Að yrða og innbyrða

Um Neindarkennd eftir Björk Þorgrímsdóttur

Fyrir nokkru var mér sagt að eiginlega merki orðið trauma tóm eða gat sem engin leið er að fylla upp í.

Líkt og titill ljóðabókarinnar Neindarkennd eftir Björk Þorgrímsdóttur gefur til kynna fjallar verkið meðal annars um tilfinningu fyrir tóminu eða öllu heldur um hið óyrðanlega. En í bókinni lýsir höfundur því hvernig formgerð tungumálsins endurspeglar formgerð samfélagsins. Hér birtast okkur gerandi og þolandi, þar sem gerandinn er einnig sá sem hefur skilgreiningavaldið á raunveruleikanum.

Hann er skapalón.
Sníðir sér sjónarhorn

Þannig vekja ljóðin upp spurningar um vald og valdleysi í samhengi við það að eiga eða eiga ekki rödd.

Ég yrði hvergi
Hliðrast víða.

Neindarkennd er að því sem ég best veit fyrsta ljóðabók höfundar en hún hefur áður gefið út bók með prósum undir titlinum Bananasól. Í Neindarkennd nýtir höfundur sér aðferðir konkretljóðlistar, hljóðljóða og myndljóða. Þannig ýtir sjónræn framsetning, hljómfall, orðaleikir o.s.frv. undir merkingu textans og býr jafnframt til nýjar merkingar. Þessar afleiddu merkingar sem finnast ekki í textanum sem slíkum verða að tilfinningu fyrir hinu óyrðanlega og ríma við kenningar Juliu Kristevu um hið semíótíska eða merkingu sem er ekki handan heldur undanfari orða.

Ljóðmælandinn rennur saman við efnisheiminn og virðist vilja hverfa aftur fyrir máltöku, áður en aðgreining hefur orðið og bókstaflega skila ég-inu.

SjónarHorn:
égið er á þessum bíl. því égið er Að fara. að keyra burt.
égið iNN í fjallið. í mérinu Hvíslast sefið á við húðinA. runNi festist í lungum.æðisviNdur í Höfðinu. óttaslegnir fiskar í æðakerfinu sem vitA af dauðaNum. égið ætlar að klífa fjallið að inNan.

Baráttan við að eiga sér orð og þar með veruleika er áberandi í bókinni og lýsir höfundur því sem líkamlegum átökum.

égið ælir þagnarbindum.
Úfurinn drukknar.

Neindarkennd er magnað og margslungið verk. Björk hefur gott vald á forminu og vinnur vel með hljóðræna eiginleika tungumálsins. Mér fannst mikilvægt að lesa þessa bók sem heild frá upphafi til enda þar sem hún lýsir ákveðnu ferli. Meðgönguljóð eiga hrós skilið fyrir útgáfuna en hér hefði samt mátt vanda betur uppsetningu og forsíðuna sem er ekki aðlaðandi.

Í Neindarkennd kallast hið upprunalega áfall (trauma/tóm) aðgreiningarinnar sem verður til við máltöku á við önnur möguleg áföll. En kristallar laufgast og skáldamál eru holufyllingar.