Ljósmynd úr sýningunni í Gallerí Úthverfu. Mynd: claudiahausfeld.com

Andi rýmis og orka steina

Frá sýningunni í Gallerí Úthverfu.

Frá sýningunni í Gallerí Úthverfu.

Vissulega er það í auga sjáandans að nema helgidóma gamalkunnugs rýmis, anda sem liggur í loftinu og hefur þannig áhrif á það sem í því fer fram. Sú tilfinning vaknaði á sýningu Claudiu Hausfeld í Gallerí Úthverfu á Ísafirði að maður væri genginn inn í helgidóm, látlausan og fábrotinn, bænastúku í Kyoto eða Þingvallakirkju, enda þetta nýtilkomna gallerí aðeins umhverfing á hinu gamla Slunkaríki sem löngum var útvörður samtímasjónlista hér vestra. En það var ekki bara saga rýmisins heldur sú saga sem sýningin The Stone is God without knowing it, but it is the not knowing that makes it a stone segir okkur á látlausan en áhrifaríkan hátt. Undirritaður óttast að vísu að einhverjir kunni að meta verkið út frá gluggainnliti ellegar rýni í verkið á heimasíðu listakonunnar en hvorugt gerir verkinu skil á nokkurn hátt. Það er nefnilega ekki bara andi rýmisins heldur og verksins sem upplifunar sem kallast á við innihalds- og fagurfræðilega þætti þeirra verka sem fluttu Ísfirðingum ilminn af samtímanum á upphafsárum Slunkaríkis (níunda áratugnum). Verkið kallast á einhvern furðulegan hátt á við svart-hvítar ljósmyndir Sigurðar Guðmundssonar (sagan í eyrunum kemur í stað listamannsins á myndinni) en einnig seinni tíma hugmyndir hans um t.a.m. fágaða eða slípaða steina, fullkomna steina. Um leið og maður er einhvernveginn í fyrstu að leita að „náttúrulegu listinni“ jafnvel landslagslist, á ljósmyndunum þá er það sagan sjálf „af þessum atburði“ sem leiðir verkið. Það er, textinn sem lesinn er í heyrnartólunum vekur upp tengsl við doc-list, rannsóknar- og heimildalistsköpun, sem síðan nær að halda hinni nauðsynlegu spennu „undrunar og uppgötvunar“ sem nýlistirnar voru að mörgu leyti þekktar fyrir. En verkið er ekki bara undrunarvaki, slíkt varir stutt, og þegar vangaveltan um tæknilega hlið ljósmyndanna víkur heldur maður áfram að skoða – og hlusta. Verkið er íhugunarvaki.

Látlaus íhugun um ágengan ósýnileik

Það liggur í eðli sköpunarinnar, hvaða listgrein sem um er rætt, að hún er háð innblæstri og úrvinnslu hugmynda. Sjálfur hef ég alltaf verið áhugamaður um hvaðan innblásturinn kemur, þar af leiðandi einnig um það sem kalla mætti andlegan þátt listsköpunar og þá enn í framhaldinu það listafólk sem vinnur með þessi mörk. Þessi andlegi þáttur hefur löngum verið yrkisefni listverkafólks, enda listin í eðli sínu tilraunir til að túlka eða tjá einhverskonar andlegan veruleika. Samleið listanna og mýtólógíu, goðsagna og trúarbragða, hefur verið frá upphafi vega rauður þráður í listasögunni. Sumir vilja og meina að listin sjálf, eftir að listgreinarnar rifu sig úr þjónustu t.a.m. trúarstofnana, sé í dag vettvangur hinnar andlegu iðju mannanna. Verk Claudiu lýsir andlegri upplifun, innblæstri, nánast trúarlegri hugljómun sem á máli guðfræðinnar væri kallað epiphania. Hið sjónræna og hið textalega vefur samt sem áður fyrst og síðast vefnað sem leiðir hugann að dulmagni náttúrunnar – að þegar náttúran er „náttúruleg“ þá sé hún í eðli sínu fullkomin – natura naturans allrar íhugunar. Að guðdómleg viska búi í eðli náttúrunnar; að ósnertur skapnaðurinn birti inntak skapara síns. Og þá er það spurning íhugunarinnar: Hvað segir það okkur að steinninn sé Guð, í verki Claudiu Hausfeld?

