Að vera dansinn sjálfur

- Umfjöllun um dansverkin EMOTIONAL og MEADOW

Það var táknrænt að meira en helmingur dansarana hafi setið eins og áhorfendur í seinni hluta verksins Emotional og fylgst með sólói Brian Gerke þar sem hann afhjúpar sig gjörsamlega. Þetta sama kvöld var Brian einmitt að frumsýna verk eftir sjálfan sig. Sem var fyrra verk kvöldsins, Meadow.

Meadow

Verkið byrjar á ljúfu jóðli og fuglasöng, óði til æsku og uppvaxtarára. Dansdúknum svipar til málverks eftir Pollock og lýsingin er draumkennd. Yfir sviðið gengur kona í hvítum kjól, Katrín Johansen, tignarleg og dramatísk, gengur eins og hún væri í táskóm með fíngerðum og kynþokkafullum skrefum sem minna á antílópu eða sjaldgæfan fugl frekar en ballettdansara. Lýsingin og búningurinn undirstrikaði enn frekar eiginleika hreyfinganna þar sem leið dansarans var ljósrák á myrkvuðu sviðinu og kjóllinn opinn í bakið, stuttur en samt elegant. Konan gekk framhjá myrkvaðri veru í hnipri og samvera þeirra á sviðinu var eins og formáli að því sem koma skyldi í verkinu. Einstaklega ljóðrænt og fallegt upphafsatriði.

emotional3Þegar konan með fögru skrefin var farin beindist athyglin að verunni á gólfinu. Þessi vera er Halla Þórðardóttir sem hefur svo mikil hamskipti að hún hættir að vera manneskja. Í þessu sólói er hún ekki lengur dansari heldur dansinn sjálfur. Allt hreyfitungumálið á sama tíma svo mjúkt, sterkt og frumlegt að það var ómannlegt. Svo náttúrulega ónáttúrulegt að skynjunin á þyngdaraflinu breyttist. Einhvern veginn óskaði ég þess að þetta atriði myndi ekki enda.

Þegar Cameron og Einar komu inn á sviðið varð ég fyrir smá vonbrigðum með hreyfitungumálið. Á meðan sólóið hennar Höllu var óvenju frumlegt hafði ég séð svona hlaup um sviðið í ballettstíl oft áður. Einar og Cameron skiluðu þó sínu dúói mjög vel með næmri túlkun á bernskuárum en að mínu mati var hinsvegar of mikið af danssporum í þessum hluta, þ.e.a.s. þekktum danssporum. Á mörgum stöðum var þeim blandað við barnalegar leikhreyfingar en ég hefði viljað sjá pælinguna fara lengra og færri klassísk nútímadansspor, eins og háar fótlyftur og snúninga. Að sjálfsögðu hafa þau sitt fagurfræðilega gildi og eru kannski það sem fólk vill sjá og jafnvel visst höfundareinkenni en þarna fannst mér þau draga úr trúverðugleika sögunnar. Annars flæddu atriðin vel, æviskeiðin og þroskastigin sem dansararnir stóðu fyrir sköruðust og skiptingarnar voru vel útpældar. Smám saman fylltist sviðið og margar sögur gerðust í einu. Þá var fallegt að fylgjast með því hvernig danshöfundurinn lék sér með samstillingu dansaranna, á sumum stöðum var samstillingin hrá, lífræn og leikkennd en annars staðar var hún nákvæm þar sem hreyfingin varð eins og framkallaði sérstaka töfra.

Næst tók við fallegt og viðkvæmt vestradrama með tígulegu konunni í hvíta kjólnum. Þarna breyttist dansarinn í tilfinningu á hreyfingu þó svo þekktum danssporum hafi lítillega verið ofaukið.

Það hefðu mátt vera fleiri þagnir í verkinu og mér fannst bónusatriðið eftir hneigingu vera aðeins of langt þó það hafi undirstrikað ofurmannleika dansaranna. En sólóið hennar Höllu í byrjun er eitthvað sem enginn sem hefur áhuga á dansi ætti að láta fram hjá sér fara. Að lokum er vert að taka fram að búningaval Agnieszku Baranowska var smekklegt að því leyti að líkami dansarans fékk að njóta sín. Efnis og litaval var einnig ljúft fyrir augað.

