NIN

Tónlist vikunnar: Nine Inch Nails og skelfingin

Það er í raun fáránlegt að hugsa til þess hve stutt er síðan poppmúsík (hér nota ég orðið poppmúsík yfir alla músík sem er ekki klassísk tónlist eða djass eða eitthvað, semsagt popp, rokk, rapp, teknó og þar fram eftir götunum) gat verið hættuleg. Svona í alvörunni hættuleg, þannig að hún ól með sómakæru fólki ótta og raunverulega skelfingu um að gervallri heimsmynd þeirra yrði senn kollvarpað, að samfélagið væri á hraðri leið til glötunar, að ill niðurrifsöfl hefðu tekið saman höndum um að tæla æskuna á glapstigu og til móts við glundroða.

Popptónlist var einusinni ógn og hún var tekin alvarlega sem slík. Helstu eftirlitsstofnanir heimalands hennar, Bandaríkjanna, söfnuðu saman þykkum skýrslum um músíkanta – poppstjörnur sem og minni spámenn – og ýmsar borgarahreyfingar börðust af krafti og alúð gegn ógninni sem þótti stafa af óheftri tjáningu þeirra (ber þar kannski helst að nefna krossferð eiginkonu föður internetsins, Tipper Gore, undir merkjum Parents Music Resource Center (PMRC) (hér: má heyra Jello Biafra, söngvara Dead Kennedys, ræða um löng og kostnaðarsöm málaferli sem knésettu hljómsveit hans og sjálfstæða útgáfu sem hún hafði starfrækt um miðbik níunda áratugarins (mæli með þessu, þetta er mjög skemmtilegt) og hér má heyra sama Biafra ræða ritskoðunartilburði stjórnvalda og samtaka áhyggjufullra foreldra á sama áratug (þessu tengt, en samt ekki, en samt smá: hér má horfa á guðdómlega frammistöðu Sjóns andspænis íslenskum ritskoðunaröflum í sjónvarpsþætti á RÚV árið 1987).

Frankenchrist

Þessi mynd eftir H.R. Giger fylgdi með plötu Dead Kennedys, Frankenchrist. Hún þótti ægilega ósmekkleg.

(ég vil geta þess í framhjáhlaupi að ég las um daginn merkilega bók um sögu tímaritsins MAD, hvar ég frétti í fyrsta skipti af viðlíka ofsóknum gegn teiknimyndasögum í Bandaríkjunum um miðbik tuttugustu aldarinnar. Í kjölfar fjölmiðlahæps og umfjöllunar kröfðust skelfdir foreldrar þess að EITTHVAÐ VÆRI GERT Í MÁLUNUM, ofbeldi og klám í teiknimyndasögum væri að spilla ungviðinu og kollsteypa samfélaginu í kommúnisma og glæpi. Og það virkaði meira að segja. Til skamms tíma starfrækti BNA teiknimyndasögulöggu og allt (svo fletti ég þessu aftur upp í bókinni góðu (Completely MAD, A History of the Comic Book and Magazine). Kemur á daginn að ótti við ritskoðun stjórnvalda olli því að útgefendur sjálfir stofnuðu eigin ritskoðunarnefnd árið 1954, sem passaði upp á að teiknimyndasögur yrðu ekki ritskoðaðar. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að ætla að PMRC hafi haft það í huga þegar PARENTAL ADVISORY límmiðarnir voru búnir til). Margir listamenn fóru á hausinn, fóru í útlegð. Aðrir, eins og William M. Gaines, forsprakki MAD, lögðust í mikla baráttu til að tryggja sitt tjáningarfrelsi. Þeir unnu sigra og allt, þó þeir hafi stundum tapað, en á endanum er eins og farið hafi fyrir teiknimyndapanikkinu eins og öðrum slíkum panikkum — það bara svona dofnaði og gleymdist að lokum).

Dee Snider

Dee Snider. Augljós ógn við almennt velsæmi og vestræna velmegun.

Nema hvað. Í eina tíð var meintur satanismi hljómsveitarinnar Mötley Crüe tekinn alvarlega og Dee Snider úr Twisted Sister þótti hræðileg fyrirmynd. Public Enemy voru vændir um skipulagða hryðjuverkastarfsemi og af Ice T (úr Law & Order) þótti stafa alvarleg ógn við réttarríkið. Tiltölulega nýfullorðið fólk sem ólst upp við tónlist Bítlanna og Doors barðist fyrir því að lög yrðu sett sem takmörkuðu aðgengi unglinga að breiðskífum Madonnu. Börn og unglingar eins og ég sjálfur hlustuðu á lög með Slayer og Deicide og Cannibal Corpse og hlutu samviskubitsskotinn sæluhroll fyrir, enda sungið um ljóta og vonda hluti sem foreldrar og fjölskylda myndu seint samþykkja. FBI fylgdust mjög náið með Wu Tang Clan. Og þar fram eftir götunum.

Cop... killer?

Cop… killer?

