sem ég losnaði þó ekki undan frammi fyrir verkinu hans. Ég leit yfir spurningalistann sem ég hafði rissað hjá mér og gleymdi þó að líta á í samtalinu. Þar var ein spurning sem ég átti eftir að spyrja. Synd og skömm, hugsaði ég. Hún hefði verið góð. Þá hafði Snorri samband til að bæta því við að vinunum sem hefðu óttast um líf hans hafi snúist hugur þegar þeir sáu myndbandið. Myndbandið sé of skemmtilegt til að óttast slíkt. Ég skrifaði til baka og spurði hvort hann væri til í eina spurningu enn. Sjálfsagt, sagði hann. Ég hringdi og sagðist muna eftir myndbandinu sem hann gerði fyrir nokkrum árum síðan, um „skinkur“ og „hnakka“, þar sem nokkrir leikarar voru með downs-heilkenni.

Úr gjörningnum Hnakkar og skinkur. Mynd: snorriasmundsson.com

Úr gjörningnum Hnakkar og skinkur. Mynd: snorriasmundsson.com

„Já, einmitt, einn af þeim er aftur þarna.“

Já og þeir eru tveir í verkinu með downs-heilkenni er það ekki?

„Jú.“

Og báðir klæddir sem hasidískir gyðingar?

„Já.“

Og nú, ef ég skil rétt hvernig þú virkar í þessu verki, þá seturðu upp þá stöðu að mig langar að spyrja hvort þú sért að gera lítið úr gyðingum með þessu, en ef ég spyr þig að því hljómar það eins og ég sé að gera lítið úr fólki með downs-heilkenni.

„Það er heila málið. Það er einmitt heila málið,“ svaraði Snorri og hló.

Þú gengst semsagt við því, að það sé trixið þitt þarna?

„Ég vinn svolítið eftir, jú, ég er svolítið að trufla sko. Ég bjóst við þessari spurningu. Átti von á henni. En þú svaraðir eiginlega spurningunni fyrir mig með því að segja þetta. Þá ertu að gera lítið úr þeim, sko. Ég vissi það alveg fyrirfram að ég væri að bera einmitt þetta á borð.“ Ég þakka fyrir viðtalið og við kveðjumst.

Liðkað til fyrir skammhlaupum

Ég man eftir því þegar ég var barn, að útsendari Simon Wiesenthal stofnunarinnar átti erindi við Ísland, vegna nasistaböðuls sem hann sagði búa á landinu. Mér sýndist fólki upp til hópa þykja þetta í hæsta máta ókurteist, að elta ólar við gamlar syndir SS-liða, áratugum síðar, maðurinn ekki bara orðinn gamall heldur vel liðinn, hvers manns hugljúfi. Sonur hans einn af bestu fótboltamönnum landsins. Ég man eftir því viðhorfi að eiginlega væru allar ávirðingar um and-semitisma ósanngjarnar, jafnvel eins konar sjúkleg vænisýki. Og ég finn þetta naga mig: er ég bara að eltast við einhverja vitleysu? Er óþörf vænisýki að færa það í orð að listamaður gangist við gyðingaandúð í verki sínu, eða að færa það í orð að hugsanlega einkennist þetta sama verk af gyðingaandúð? Er það endilega gyðingaandúð, þó að verkið snúist um að gera grín að gyðingum? Og hvað með það? Má ekki grínast? Má ekki hafa andúð á fólki? Er það ekki stjórnlaus vandlætingarfýsn, óviðráðanleg umvöndunargleði, að færa þetta í orð, að:

Eftir útúrsnúninga í fyrri hluta viðtalsins gekkst Snorri að lokum opinskátt við því að hafa, í verki sínu við lagið Hatikvah, lagt sig fram um að gera lítið úr gyðingum með þeim hætti sem væri erfiðast fyrir aðra að festa fingur á, og beitt til þess fólki með downs-heilkenni fyrir sig, sem eins konar siðferðilegum mannlegum skildi, teflon-húð á hugsanlega gagnrýni.

Einmitt þegar skýr fordæming og afdráttarlaus andstaða gegn framferði ríkis er brýn, dauðans alvara, er líka til staðar hættan á skammhlaupum milli þeirrar mótspyrnu og heimskulegra fordóma. Af þeim getur orðið mikið tjón. Í þessu verki Snorra sé ég, því miður, bara hvatt til slíkra skammhlaupa, óháð því hvort verkið var „afhent“ listamanninum eða sett saman af honum.