Nýi kærastinn hennar var fullkominn fyrir hana. Foreldrar hans voru mjög ríkir svo hann hafði gott tækifæri til að lifa afslöppuðu bóhemlífi. Hann undraði sig á fólki sem var ekki jafn þroskað og hann, eitthvert fólk sem var að eltast við veraldleg gæði. Hann ætlaði til dæmis aldrei að kaupa sér fasteign. Hann var svo frjáls að hann sætti sig alveg við að búa bara í einhverri af fasteignum foreldra sinna. Hann keypi sér mjög vönduð rifin föt, hann vafði sínar eigin sígarettur og hafði árum saman virkilega lagt sig allan fram um að vera ungskáld.
Hann var svo rosalega gott og djúpt skáld að enginn skildi neitt sem hann skrifaði. Hann tuðaði rosa mikið um hvað það væri óþolandi að útgefendur væru alltaf að gefa út ljóðabækur eftir útbrunna rappara á meðan menn eins og hann, sem væru með miklu meiri menntun á þessu sviði, fengju samt engan hljómgrunn. Hann kom og settist hjá mér. Var samt með svona þráðlaus heyrnartól og þegar ég ætlaði að heilsa lyfti hann snöggt fingrinum og hvíslaði: „Sorrý, ég verð að klára þetta.“
Svo kláraði hann tólf mínútna samtal sem snerist held ég um að hann ætlaði nú ekki að fara að borga fullt gjald til forritarans sem setti upp heimasíðuna hans. Allt símtalið skiptist hann á að nefna lægri tölu sem hann vildi borga fyrir verkið og svo nýja fídusa sem hann vildi láta bæta við síðuna. Þegar símtalinu lauk fékk ég athygli hans og hann spurði:
„Hva sei’iru? Hvar’að brasa? Engin vinna í dag, bara að slæpast?“
Ég nennti ekki að útskýra að ég væri að vinna vaktavinnu á bókasafni og væri þess vegna oft laus á tímum sem aðrir væru í vinnu. Grunaði að hann myndi þá hneykslast á mér að vera ekki komin í alvöru vinnu svo ég sagði bara það sem ég sagði við alla sem ég nennti ekki að tala við þessa dagana, að ég væri alltaf bara að hanga á kaffihúsum að skrifa ljóðabók um þann unað að láta brunda framan í mig.
Oftast þegar ég sagði þetta við fólk brást það við því með að ræskja sig bara og skipta um umræðuefni. En ljóðavinkillinn vakti athygli hans.
„Já, ókei, ókei, ókei,“ svaraði hann glottandi. Útskýrði svo fyrir mér að það væri orðið mjög þreytt að þykjast ætla að ganga fram af fólki með einhverju líkamsvessatali og hvort sem er væri þetta sennilega frekar lélegt hjá mér. Hann gæti þó hugsanlega alveg hjálpað mér að redda þessu, en hann gæti ekki lofað neinu. Tók svo símann minn og skellti emailinu sínu inn í símaskrána og sagði að ég ætti að senda sér handritið.
Svo útskýrði hann fyrir mér að hann væri löngu hættur að segja hluti beint út í sínum skáldskap. Hann notaði náttúrulýsingar til að tjá það sem hann væri að meina. Ég vissi það reyndar því ég hafði mætt á ljóðakvöld þar sem hann líkti brjóstum kærustu sinnar við bugðóttar gangstéttir og baki hennar við trjágreinar sem voru alltaf að hríslast eitthvað voða mikið. Þetta var á svona ljóðakvöldi fyrir femínista. Þessi kvöld voru alltaf á fimmtudögum og framan af voru bara konur að lesa upp á þeim, en fljótlega neyddust skipuleggjendurnir til að fara að hleypa mönnum eins og honum að. Það voru bara svo margir strákar sem voru svo ógeðslega góðir í að vera femínistar og ljóðskáld, að eigin sögn, að það var ekki hægt að neita þeim um að fá að koma fram. Engum í salnum fannst hann sérstaklega góður þetta kvöld sem ég sá hann, en eftir upplesturinn var hann svo örlátur að gefa sér góðan tíma til að benda kvenkyns upplesurunum á það sem betur mætti fara í þeirra skrifumog svo mörgum áheyrendum á hvaða mistök þær væru að gera í sinni femínísku baráttu. Sumir menn hafa bara engan hemil á eigin gæsku.Hann fór svo eftir að hafa borðað helminginn af croissantinu sem ég hafði eytt síðasta klinkinu mínu í og aldrei boðið honum að fá sér af. Hann kvaddi mig með rosalegri afsökunarbeiðni yfir því að þurfa að fara. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að vera steinhætt að skreppa upp á ljóðskáld. Það liðu svo varla 12 tímar áður en ég vaknaði hjá einu svoleiðis.
Mér til varnar hafði ég ekki hugmynd um að hann væri að skrifa. Mig langaði bara að taka hann á löpp því hann var í Justin Bieber jakka á rosalegri hipsterasamkomu og vinur minn sagði mér að hann ætti sætan hund. Stundum vill kona bara sofna í faðmi manna sem kunna að meta góða popptónlist og sæta hvolpa. Næsta morgun sendi hann mér svo ljóð um hvernig það væri að fara heim með 15 árum eldri konu sem léti menn reykja Camel filterslausan á meðan hún sygi á þeim typpið. Ég átti nú engar minningar um það, en gat ekki beint þrætt fyrir það. Ég hef alltaf verið svolítið léleg í að vera rómó. Hann bauð mér svo að finna sjö vini sína til að vera með okkur í orgíu, því hann hafði heyrt af því þegar ég var að leita að fólki í þannig sumarið áður. Ég sá samt í augunum í honum og hvernig hann strauk mér að hann vildi ekkert sjá mig sofa hjá sjö vinum sínum. Hann var bara að segja mér þetta til að ganga í augun á mér og þá fattaði ég að ég var orðin alfa. Eða ég hélt það, þangað til tveimur dögum seinna, eftir að hann hafði ekki svarað þremur skilaboðum í röð frá mér, að ég frétti frá sameiginlegum vini okkar að hann væri farinn til Kína. Þá varð að ég auðvitað yfir mig ástfangin því að sjálfsögðu þráum við aldrei neitt jafn heitt og það sem er ekki í sömu heimsálfu og við sjálf. Það er í rauninni ekki ósvipað að sakna manna hvortsem þeir eru í Kópavogi og Kína. Nema þeir slá sennilega mismikið um sig með mandarínskum frösum. Eða ég ímynda mér það án þess að hafa beint eitthvað fyrir mér í því.
Fyrsta skáldsaga Kamillu Einarsdóttur Kópavogskróníka kemur út í haust. Hún fjallar um fegurð Smiðjuhverfisins, almennan bömmer og að fá brund í augun.