Hvaðan kom þessi limur?

um sýninguna Léttfeti (Harðkjarna baun) í Window Gallery

Hér er ég á rölti niður Hverfisgötuna í Reykjavík.

Hvað sé ég?

Jahérna.

Rúmteppi samtímans!

Út að Hverfisgötu vísar gluggi sem síðustu fimm árin hefur verið vettvangur sýningahalds undir merkjum rongindow Gallery. Þann 1. mars sl. opnaði þar sýning með málverkum og innsetningu eftir Davíð Örn Halldórsson. Alla jafnan málar Davíð með hefðbundnum praktískum vinnuaðferðum, þ.e. hann vinnur í sínum myndum á vinnustofu, málar að mestu á tvívíða fleti af viðráðanlegri stærð og hengir upp í sal þegar þar að kemur. Oftar en ekki bætir hann þó um betur, ef svo má segja, og tengir með beinum hætti aðfluttu verkin við salinn með verkum unnum beint á veggi, loft og/eða gólf; sættir/mildar þann kontrast sem verk hans og hvítir gallerísveggir mynda.

Hér, á sýningu sem hann kallar Léttfeti (Harðkjarna baun), er hann við sama heygarðshornið en bætir í á tveimur sviðum: skúlptúrsins og hins fígúratíva. Hér kemur við sögu breytt tekkborð (búið er að stytta tvo fætur þess og ég viðurkenni fúslega að það er gaman að sjá svona mublu svívirta mitt í tekkblæti eftirhrunstískunnar). Borðið hefur Davíð flutt með sér af vinnustofunni en þar notað undir litafganga – nánar tiltekið hringlaga hálfþornaðar filmur sem eru tilkomnar vegna þess að hann lokar ekki málningadósum sem hann hefur í notkun. Þessar filmur tosar hann svo ofan af lakkinu fyrir notkun til að komast í góða stöffið. Svona hefur í gegnum tíðina safnast upp litrík hrúga sem rís upp af borðfletinum og tekið á sig keiluform. Til að kóróna verkið lætur Davíð litatauma leka yfir og niður með hliðum/hlíðum sem færir formið frá því að vera fallísk táknmynd yfir í að vera hreinlega löðrandi limur. Og þá er spurningin: hvaðan kom þessi limur?

Typpið

Gera má að því skóna, með hliðsjón af hinni langdregnu vinnuaðferð og því að þetta er aukaafurð, að engin sérstök stefna hafi verið áformuð frá upphafi, heldur hafi þetta “af sjálfu sér” tekið þetta form. Það er svosem í takt við vinnuaðferðir Davíðs í málverkunum (tvö slík eru sitt í hvorum glugga til hliðar við innsetninguna) þar sem hann einfaldlega byrjar að mála og fylgir svo myndrænum innri lögmálum verksins (eða sín sjálfs) þar til hann telur að verkið sé fullgert.

Manni finnst fátt eðlilegra en að verk sem er unnið á þennan hátt taki á sig þessa mynd. Þetta er vélræn vinna, stuttar og hagkvæmar handahreyfingar sem kalla ekki á neitt mat á aðstæðum. Bara handjobb. Ein filma er lögð ofan á hina: sama hreyfingin og sama ákvörðunin. Þannig vex þessi lagkaka og verður ummerki, heimild og lýsing vinnunnar. Ekki að ég ætli Davíð þær meiningar en lesi maður tíðarandann úr þessari hrúgu birtast aðrar sjálfkeyrandi hreyfingar innan samfélagsins eins og t.d. samskipti kynjanna. Að breyta þeim samskiptum er hverjum einstaklingi svo erfitt að þó óbreytt ástand verði ekki þolað þá heldur það velli. Þetta (neikvætt hlaðna) erfiði verður aflið sem dregur allt efni saman í göndul sem trjónir yfir landslaginu. Þannig fer þessi hrúga að standa fyrir misskiptingu, lagskiptingu, losaralegt eða þvingað samband hvers styrkur liggur í andvara- og máttleysi – allt sem andstætt er sterkum og þéttum samhljómi formsins.

Kúlan

Þarna er líka þverröndótt kúla sem einhverskonar mótvægisaðgerð en virðist af öðrum meiði. Hún hefur ekki vaxið upp af fletinum heldur lent þar. Hún hefur komið að ofan eins og borðið. Svo hún er aðskotahlutur sem þrátt fyrir að passa inn í litapallettuna hefur ekki enn hlotið vígslu inn í þennan heim. Kúlan virðist mótuð af meiri ásetningi, sennilega úr pappamassa, en lagskipting gefin í skin með máluðum þverröndum. Typpið er lagskipt með taumum sem hylja þann eiginleika meðan kúlan er órofin heild en líkir eftir lagskiptingu. Það minnir á þá eiginleika lífríkisins til að ýmist skera sig úr eða renna saman við umhverfið; nánast samstundis að ýta og toga. Þannig eru allar taugar þandar að þolmörkum, ef ekki meir, og er kannski sú kvika sem bæði slekkur og glæðir líf. Það er spenna í lagi.

