92: 20 Golden Greats með Buddy Holly

Á listanum sem ég hef farið eftir stendur að þessi plata sé með Buddy Holly. En þegar ég sló henni upp gat ég í fyrstu ekki betur séð en að hún væri með The Hollies – engin plata með þessu nafni er skráð á Buddy Holly á Spotify. Vinnutilgáta mín var lengst af sem sagt einfaldlega þessi: 20 Golden Greats er með The Hollies. Flest laganna á henni eru vel þekkt – Carrie Ann, He Ain’t Heavy, Jennifer Eccles og svo framvegis. Ég hlustaði á hana á rúntinum frá Ísafirði til Reykjavíkur og fór út að skokka með hana í eyrunum í Västerås. Svo kemur auðvitað smám saman í ljós að til eru um 40-50 þekktar plötur með þessum titli. Og það hefði ég getað sagt mér sjálfur. Ég leggst í smá meiri rannsóknir og kemst að því að þótt Spotify þekki ekki Buddy Holly plötuna þá er hún samt til og Hollies komast því ekki einu sinni inn á topp 500 lista Rolling Stones, þótt þeir séu gylltari og snyrtilegri en sjálfir Bítlarnir.

Þetta er best-off plata sem kom út seint á áttunda áratugnum. Tracklistinn er svona:

1. “That’ll Be the Day”
2. “Peggy Sue”
3. “Words of Love”
4. “Everyday”
5. “Not Fade Away”
6. “Oh, Boy!”
7. “Maybe Baby”
8. “Listen to Me”
9. “Heartbeat”
10. “Think It Over”

Hlið 2

1. “It Doesn’t Matter Anymore”
2. “It’s So Easy”
3. “Well… All Right”
4. “Rave On” West,
5. “Raining in My Heart”
6. “True Love Ways”
7. “Peggy Sue Got Married”
8. “Bo Diddley”
9. “Brown Eyed Handsome Man”
10. “Wishing”

Buddy Holly er líklega einn af alfyrstu fullorðins tónlistarmönnunum sem ég hlustaði á. Kannski á eftir Duran Duran, ég er samt ekki viss. Pabbi var áskrifandi að plötum með sögu rokktónlistarinnar og þegar við bróðir minn fengum að flytja gamla plötuspilarann upp til okkar komu fyrst tvær fullorðinsplötur með, báðar úr safninu – ein með Elvis Presley og ein tvöföld með Buddy Holly öðru megin á fyrri plötunni og Bill Haley hinu megin, og Little Richard og Fats Domino á hinni plötunni. Ég hlustaði mest á þá þrjá fyrstnefndu. Líklega hef ég rétt verið á bilinu sex til átta ára (sjö ára fékk ég kassettutæki og Arena með Duran Duran).

Buddy Holly er sem sagt bara alveg pottþéttur, ég tala nú ekki um á best-off plötunni sinni, og ekkert fleira um það að segja. Það er samt eitthvað magnað við hvað þetta er rosalega hvít tónlist – í ljósi þess að hún er inspíreruð af tónlist svartra. Og gaman að bera saman hvítu Buddy Holly útgáfuna af Bo Diddley …

… við þessa rooooosalegu útgáfu af orginalnum. Það er meira að segja stelpa á gítar. Það er eiginlega ofbeldisfullt að setja þetta hér á eftir æskugoðinu mínu – mér líður einsog ég sé að rústa bernsku minni með því að hlusta á þetta.

Bo Diddley komst ekki inn á topp 100 hjá Rolling Stone (er í sæti 214 með Bo Diddley/Go Bo Diddley).

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. 20 Golden Greats með Buddy Holly hefur hann verið að hlusta á síðan hann var hálfgert smábarn.