Emotional

Emotional eftir Ole Martin Meland var kraftmikið á allan hátt. Bæði fyndið, kúl og dramatískt. Þar fylgjumst við með djammmenningu og vetrarhörku til skiptis með öllu meðfylgjandi drama. Sjávarháska forfeðranna og djammháska nútímans. Fólki að opinbera tilfinningar sínar á meðan aðrir fylgjast með og dæma. Fólk að deyja úr streði og kulda en annars að fríka út í sýrukenndum töffaradansi. Einhvað mjög íslenskt við það! En það voru margir áhugaverðir pólar í verkinu.

Upphafsatriðið byrjar á 90’s hittara, „It’s my life“, táknrænt fyrir dansarana sem hoppuðu saman allir í þríhyrning, algjörlega í takti og alls ekki á hægum takti!

Það yndislega við atriðið var að það var teygt. Hvað er betra en að byrja á að sjá tíu svartklædda dansara með hettur og sólgleraugu hoppa svona hratt í takt undir 90’slagara? Svo hefur það örugglega einhver líkamleg áhrif líka. Eins og tratakam hugleiðsla. En það er önnur saga. Í endann byrjuðu svo dáleiðsluáhrifin að gleðja mann virkilega þegar dansararnir duttu úr sinki án þess að hægja á tempóinu og mynduðu ný mynstur inn í þríhyrningnum með nákvæmum tímasetningum. Eðal fínt.

Næst tóku við ýktir, sýrðir skemmtihúsadansstílar með ofurhetjukröftum og öðrum næntís slagara. „Pump up the jam“, allir að fríka út í víruðum ofsadansi. Mjög skemmtilegt og fyndið, það er ekki alltaf hægt að hlæja á danssýningum en þessi var þannig. Svo kom vetrarharkan og sjávarháskin í stróbljósi, sýnd með hreyfanlegum dansinnsetningum og hellirigningu í hljóðformi. Allir að berjast fyrir lífi sínu, kannski að deyja úr kulda eða streði. Þarna voru minímalískar hreyfingar sem mynduðu óminimalíska heild og svo voru þarna krampakenndar endurteknar hreyfingar í styttukenndu hreyfimálverki sem höfðu nánast líkamleg áhrif á áhorfendur. Á einum stað var enginn dans, bara svart rými og tónlist. Til marks um hvað verkið var skemmtilegt gat ég ekki beðið eftir að þögninni lyki. En þessi þögn var fallegt innskot og skapaði spennu, eftirvæntingu og gaf rými til að melta atriðin á undan.

emotional2Seinna tóku við fleiri áhugaverðar sögur, til dæmis lóðréttur vangadans sem á sekúndubroti dettur í lárétta munúðarfulla erótík. Þarna var reiðslagur í dyravarðastíl á milli tveggja kvendansara. Slagur á milli Höllu og Hjördísar sem klæðast dyravarðajökkum og stuttum buxum. Eitthvað mjög kúl við það. Það var frábær dýnamík í dúóinu þeirra, eins og þær ætluðu alltaf að fara að berja hvor aðra. Á sumum tímapunktum hefði ég viljað sjá aðeins meiri eld eða meiri heift í slagnum og minni stjórnun. Engu að síður var þetta eitt skemmtilegasta dúó sem ég hef séð lengi.

Það er alltaf góðs viti þegar mörkin mást út milli listforma og er oft eins og verkið sé hreyfimálverk. Besta hreyfimyndin var þó í lokin en hún var svo flott að ég vil ekki ljóstra henni upp. „I’ve never felt as beautiful“ hljómar í laginu og Unnur Elísabet tæmir úr heilli konfetti dós yfir sig. Alveg frábært. Lokasenan var í þessum anda. Þá sameinast sögurnar í eina heildarfegurð sem gerðu mig orðlausa. Vel vel gert! Reyndar held ég að verkið hefði alveg þolað það að vera lengra. Þó er alltaf betra að fara út og langa til að sjá meira heldur en á hinn veginn.

Þetta eru magnaðar sýningar og það er óhætt að mæla eindregið með þeim. Ég vil ekki gefa neinar stjörnur en segi Meadow hafi verið gott með framúrskarandi sólóum og fallegri ljóðrænu á köflum. Emotional var áhrifamikið, myndrænt, djúpt og orkumikið. Það verður áhugavert að sjá hvað flokkurinn gerir næst.