Félag íslenskra fræða efnir til rannsóknarkvölds þar sem Bjarki Karlsson flytur erindið „Grettisfærsla – alþýðumenningu skilað til fólksins“ en Blaz Roca og Hallveig Rúnarsdóttir frumflytja þuluna við tóna Hilmars Arnar Hilmarssonar.
Bjarki segir frá hinni blautlegu miðaldaþulu, Grettisfærslu, tortímingu hennar, endurheimt og nú síðast endurgerð í alþýðlegan búning. Hann reifar sögu kvæðisins, bragfræði og vinnubrögð við endurgerðina.
Grettisfærsla hafði verið hulin í 400 ár vegna siðvandra manna sem máðu út texta á þremur skinnbókarsíðum svo tryggilega að engin leið var að lesa. Ólafur heitinn Halldórsson náði þó að vinda að mestu ofan af ritskoðuninni árið 1959 með lestri af myndum, teknum undir útfjólubláu ljósi. Hinn endurheimti texti er býsna slitróttur á köflum en þó eru í honum heillegir partar, nóg til þess að grunur manna um að textinn hafi verið máður út sökum þess hve ósiðlegur hann var fékkst rækilega staðfestur. Þrátt fyrir að kvæðið megi teljast afar sérstakt, bæði sjálfs sín vegna og varðveislu sinnar, hefur það lítt verið á dagskrá fræðimanna síðan Ólafur svipti af því hulunni og ekki fyrr en nú ratað aftur inn í þá alþýðumenningu sem það virðist vera sprottið úr.
Sterk líkindi eru með Grettisfærslu og kveðkap Erps Eyvindarsonar – BlazRoca –, hvort heldur litið er til formgerðar eða efnistaka. Bjarki leitaði því til Erps um að semja inn í eyðurnar sem Ólafur Halldórsson náði ekki að lesa. Í fyrirlestrinum greinir hann frá samstarfi sínu við rapparann og hvernig þeir sameinuðust um viðeigandi nálgun á viðfangsefninu til að gera kvæðinu sem sanngjörnust skil þó að ýmsu þurfi að hnika til og prjóna við svo að það verði að samfelldum texta. Og að sjálfsögu verður lagið frumflutt.
via Grettisfærsla – alþýðumenningu skilað til fólksins – erindi – rapp – sópran.