Þegar líða tók á 19. öld voru margir höfundar farnir að skrifa gotneskar sögur og útfæra stefnuna enn frekar; höfundar á borð við Edgar Allan Poe, Robert L. Stevenson, Mary Shelley og síðar Bram Stoker. Í Frankenstein eða hinum nýja Prómoþeusi eftir Mary Shelley, sem kom út árið 1818, rennur vísindaskáldsagan saman við þá gotnesku, og hefur m.a. rithöfundurinn Brian Aldiss haldið því fram að sú saga sé fyrsta vísindaskáldsagan, þó að finna megi verk allt frá 2. öld eftir Krist sem innihalda einkenni vísindaskáldskapar.2 Síðar, með tilkomu nýrra uppfinninga og framfara í vísindum, skrifuðu H. G. Wells og Jules Verne vísindaskáldsögur og færðu það form nær því sem við þekkjum í dag. Wells skrifaði m.a. með George MacDonald, skoskum höfundi sem skrifaði einkum fantasíur og er talinn einn af forvígismönnum slíkra bókmennta og sagður hafa haft mikil áhrif á J.R.R. Tolkien og C.S. Lewis.
Fantasíur, vísindaskáldsögur og hrollvekjur áttu það helst sameiginlegt að vera í andstöðu við hina raunsæislegu skáldsögu, og í þeim sögum gerðist eitthvað framandi sem var ekki hægt að útskýra með þekktum vísindalegum aðferðum þess tíma, sbr. framvindu hinnar þekktu Leyndardómar Snæfellsjökuls eða Ferðin að miðju jarðar eftir Jules Verne.
Úr þessum frjóa jarðvegi spruttu furðusögur eins og við þekkjum þær í dag. H.P. Lovecraft, Robert E. Howard, Clark Ashton-Smith og Henry Whitehead mynduðu hinn upprunalega Lovecraft-hring, sem hafði síðar svo afdrifarík áhrif á furðusöguna. Sögur þeirra, sem voru að mestu leyti smásögur og nóvellur, birtust á síðum svokallaðra pulp-tímaríta á borð við Weird Tales og Wonder Stories. Þó nokkrir rithöfundar lásu þessar sögur og héldu áfram að þróa furðusöguna, t.d. Robert Bloch og Fritz Lieber. Furðusagan varð þannig til í höndum þessara rithöfunda, í skrifum þeirra fyrir áðurnefnd tímarit, þar sem mættist hið framandlega og fantastíska, áþreifanlegur og yfirskilvitlegur hryllingur, sem og vísindaleg sýn. Hið nýja mætti hinu forna svo úr varð eins konar bræðingur fantasíu, hrollvekju og vísindaskáldskapar. Líklega má hvergi sjá þessa jafn skýr merki og í nóvellunni Við hugarfársins fjöll eftir H. P. Lovecraft.
Hér heima fór framan af ekki mikið fyrir furðusögum. Valdimar Ásmundsson þýddi stórverk Stokers, Dracula, og birtist sú þýðing í upphafi 20. aldar undir titlinum Makt myrkranna sem neðanmálssaga í hálfsmánaðarlega ritinu Fjallkonunni. Fleiri sögur birtust þannig, m.a. Tímavélin eftir H. G. Wells, en sú þýðing var birt 22 árum síðar en Makt myrkranna. Þórbergur Þórðarson þýddi nokkrar sögur Poes ásamt því að skrifa sjálfur nokkrar smásögur í svipuðum stíl, t.d. Morð – Morð! Jules Verne birtist fyrst á íslensku árið 1906 þegar sagan Í kringum jörðina á 80 dögum var þýdd og Dularfulla eyjan kom út 7 árum síðar.
Af íslenskum furðusögum er lítið að segja fram á 9. áratug síðustu aldar og má segja að útgáfa slíkra geirabókmennta hafi verið í skötulíki framan af 20. öld. Það voru aðallega kvenkyns höfundar sem tóku fantasíuna upp á sína arma og skrifuðu slíkar sögur fyrir börn, helsta ber að nefna Iðunni Steinsdóttur. Hins vegar, ef vel er að gáð, má finna ýmsar bækur sem innihalda eiginleika furðusagna en hafa ekki verið kynntar eða skoðaðar mikið í því ljósi, t.d. Vikivaki eftir Gunnar Gunnarsson. Jafnvel höfum við nærtæk dæmi um slíkar sögur, t.d. Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem vel má flokka til hryllingssagna, en var markaðssett sem sálfræðilegur spennutryllir. Eins mætti flokka sum skáldverka Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem furðusögur, þá einkum Yosoy og Allt með kossi vekur, eða að minnsta kosti segja að þær innihaldi ákveðna eiginleika þeirra.
