Það er undarlegt – eða kannski er það ekkert undarlegt – hversu mikið af persónulegum minningum koma upp í hugann þegar ég hlusta á þessar plötur. Hvernig ég er alltaf orðinn sex ára aftur. Fimm ára. Níu ára. Hvernig þetta voru allt einu sinni eftirlætis tónlistarmennirnir mínir. Elton John er engin undantekning – kannski var hann fyrstur. Ég hafði enga hugmynd um tónlistina hans. Sá hann spila á píanóið í sjónvarpinu, með stóru gleraugun sín og flottan hatt í spjátrungslegum jakkafötum. Einhvern veginn svona kannski:
Og ákvað einfaldlega að hann væri besti tónlistarmaður í heimi. Ég man ekkert hvað hann var að spila. Lærði bara nafnið. Elton John. Eftirlætis tónlistarmaðurinn minn. Nokkru síðar gerði ég það sama við Phil Collins og svo Wham (áður en ég skipti um lið og gekk í Duran Duran gengið; líka án þess að heyra músíkina).
Að öllu þessu sögðu þá næ ég þessu ekki alveg, skil ekki alveg þessa músík, og veit ekki hvers vegna ég næ henni ekki. Mér finnst Elton John mjög sjarmerandi persónuleiki – að minnsta kosti í gamla daga, áður en ríkir listamenn breyttust allir í Bono – og lagasmíðarnar eru að mörgu leyti pottþéttar. Flottar laglínur, þéttar útsetningar, fíla röddina. Textarnir eru oft lélegir en líka oft virkilega góðir – Saturday Night’s Alright for Fighting er til dæmis einhvern veginn alveg stórmerkilegt popplag. Um að fara á pöbbinn og slást. Ómetanleg samfélagslýsing, ljóðrænn sósíalrealismi úr breskum verkóhverfum þar sem Bernie Taupin, textahöfundurinn, ólst upp. Og ótýpískur fyrir þessa músík, þennan tónlistarmann.
Mér þykja lögin sem ég hef heyrt sjaldnar – t.d. This song has no title – áhugaverðari.
Það er augljóslega ekki algilt. Lög einsog Jamaica Jerk-Off eru t.d. fullkomlega og algerlega ólýsanlega vond – maður skilur ekki hvernig þetta lag lenti á plötu eða hvað þeir voru að hugsa.
Textinn er að vísu sums staðar svo furðulegur að hann verður áhugaverður.
Let the ladies and the gentlemen
be as rude as they like
On the beaches, oh in the jungle
where the people feel alright
En það er eitthvað við umbúðirnar, sándið, sálina, sem skilur mig eftir ypptandi öxlum. Samt finnst mér Elton John alveg flottur.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Goodbye Yellow Brick Road hlustaði hann á skokki um almenningsgarð í Kiel, nálægt Maritim Hótelinu.