Slíkar væntingar til Ólafar um að syngja á þessu undarlega örtungumáli byggja eflaust að hluta til á þeirri ímynd sem Íslendingar hafa mótað sér erlendis á undanförnum árum. Skrýtna og skapandi krúttálfaþjóðin á heitum hipsterískum reit í Norður-Atlantshafi. Ólöf segist finna sterkt fyrir slíkum væntingum.
„Ég hef farið í viðtöl þar sem fólk er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað Ísland sé og hvað það þýði að vera frá Íslandi. Þegar ég tala í einhverja aðra veru þá líður mér svolítið eins og ég sé að segja því að jólasveinninn sé ekki til, sem getur verið svolítið fyndið.