83: I Never Loved a Man the Way I Loved You með Arethu Franklin

Ég hef ekki gert margar athugasemdir við uppröðunina á lista Rolling Stone, sem ég nota fyrst og fremst til að velja hvaða plötu ég á að hlusta á næst. Þetta á ekki að vera krítík á listann sem slíkan, enda er hann auðvitað svo gott sem úreltur, heldur umfjöllun um plöturnar sem lentu á honum. Að því sögðu: Þessi plata (sem er önnur platan í röð með hinni óviðjafnanlegu Arethu Franklin) hefst á hennar frægasta lagi, Respect, eftir hinn óviðjafnanlega Otis Redding. Og þótt það sé margt dásamlegt um Otis að segja þá er útgáfa hans af laginu, sem kom út tveimur árum á undan útgáfu Arethu, einfaldlega lapþunn, og þótt platan sem hún er á, Otis Blue, sé að mörgu leyti stórkostleg þá er einhvern veginn alveg kolómögulegt að hún sé níu sætum ofar en I Never Loved a Man the Way I Loved You. Ég skal rifja þetta upp eftir níu plötur þegar ég skrifa um Otis Blue og þá skal ég segja margt fallegt um Otis (og raunar aðeins tala illa um eitt annað laganna, jæja – Otis Blue er samt geggjuð plata!). En núna vildi ég bara aðeins dvelja við þetta svívirðilega óréttlæti.

Ég sagði ýmislegt um Arethu í síðustu færslu sem er kannski óþarfi að endurtaka. Röddin er sú sama, sálin sú sama – INLAMTWILY (meira að segja skammstafaður er titillinn alltof langur!) kom út árinu á undan Lady Soul og söngurinn er kannski ekki alveg jafn rosalegur og á seinni plötunni en lagasmíðarnar eru miklu pottþéttari. Á eftir Respect kemur til dæmis titillagið sem er með æðislegu grúvi:

Soul Serenade er guðdómlegt, Baby, Baby, Baby nístandi, Dr. Feelgood klassíker, A Change is Gonna Come (sem Sam Cooke samdi eftir að hafa verið vísað frá „hvítu“ hóteli ásamt fylgdarliði sínu) hlaðið einhvers konar ástar/byltingar-duende sem gerir orginalnum mikinn sóma, flytur hann nær nútímanum (það eru reyndar ekki nema þrjú ár á milli – en soultónlistin breyttist gríðarhratt á sjöunda áratugnum):

Það er reyndar áhugavert að Aretha gerir miklu meira með orginalinn, þarna örfáum árum eftir að hann kemur út, en tónlistarmaðurinn Seal gerði árið 2008, hans versjón er eiginlega retró-cooke.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. I Never Loved a Man the Way I Loved You hlustaði hann á á skokki sínu um Bokedalen skammt austur af Gautaborg.