Zen og the not of knowing

Listin í samhengi austrænnar heimspeki er að einhverju leyti „hreinn verknaður“ eða hindrunarlaus tjáning visku. Slík heimspeki hafði mikil áhrif á sjónlistirnar á áttunda áratugnum og hefur alla tíð síðan verið viðloðandi inntak, kjarni verks og stílhrein framsetning er mælikvarði, hversdagsleg undrun er leit að látlausri dýrð. „Hrein hugsun“ er samt ekki mælikvarði til að meta myndlist eða setja fagurfræðilegan standard; hugsunin verður að vera spennandi, frumleg, íhugunarvaki. Steinar eru í raun ekki frumlegur efniviður, en nálgun Claudiu í verkinu – sem vaknar jú af titli sýningarinnar – vekur mér þá hugsun að allir steinar séu meira en steinar eftir að maður hefur upplifað hið trúarlega eða mystíska samband við einn stein. Eða Hinn Eina Stein, ef maður vill setja það í slíkt samhengi.

Apophatisk guðfræði er mikilsverður snertiflötur austrænnar heimspeki og kristinnar trúarhugsunar, en hana verður vissulega að taka inn í túlkun á verki sem þessu, að mínu mati. Skringisögur af afstæðishugmyndum zen-iðkenda, rétt eins og gyðinglegar sögur af útúrsnúningum Rabbína fyrir lærisveinum sínum og íhugun via negativa í kaþólskri hefð byggja allar á hugmyndum um að maðurinn „tæmi sjálfan sig hugsun“ ef svo má segja – og að þannig sé hreinu sambandi komið á milli Guðs/Tao/Sköpunarinnar og hins skapaða. Iðkandinn getur þá upplifað það samband. Það er markmið iðkunar hans og til þess að ná því markmiði eru ólíkar leiðir ólíkra trúarbragða. Það er samband sem er ekki endilega byggt á þekkingu, heldur reynslu eða tilfinningu.

Steinn sem er tæmdur sjálfum sér er ekki steinn

Verk Claudiu fjallar um reynslu af einhverju sem er raunverulegt (án þess að vera viðfang þekkingar eða áþreifanlegt) og samsvarar því vitnisburði margra um trúarlegar upplifanir, hvort sem um er að ræða í farvegi íhugunar eða hugljómunar/vitrunar (epíphaníu), algyðis eða eingyðis. Og hún sýnir okkur stein sem á táknmáli guðfræðinnar gæti verið hinn kenótíski Kristur þ.e.a.s. sá Guð sem er tæmdur sjálfum sér og „deyr“ en er um leið forsenda og frummynd „hins upprisna Krists“. Rýni í verk Claudiu með slíku táknmáli vísar ef til vill í átt að lestri sem listakonan sjálf hafði ekki í hyggju að kalla eftir. Hin sterku tákn steinninn og náttúran hefðu kannski átt að halda „kristnum lestri“ utan við rammann, þar sem það eitt að skrifa Guð með stórum staf réttlætir ekki heimfærslu yfir í kristinn trúararf. Hinn kenótíski Kristur er aftur á móti tákn fyrir Guð sem er ekki lengur Guð heldur maður sem deyr á krossi, maður eins og allir menn, tákn fyrir snertiflöt manns og Guðs. Og það er á þessum sama stað, þar sem að við tæmumst af eigin hugsun eða vilja – í innblæstri eða epíphaníu – þar sem við verðum vör við nærveru þess sem skapaði okkur. Einhvers annars sem stjórnar hugsun okkar. Við fáum eitthvað á tilfinninguna án þess að vita hvers vegna; nú t.d. að allt sé eins og það á að vera. Um það fjallar verk Claudiu Hausfeld – og þess vegna skilur hún steininn eftir á sínum stað í fjörunni eftir að hafa fangað anda hans í verkinu. Fyrir mér verður inntak verksins í guðfræðilegum búningi einfalt, hreinn verknaður, heil hugsun og þó þið komist ekki í Gallerí Úthverfu, Gamla Slunkaríkið á Ísafirði þá ætti hver og einn að geta gengið niður að strönd hvenær sem er og fundið hann, þennan stein sem hefur gert alla steina að meiru en steinum – þennan mann sem hefur gert alla menn að meiru en mönnum – eða líkt og zenið segir: Að vita ekki gerir manninn að því sem hann er. Eitt með öllu.