Critics are ever more clearly aware that a lot of literature is happening outside the sacred groves of modernist realism. But still the opposition of literature and genre is maintained; and as long as it is, false categorical value judgment will cling to it, with the false dichotomy of virtuous pleasure and guilty pleasure.
Eins og Le Guin bendir á, eru sífellt fleiri að átta sig á þeirri sköpun, því hugmyndaflugi og þeim skáldskap sem gerast utan við sjóndeildarhring borgaralegra raunsæisbókmennta, sköpun sem engu minni vinna er lögð í. Á það jafnt við hérlendis, sem annars staðar. Og það sem er enn gleðilegra, sífellt fleiri lesendur eru að uppgötva furðusöguna og aðrar geirabókmenntir. Okkur nægir að horfa til velgengni Harry Potters og Twilight-bókaflokkanna. Hringadróttinssaga og Narníu-sögurnar hafa verið kvikmyndaðar. Við sjáum það einnig í ríkulegri útgáfu undanfarinna ára hérlendis á titlum sem flokka má sem furðusögur.
Af íslenskum furðum
Íslenska furðusagan er því ekki gamalt fyrirbæri og með sanni mætti segja að hún sé að slíta barnskónum. Framan af 20. öld voru vissulega gerðar ýmsar tilraunir, t.d. skrifaði Kristmann Guðmundsson tvær vísindaskáldsögur undir dulnefninu Ingi Vítalín, fjölmargir höfundar (s.s. Þórir Bergsson og Ásta Sigurðardóttir) döðruðu við hrollvekjur en fáir lögðu í að skrifa íslenska fantasíu, a.m.k. ekki fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar. Það sem er kannski enn áhugaverðara við þá bókmenntagrein er að merki hennar voru í upphafi, rétt eins og með gotnesku skáldsöguna erlendis, borin uppi af kvenkyns rithöfundum, eins og áður segir. Ólíkt Radcliff, Shelley og Brontë systrum þá skrifuðu Iðunn Heiður Baldursdóttir, Herdís Egilsdóttir og Ragnheiður Gestsdóttir einkum fyrir yngri lesendur. Vissulega lögðu karlkyns rithöfundar sitt til íslensku fantasíunnar en þróun þessarar bókmenntagreinar var að miklu leyti í höndum kvenna.
Á nýju árþúsundi virðist íslenska furðusagan hafa öðlast nýtt líf og þá sérstaklega í meðförum karlkynshöfunda. Fram hafa komið höfundar sem hafa lagt það fyrir sig að skrifa slíkar bókmenntir og margir hverjir með góðum árangri. Hrollvekjan Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttir seldist afar vel á sínum tíma og virtist það auka trú útgefenda á því að hægt væri að gefa út furðusögur fyrir fullorðna. Ári síðar kom út Hálendið eftir Steinar Braga, sem fékk einnig prýðisgóðar viðtökur og hafa fleiri hrollvekjur fylgt í kjölfarið. Þá hefur forlagið Bókabeitan gefið út ágætar hryllingssögur fyrir unglinga, undir heitinu Rökkurhæðir, en þær hafa notið þó nokkurrar hylli meðal unglinga.
Örfáar íslenskar vísindaskáldsögur hafa nýverið verið gefnar út, Orrustan um Fold eftir Davíð Þór Jónsson kom út á vegum Tinds og Hvítir múrar borgarinnar eftir Einar Leif Nielsen hjá Rúnatý. Fyrir síðustu jól kom út dystópían Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur og fékk hún góðar viðtökur.
Af íslenskum furðusögum virðast fantasíur einna algengastar. Helstar ber að nefna Hrafnsauga eftir þá Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, sem fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 2012, en þar er um að ræða hefðbundna fantasíu í anda Wheel of Time bókaflokks Roberts Jordans og Narníu-bóka C.S. Lewis, en framhald Hrafnsauga, Draumsverð, kom út fyrir síðustu jól og fékk einnig ágæta dóma. Ári áður hafði bókin Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson komið út hjá Sögum, en segja má að sú saga sé á mörkum þess að vera „dark fantasy“, og gildir hið sama um síðari sögur Elís, Ógnarmána og Kallið. Þá er einnig hægt að tína til bókaflokkinn Sögu eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen, en fyrsta bókin í þeim bókaflokki hefur m.a. verið kennd í menntaskólum. Síðasta en ekki sísta langar mig að nefna Tímakistuna eftir Andra Snæ en hann hefur í flestum sögum sínum leikið sér með eðlisþætti furðusögunnar, t.d. Lovestar.
