Það er flókið að skrifa um myndina Salóme. Hún sýnir frá byrjun að hún ætlar sér ekki að fylgja hefðbundnum reglum kvikmyndagerðar, gefur lítið fyrir formúlur Hollywood og reglur um uppbyggingu. Í staðinn býr hún til lifandi málverk, stillir viðfangi sínu upp og myndar það við að mótmæla uppstillingunni, gerir sífellt spurningamerki við eigið form og leyfir gagnrýni á eigin kvikmyndagerðarkonu óspart. Að ætla að grípa til hefðbundinna aðferða við gagnrýni á myndinni er því fáránlegt.
Að tala um hefðbundið mæðgna samband er líka fáránlegt og að segja að það sé “satt” er að gleyma því að móðirin, Salóme, er gerð að viðfangi og dóttirin, Yrsa, er sú sem spyr allra spurninganna, vopnuð tæki, þrátt fyrir að móðirin sé lítið gefin fyrir að svara og lætur myndavélina fara í taugarnar á sér. Samskipti þeirra standa engu að síður fyrir eitthvað sem við getum speglað okkur í, málverk þar sem við teljum okkur þekkja módelin, höfum komið á þennan stað en aldrei séð hann málaðan þessum dráttum. “Satt” en algjör lygi. Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sigurðar. Salóme stendur fyrir engan, ekki einu sinni sjálfa sig, en er samstundis allir Íslendingar myndgervðir.
Það má spyrja sig hvað list móðurinnar hefur með málið að gera, myndin fjallar alveg jafn mikið um kríuegg og verkið „Ég og hinir“ – en um leið er ljóst að eitt listaverk, kvikmyndin, svarar öðru, veggteppi, á meðan bæði taka sér form. Að myndinni lokinni eru bæði verk ókláruð, hálfofin en samtvinnuð, hugmyndafræðilegar mæðgur. Listin er hluti af öllu og allt er hluti af listinni.
Salóme er hinsvegar ekki öll þar sem hún er séð og Yrsa ekki heldur. Kvikmyndin Salóme er spennandi fyrir þessar sakir en einnig ótrúlega frústrerandi. Endarnir standa út úr teppinu, hvað er eiginlega með þessa fjölskyldu?!? – allt er ófrágengið og það á eflaust að vera þannig, stinga í augu og hnikra við gefnum hugmyndum um kvikmyndina sem endanlegt form. Allt breytist jú þegar horft er á það, Salóme, verk hennar, Yrsa, samskipti þeirra og list. Áhorfandinn er velkominn en hann hlýtur að skilja að verkið væri ekki til nema einhver væri að horfa.