Mynd: Rebecca Gene

Listin að lesa bækur

Þú verður að gera allt til að komast upp með að lesa bækur. Ljúga, svíkja, svekkja, narra, blekkja. Að öðrum kosti nærðu aldrei að lesa neitt. Og það er alltaf farsælasta og besta lausnin á hverjum vanda: að lesa. Ef þú stendur til dæmis andspænis erfiðu máli í einkalífinu: lokaðu þig þá af og lestu bækur. Ef þú tapaðir öllum peningunum þínum í heimskulegu veðmáli: lestu! Ef þú féllst á vorprófunum og lentir í ástarsorg og handleggsbrotnaðir: lestu. Allt ætti að miðast að því að fá frið og næði til að lesa. Sumt fólk fattar þetta ekki. „Hvað ertu að lesa?“ spyr það. (Fáranleg spurning!) Eða það kemur röltandi, potar í þig (sem ert að reyna að lesa) og byrjar að tala um eitthvað annað en stendur í bókinni; hneyksli á Internetinu eða nýtt veitingahús. En þú ert að reyna að lesa. Seinna birtist fólk sem heldur því fram að það sé vinnuveitandinn þinn, frænka þín, fyrrverandi kærastan þín, ökumaðurinn sem lenti í árekstri við þig, starfsmaður hjá bankanum sem fullyrðir að þú skuldir reikninga þrjá mánuði aftur í tímann, æskuvinur þinn, systir þín … Þú tiplar fram hjá þeim á tánum, læðist um fáfarna stíga og dimm húsasund – því að þú ert að reyna að lesa. Dagblöðin hringja og spyrja hvað þú sért að lesa. Og þú segir: „Ekkert!“ Þú verður að draga fyrir gluggana, læsa útidyrahurðinni, slökkva öll ljós nema á leslömpunum. Allir vilja vita hvað þú ert að lesa! Enginn truflar flugmann í lendingu eða keiluspilara í miðju kasti – samt komast allir upp með að ónáða þig þegar þú ert að reyna að lesa! Kunningi þinn úr Háskólanum bankar á stofugluggann hjá þér og spyr: „Hvað ertu að lesa?“ Síðan vill hann fá þig með sér á djasstónleika. En þú ert að reyna að lesa. Þú verður að skrökva, sparka, klekkja, pretta. Þyrla upp ryki og beita makalausum bellibrögðum til að fá þínu framgengt – að öðrum kosti nærðu aldrei að lesa neitt. Og besti kosturinn í hverri þraut er alltaf að loka sig af og lesa. Það er mennskast af öllu mennsku að lesa. Mannkynssagan er ein samfelld hugsun þessarar skrítnu dýrategundar og þú, sem manneskja, þarft að rekja þig í gegnum hana orð fyrir orð til að skilja hver þú ert – með því að lesa. Vinkona þín hringir og vill bjóða þér í nýja heita pottinn sinn. „Hvað ertu að lesa?“ spyr hún. Það slasast enginn í fjallgöngu meðan hann er að lesa. Það stofnar enginn til styrjaldar eða býr til sprengjur, rústar efnahag heillar þjóðar, stráfellir lífríki regnskóganna, stuðlar að frekari súrnun sjávar meðan hann er að lesa. Þú verður að segja upp símreikningnum, gæta þess bakdyrnar séu læstar, múra fyrir bréfalúguna. Það er í lagi að hagræða sannleikanum og forðast beint augnsamband ef markmiðið er að lesa. Því að öðrum kosti færðu aldrei neinn frið. Annars lestu aldrei neitt. Þú verður að fórna öllu. Og þú verður stöðugt að hafa nýjar afsakanir á hraðbergi: þegar vinnuveitandinn sendir þér skammarbréf; þegar kærastan þín grætur í símann; þegar bróðir þinn kemur úr meðferð; þegar afi þinn dettur niður stigann; þegar lyginn forsætisráðherra brosir til þín af forsíðu hvers einasta fjölmiðils; þegar rokið og rigningin lemja húsið þitt úr öllum áttum; þegar vinir þínir hringja; þegar kötturinn krafsar í hurðina – ekki leyfa þeim að trufla þig. Þú verður að lesa. Að öðrum kosti botnarðu aldrei neitt í neinu – ekki nema þú byrgir þig inni í orðveruleikanum og lesir.

Lestu!!


Sverrir Norland hefur gefið út fimm bækur. Í byrjun nóvember gefur hann út fimm nýjar bækur, meðal annars ljóða- og smáprósasafnið „Erfðaskrá á útdauðu tungumáli“. Þaðan er þessi texti tekinn.