Þá hafa fleiri lagt sitt af mörkum til fantasíugeirans, t.d. Gunnar Smári Eggertsson, Hildur Knútsdóttir, Sigrún Eldjárn og Þorvaldur Þorsteinsson. Það sem háir þó þessum geira er að flestar bókanna eru ýmist skrifaðar fyrir börn eða unglinga. Ekki er hefð fyrir því hérlendis að flokka fantasíur sem bækur fyrir eldri lesendur, en erlendis (og þá sérstaklega meðal enskumælandi lesenda) er mun meira skrifað af fantasíum fyrir þann markhóp og hafa einhverjir íslenskir höfundar brugðið á það ráð að skrifa á ensku, t.d. fékk Snorri Kristjánsson útgefna víkingafantasíuna Swords of Good Men á síðasta ári hjá Jo Fletcher Books á Englandi.
Þá hafa fjölmargar sögur komið út þar sem daðrað hefur verið við furðusöguna eða unnið með ólíka þætti hennar. Í tryllinum Skipið vísar Stefán Máni í Cthulhu-óvætti H.P. Lovecrafts, Sjón leikur sér með hið furðulega í Mánasteini, í Unu dansar Óttar Norðfjörð á línunni milli hrollvekju og draugasögu og áður hefur verið bent á verk Guðrúnar Evu. Hið sama mætti segja um fjölmargar aðrar bækur og hafi lesendur á annað borð gaman af furðusögum ættu þeir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Á hvaða bar halda íslenskar vampýrur sig?
Þó að íslenskar furðusögur séu um margt ágætar þá bera þær samt enn þess merki að vera að slíta barnskónum. Margar þeirra eru sjálfútgefnar og/eða gefnar út af minni forlögum þar sem ekki er endilega að finna sömu gæði í ritstjórn eða yfirlestri. Einnig má gagnrýna stærri forlögin fyrir ritstjórn á mörgum furðusögum, en hugsanlega má rekja það til þess að ritstjórar sem kunna góð skil á þessum geirabókmenntum finnast ekki í hverri blokk í Breiðholti.
Því hafa íslenskir furðusagnahöfundar unnið með flest af þekktari formum og efnistökum furðusagna. Stefán Máni skrifaði varúlfasöguna Úlfshjarta, æsir norrænna goðafræði eiga sinn sess, innrás óþekktra vætta er á sínum stað, aðalpersónan sem er á jaðri samfélagsins eða þekkir ekki foreldra sína er auðfundin og svo mætti lengi telja. Rétt eins og við gerum kröfur til höfunda að þeir falli ekki í gildrur klisja og formaðs tungutaks, þá geta ákveðin efnistök virkað klisjukennd og þreytt. Það sem kemur hins vegar á óvart er að hingað til hafa ekki margir reynt við vampýrusögur, í raun er það aðeins Villi vampíra eftir Helga Jónsson. Kannski þarf það ekki að vera svo undarlegt, hætt er við að íslensk vampýra hefði lítið að gera á sumrin annað en að liggja í kistu sinni og bíða vetrar, auk þess sem erfitt gæti reynst fyrir vampýru að leynast á Bíldudal.
Þrátt fyrir þessa ágalla, sem ég vil meina að séu fyrst og fremst eins konar vaxtaverkir, þá hefur íslenska furðusagan verið vakin og henni komið á fætur, sem er afar jákvætt. Hún vex og verður áhugaverðari með hverri sögu sem kemur út. Sífellt fleiri eiga eftir að hafa áhrif á hana, ungir höfundar sem hafa verið að birta smásögur eða brot af skáldsögum hér og þar en vekja í senn áhuga og eftirvæntingu. Höfundar á borð við Alexander Dan Vilhjálmsson, Jóhann Þórsson og Rúnar Thor, einstaklingar sem munu geta litið til íslenskra furðusagnahöfunda í stað þeirra erlendu.
Slímugir bautasteinar stafrænna tíma
Í fyrsta tölublaði Furðusagna, og því eina hingað til, í ritstjórn þeirra Alexanders Dans Vilhjálmssonar og Hildar Knútsdóttur, segir í ávarpi ritstjóra:
Ég vona að með þessu tímariti finnir þú eitthvað sem vekur upp duldar kenndir sem leynast í dýpstu fylgsnum hugans. Að okkur takist að færa þér eitthvað einstakt, eitthvað nýstárlegt. Þetta tölublað er fyrsta skrefið í nýja átt, þar sem kynlegir vindar blása og á næturhimni sjást ókunnar stjörnur.
