Desembernótt og Palomino

Desembernótt

Þessa desembernótt klæðist ég kjötinu
og leysi fumlaust þær þrautir sem fyrir eru lagðar.
Hjartslátturinn seigur vegna glimmersins í blóðinu
og herðist stöðugt eftir því sem líður á.
Þegar ég loksins klöngrast yfir holtið heim
ærast himnastjörnurnar í trylltum fögnuði.
Blóðslóðin eltir mig, tunglið líka, þú líka.
Leigubílar þeysa fram og aftur um Miklubrautina,
mestu braut allra brauta í Vetrarbrautinni.
Nýt þess nú að hafa undirbúið mig fyrir lífið
í tölvuleikjum í símanum,
þegar ég skáskýst milli þeirra….ég lifi!
Í eldhúsinu er boðið upp á neskaffi ofurhetjunnar,
þar sem vodkalögg er slett út í rjúkandi bollann.
Þú horfir svona stíft á mig
og ég sé að þú fattar
að undir öllum fötunum er ég bara allsber.
Borgin heldur áfram að skríða yfir holtin
löngu eftir að við erum sofnuð.

Palomino

Þegar maður er ekki lengur Palomino-hestur neins
sem ríður ótemjunni blíðlega, blíðlega um rakar flauelsgresjur.
Kippir svo snögglega í jarpt faxið
og við geysumst á ofsahraða óttalaus inní gneistandi eldhaf.
Reiðskepnur örlaganna!

Kyrrláti, fallegi þú.
Ofbauð þér loks óhemjan,
öskrandi en elskandi,
elskandi um of?

Þegar maður er ekki lengur Palomino-hestur neins
en vitnar aðeins um rykmökkinn
í löngum skuggum haustsólar.
Augun, blóðhlaupinn söknuður.