Svampurinn Sveinsson

Í bakgrunni eru þrjár plötur allar með ástrekktu efni; eitt ofið með gamaldags blómamunstri (þó ekki trendí retró og myndi ekki seljast í hönnunarbúðum eða vera notað á kaffihúsi) annað dökkbrúnt teinótt (sama gildir) og hið þriðja er sængurver með áprentaðri mynd af teiknimyndafigúrunni Svampi Sveinssyni. Svampur býr neðansjávar og þó margt megi geta sér til um hans hlutverk í innsetningunni sé ég ekki ástæðu til að elta þá þræði alla. Aðspurður svaraði Davíð því til um Svamp Sveinsson að hann væri “flott malerí”. Ég veit að þessi mynd hefur verið fyrir augum Davíðs í langan tíma og þannig fengið vægi umfram annað myndefni sem hann viðar að sér, sem er gríðarlegt magn; Davíð og poppkúltúr eru samvaxin á mænunni. Nær öll menning og menningarumfjöllun streymir um æðar hans, öll tónlist um eyru hans og meðan hann málar horfir hann á þrjár myndir samtímis. Hann er nokkurskonar brjálaður algoritmi sem vinsar efnivið úr mynd- og hljóðrænum beljanda og túlkar yfir í litríkt formfrjálst landslag sem fram að þessu hafa verið óbyggðir. En nú er mætt vera. Um það bil átta sekúndubrot af teiknimyndafígúru slædd upp úr tímafljótinu og afkvikuð. “Svampur er gott malerí” sagði hann en hvað þýðir það? Þó myndin sé væntanlega sérunnin fyrir tilefnið (að vera prentuð á sængurver) þá er þetta eins og hver annar rammi úr einum þætti þáttaraðar af hafsjó þáttaraða í hafsjó sjónvarpsstöðva. Er Davíð, eins og til dæmis Sigurður Guðmundsson með Fjöruverk í varnargarðinum við Sæbraut, að benda á að fegurð er víða að finna? Aðeins þurfi að skerpa á athyglinni? Vera vakandi. Og svo má spyrja sig, í ljósi myndbyggingar sængurverksins, þar sem hús Svamps í bakgrunni verður eins og hattur á höfði hans, hvort verið sé að vísa í ljósmyndaseríu John Baldessari „Wrong“ (1967).

Skýjalestur

Hughrifin sem daður Davíðs við hið fígúratíva kallar fram eru stríðnislegt flökt milli þess að greina og greina ekki hlutbundin form í flæðilegum myndheiminum. Flöktið hristir svo misjafnar myndir upp á yfirborðið í huga fólks og vekur óhjákvæmilega upp samræður og samanburð, svona eins og þegar lesið er í skýin. Hér er á hinn bóginn gengið það nærri raunsæislegri framsetningu að segja má að um endaskipti sé að ræða; nú er hið fígúratíva skýrt en daðrað við Pareidóliuna 1. Við erum neðansjávar með Svampi Sveinssyni. Litríkt frauðplast myndar kóralrif og borðið er sem sokkið skipsflak; geómetrískur smíðisgripur sem hefur skorðast í sprungu. Náttúruöflin er byrjuð að innlima í ríki hafsins þennan aðskotahlut með öllum sínum litríka “eyðileggingarmætti”. Rúðuglerið eykur enn á þessa neðansjávar tilfinningu.

En þessi rúða gæti líka staðið fyrir hinn nútímalega skjá. Hið rennislétta yfirborð sem við mænum á, ef ekki inn í, og stjrúkum daglangt eins og okkar kærasta vini (eða stjrúkum við þeim kannski ekki?). Er Davíð nykurinn sem tælir okkur ofaní cybersævið? Ef svo er, hvers vegna stefnir hann okkur á fund Svamps Sveinssonar í hans kjarnorkumenguðu 2 heimkynnum?

Hér vil ég svíkja um svör. En ætli þau leynist ekki, eins og spurningarnar, í rúmteppi samtímans. Ég rölti áfram niður Hverfisgötuna og fíla mig ögn meðvitaðri um tvískiptingu lífsins. Þó Léttfeti (harðkjarna baun) létti lundina og gæli við mann á margvíslegan hátt þá sækir á mig litríkt farg hins félagslega landslags. Það landslag er asnalegt.

 

   [ + ]

1. pareidolia: tilraunir (og árangur) hugans til að greina þekktar myndir úr óræðum formum.
2. Heimkynni Svamps Sveinssonar eiga að vera við Bikini eyjar hvar gerðar hafa verið tilraunir með kjarnorku.