Tímaritið var gefið út í anda pulp-blaðanna sem komu út í Bandaríkjunum við árdaga furðusögunnar og vísar nafn Furðusagna til þess tímarits sem var hvað duglegast að birta slíkar sögur, Weird Tales. Þó svo að Furðusögur hafi ekki endilega verið fyrst til að gefa út íslenskar sögur undir þessu geiraheiti, en t.d. kom áður út fyrsta bókin í Sögu eftirlifenda þá tel ég að tímaritið hafi verið ákveðinn bautasteinn í útgáfu slíkra bókmennta hérlendis, óevklíðskur, rúnum ristur og slímugur bautasteinn en ákaflega merkilegur engu að síður. Því tímaritið, ásamt sögu Emils, virkaði sem eins konar vakning fyrir marga og dró ekki aðeins fram í dagsljósið skrif óþekktra höfunda, heldur sýndi svart á hvítu að bæði var áhugi á svona bókmenntum og að íslenskan náði að einhverju leyti utan um tungutak og orðaforða furðusagna, þó að vissulega mætti sjá, og má enn sjá í nýrri sögum, nokkur áhrif úr ensku, eins og áður segir.
Fyrir daga tímaritsins höfðu furðusögur lítið náð upp á yfirborðið hérlendis, nema þá í þýðingum erlendra bókmennta, með fáum undantekningum, t.d. kom bókin Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út snemma á þessari öld. Geirabókmenntir mættu oft ákveðinni andstöðu hérlendis og virðist svo hafa verið allt frá upphafi, m.a. má finna eftirfarandi gagnrýni Benedikts Björnssonar á þýðingu Valdimars Ásmundssonar á Dracula í grein sem birtist í Skírni árið 19063:
Fjallkonan flutti ýmislegt rusl og meðal annars langa sögu, „Makt myrkranna“. Hefði sú saga gjarna mátt eiga sig, og ég get ekki séð, að slíkur þvættingur hafi auðgað bókmenntir vorar.
Væri gaman að heyra hvaða skoðun Björn hefði haft á framtaki þeirra Alexanders og Hildar.
Furðusögur hafa oft á tíðum verið settar í flokk með afþreyingarefni. Þá hefur verið allt að áþreifanlegur munur á milli þeirra bókmennta sem hafa verið taldar þóknanlegar og þeirra sem eru minna svo, t.d. hafa furðusögur oft verið flokkaðar sem bækur fyrir unglinga, prentgripirnir sjálfir ekki jafn vandlega unnir og, eins og áður kom fram, er ritstjórn og yfirlestri oft ábótavant. Slíkt mótar að sjálfsögðu aðkomu lesenda að verkum. Eins getur afstaða gagnrýnenda, starfsfólks bókaverslana og annarra lesenda haft mótandi áhrif. Einhverjir kannast kannski við að lesa eitthvað sem þeir hafa áhyggjur af að hljóti ekki náð fyrir augum annarra? Bækur og sögur sem seljast eins og frostpinni á heitum degi en margir vilja helst ekki viðurkenna að þeir hafi lesið, bækur á borð við 50 gráa skugga. Um þetta skrifar Le Guin:
Le Guin tekur vissulega sterkt til orða og óhætt er að segja að gríðarlega mörg skáldverk standi á mörkum furðusagna og raunsæis og hvernig á að flokka þau? Hvar standa þau? Skáldverk á borð við Vikivaka eftir Gunnar Gunnarsson og Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur. Ekki verður leitast við að svara öllum þeim spurningum sem kunna að rísa hvað slíka flokkanir varðar. Það sem skiptir þó helstu máli er að líta á furðusögur sem fullgilda bókmenntagrein og gera sömu kröfur til hennar og gerðar eru til annarra bókmennta.If we thought of all fictional genres as literature, we’d be done with the time-wasting, ill-natured diatribes and sneers against popular novelists who don’t write by the rules of realism, the banning of imaginative writing from MFA writing courses, the failure of so many English teachers to teach what people actually read, and the endless, silly apologising for actually reading it.
Ég ímynda mér að ritstjórar Furðusagna hafi staðið í sömu sporum og Horace Walpole og rithöfundar Lovecraft-hringsins fyrir svo mörgum árum, með hið sama að markmiði, að tengja saman nýja strauma og gamla, svo leið lesenda liggi inn á áður ókannaðar lendur ímyndunaraflsins. Rétt eins og íslenskir furðusagnahöfundar þurfa að takast á við í skáldskap sínum.