Í dag er öllum sama um popptónlist, það er harla erfitt að finna fólk sem þykir hún vera að kollsteypa heiminum í satansmyrkur (það er annars glatað, ég tek popptónlist mjög alvarlega og hef voða gaman af öðru fólki sem gerir það. Eini staðurinn sem ég get lesið almennilegar heimsendapestir um poppmúsík þessa dagana er samsæris-illuminati-búllan hjá Vigilant Citizen og þó það sé voða gaman, þá hef ég samt alltaf á tilfinningunni að kauði sé að djóka frekar hart).

Það má alveg spyrja sig hvernig á þessu stendur. Af hverju stafar engum ógn af popptónlist lengur? Einhver gæti ímyndað sér að, rétt eins og djassmúsík og ljóðlist (og mörg önnur list), hafi poppmúsík verið stofnanavædd, að allar tilraunir til hennar séu að lokum samdar inní formið, gerðar til heiðurs fyrirrennurum, stílæfingar og tribjúts. Aðrir gætu hugsað sem svo að þráfelld viðleitni poppara til að reyna á þanþol hneykslunarmarka og víkka út landamæri hins ásættanlega hafi að endanum borið árangur, að eftir því sem heilögum kúm var varpað á bálið hafi þær á endanum klárast: að ekkert geti lengur hneykslað (ég veit alveg að einhverjir voru að reyna vera hneykslaðir á Miley Cyrus og tungunni hennar og brjóstunum um daginn, en það var meira svona til að vera næs fannst mér, svona eins og að spila eftir hefðinni).

Ég bara veit það ekki. En ég veit og þori að fullyrða að það er enginn hræddur við poppmúsík í dag, að máttur hennar til að skekja samfélagið og jafnvel áorka breytingum er uppurinn, að flestir (nema stöku fúndamentalistar) eru búnir að gleyma ógninni sem eitt sinn stafaði af henni.

NEMA HVAÐ. Meðfylgjandi myndband er dýrðlegur vitnisburður um lokadaga þeirra tíma er poppmúsík gat almennilega hrist uppí almenningi og hrætt hann til aðgerða. Það heitir Closure, Pt. 1, og er 75 mínútna löng heimildarmynd um tónleikaferðalag hljómsveitarinnar Nine Inch Nails, sem kallaðist Self Destruct. Þar ferðaðist sveitin um heiminn ásamt ýmsum áhangendum og upphitunaratriðum (ber þar helst að nefna þann allra síðasta hneykslunarrokkara, Marilyn Manson) og lék fyrir fullum húsum vitfirrtra ungmenna meðan foreldrar þeirra og ættingjar mótmæltu hástöfum fyrir utan.

Hérna er hún (ATH það er hægt að dánlóda henni líka ef maður vill, ef maður fer yfir á Vimeo síðuna):

Það er ekki sérstaklega erfitt að ímynda sér af hverju sómakært fólk var lítið hrifið af Nine Inch Nails og verkum þeirra á sínum tíma. Fyrir utan að vera sannkallað meistaraverk hefur platan The Downward Spiral, sem tónleikaferðalagið var til heiðurs, til að bera allt það besta sem popptónlist getur heiðrað: guðlast, klám, ofbeldi, sifjaspell og sadómasókisma (svo fáein dæmi séu nefnd). Downward Spiral er konseftplata um sjálfsmorð og níhilisma og guðleysi sem er nánast ekkert ómþýð og hljómar eiginlega bara eins og illskeyttur vélahrærigrautur. Platan stökk beint í annað sæti Billboard listans við útgáfu árið 1994 og náði ferfaldri platínu áður en yfir lauk.

Courtney Love, Marilyn Manson og félagi sprella á Self Destruct túrnum.

Courtney Love, Marilyn Manson og félagi sprella á Self Destruct túrnum.

Þessi heimildarmynd um Self Destruct túrinn er dásemd. Það er fátt eins eggjandi og poppsveit á hátindi krafta sinna, sem hefur loksins fundið leið að fjöldanum og nýtur þess að baða sig í aðdáuninni, full af sjálfstrausti og ringulreið. Það er erfitt að ímynda sér kröftugri framkomu en sveitin sýnir í upphafslagi myndbandsins, Terrible Lie. Í kjölfarið fylgjumst við með ferðalagi sveitarinnar um Bandaríkin, þar sem hún nýtur þess að baða sig í ótta samfélagsins og þeirri ógn sem af henni stafar, gengst jafnvel við henni og gerir sitt til að ýkja hana upp. Það er örugglega eitthvað, að stíga á svið fyrir tugþúsundir meðan annar eins fjöldi mótmælir fyrir utan. Það gefur örugglega frekar bogna sýn á veruleikann.

Svo eru líka fullt af skemmtilegum músíköntum þarna í góðu stuði, að spjalla og spila. Ber þar helst að nefna þá David Bowie og Lou Reed heitinn. Og Marilyn Manson auðvitað.

Ég, allavega, hef ótrúlega gaman að horfa á þetta og ímynda mér tíma þegar samfélagið var skíthrætt við popptónlist. Og sakna þeirra smá.

Það er enginn hræddur við svona lengur.

Það er enginn hræddur við svona lengur.