Við stöndum við upphaf nýrrar aldar og skáldskapur er öllum opinn, við getum leyft okkur að skrifa og gefa sjálf út það sem okkur lystir án mikilla fjárhagslegra skuldbindinga, eða eins og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir segir í grein sinni Kynlífsspunar kvenna og 50 gráir skuggar:
Bókaútgáfu hefur hingað til verið stjórnað af afmörkuðum hóp menningarvita og bókaforlaga. Við stöndum nú við upphaf nýrrar aldar þar sem skáldskapurinn stendur okkur öllum galopinn. Rafbókavæðingin og veraldarvefurinn gefa hverjum sem svo kýs tækifæri til að gefa út sínar eigin sögur, sínar eigin bækur.
Að hugsa inn í ný form
Í fölri birtu tölvuskjássins birtist okkur ljós nýrrar aldar. Á þessari netvæddu öld, leita ólíkar kynslóðir lesenda ekki að bókum, heldur finna bækur lesendur sína, m.a. í gegnum samfélagsmiðla, blogg og spjallsíður, á borð við Goodreads.com og Druslubækur og doðranta. Þessir lesendur stýra því hvar, hvenær og hvernig þeir lesa bækur, þeir láta ekki endilega forlög binda sig við óumhverfisvæn form fyrri tíma, heldur taka valdið í sínar hendur, því valdið er þeirra. Lesendur eru ekki lengur passívir meðtakendur hugarheims rithöfundar, eins og Brynhildur bendir réttilega á í grein sinni, heldur gefst þeim færi á að umbreyta verkunum, bæta við þau, laga til eftir sínu höfði og, það sem skiptir kannski mestu máli, komið sköpun sinni á framfæri við aðra svipað þenkjandi lesendur. Þannig tel ég að rafbókavæðingin eigi eftir að bjóða enn frekar upp á hvers kyns hermisögur eða aðdáendaspuna og munum við jafnvel fá að sjá í náinni framtíð einhvers konar bókamix, rétt eins og við höfum séð gerast í tónlistinni, þar sem hið nýja mætir því gamla. Því hvað er sagan Hroki og hleypidómar og uppvakningar eftir Jane Austen og Seth Grahame-Smith annað en nokkurs konar bókamix? Munu kannski Indriði og Sigríður þurfa að fást við vampýruna Gróu á Leiti í slíku bókamixi?
Hver veit, kannski fáum við að lesa annars konar nálgun íslenskra furðusagnahöfunda í framtíðinni. Munum við þá hugsanlega fá að sjá Sölku Völku í hlutverki djöflabana þegar fram líða stundir og bækur Laxness eru ekki lengur varðar af höfundarétti? Verður Grímur Elliðagrímur að guðlausum einfara mitt í heimi uppvakninga og náæta? Mun Ólafur ljósvíkingur umbreytast í ofurhetju sem berst við kapítalíska fauta og fúlmenni sem hann vegur með galdravopninu Maístjörnunni? Höfum við kannski nú þegar fengið að sjá svona nálgun í Lovestar?
Uppgangur furðusögu 21. aldar á Íslandi hefur haldist nokkurn veginn í hendur við framrás rafbókarinnar og mikilvægt að við, furðusagnahöfundar og -aðdáendur, fylgjum því eftir, höfum augun opin fyrir þeim möguleikum sem stafrænt form býður upp á. Festum okkur ekki eingöngu við skáldsögur, notfærum okkur að geta boðið upp á annars konar form furðusagna í stafrænu formi. Látum ekki forlög og útgáfur girða okkur af innan múra hefða, hagkvæmnis eða excelskjala, færum okkur nær lesandanum og gefum af okkur. Það ætti að vera markmið okkar, rétt eins og Walpoles, Lovecrafts og þeirra Alexanders og Hildar, að draga saman það gamla og hið nýja, þannig að úr verði eitthvað einstakt, eitthvað nýtt, framandi og spennandi.
________________________________________
1. Punter, David, (2004), The Gothic, London: Wiley-Blackwell. bls. 178 ↩
2. Aldiss, Brian W., (2005), On the Origin of Species: Mary Shelley. Speculations on Speculation: Theories of Science Fiction, ritstj. James Gunn and Matthew Candelaria. Lanham, Maryland: Scarecrow. ↩
3. Ásgeir Jónsson, (2011), Makt myrkranna, Bókafélagið, Reykjavík, bls. 221 ↩