Hér sé ljóð: Um Vísur eftir Birki Blæ Ingólfsson

Löngum hefir verið móðins að spá fyrir um dauða ljóðsins og hafa margir hlutast til við þann leik. Hafa og margvíslegar ástæður verið dregnar upp til að ýta stoðum undir slíkan málflutning. Hér skal fullkomlega ósagt látið hvort nokkuð sé til í slíkum málflutningi. En 25. ágúst síðastliðinn kom út fremur nýstárleg „ljóðabók“ eftir Birki Blæ Ingólfsson (1989) sem jafnframt er fyrsta útgefna verk höfundar. „Bókin“ atarna heitir Vísur og telur 16 síður. Er það grasrótarforlagið Meðgönguljóð sem gefur verkið út í samvinnu við höfundinn. En Meðgönguljóð er, samkvæmt heimasíðu, hópur sem „leggur sitt af mörkum við að færa þungann í útgáfu aftur í hendur listamanna og skapa rými í íslenskum bókmenntaheimi fyrir grasrótarkveðskap.“ 1

Þar að auki er yfirlýst markmið hópsins að gera ljóð sem aðgengilegust þannig að sem flestir eigi þess kost að berja ljóðakveðskap augum. Hluti þessa virðingarverða markmiðs er að búa þannig um hnútana að ljóðabækur, er út koma á þeirra vegum, séu sem ódýrastar. Verðviðmiðið í þeim efnum er einn kaffibolli enda byggir nafngift hópsins ekki á vísun í óléttu heldur „með-göngu-ljóð“ eða eitthvað til að taka með sér; „ljóð to go“ svo að segja. Aukinheldur vakir fyrir þeim að samasemmerki verði sett á milli ljóða og kaffibolla, enda vilja þau meina að hvort tveggja láti vel í hendi og eigi að vera hluti af hinu daglega lífi.

Rær umrædd „ljóðabók“ á sömu mið nema hvað téð „bók“ er öllum, sem aðgang hafa að interneti, að kostnaðarlausu (það er að segja fyrir utan óbeina kostnaðinn í formi auglýsinga sem neytandinn greiðir líkast til fyrir á einn eða annan hátt). Hið eina sem áhugasamir þurfa til þess að lesa ljóð Birkis er Google Chrome vafri. Því til viðbótar er nauðsynlegt að hlaða niður vafraviðbót í Chrome Web Store. Og líkt og nafngift „bókarinar“, Vísur, gefur ef til vill til kynna þá hefir ljóðaunnandinn tækifæri til að líta kveðskapinn augum á www.visir.is.

Eftir að lesandinn hefir hlaðið niður vafraviðbótinni koma ljóðin hvert á fætur öðru fyrir sjónir hans eftir að fréttir vefsíðunnar hafa verið lesnar. Ljóðin birtast í athugasemdakerfinu undir „Lífið-fréttum“ eða ölluheldur í stað kerfisins uns verkið er á enda lesið. Um allt heila klabbið má svo fræðast hér. Auk þess sem þar má hefja þar vefljóðaferðina.

Geta nú glöggir lesendur sannlega áttað sig á því hví undirritaður skellti gæsalöppum utan um orðið ljóðabók í byrjun þessarar umfjöllunar. Er nefnilega ekki úr vegi að tala um einhvers konar ljóðagjörning í þessu samhengi fremur en bók í normbundnum skilningi. Má og til sanns vegar færa að hér sé nýmæli á ferð. Nýmæli sem sprottið er upp úr langtíma vangaveltum höfundar um hvort leið ljóðsins í hendur mögulegra lesara, nú til dags, sé ekki helst til of ógreiðfær á „músarklikk-tímum“ internetsins. Á tímum þar sem lestur fer að miklu leyti til fram í gegnum stefnulaust vefsíðnaflakk. Taka og ljóðin sem slík mið af því eða eru mörkuð miðlinum sem notast er við. Eru þau því, líkt og internetráp kann að vera, nokkuð sundurlaus að formi og innihaldi þótt augljóslega megi greina einn meginþráð auk þess sem vissri formfestu er fyrir að fara með tilheyrandi hrynjandi, stuðlum og rími. Er besta dæmið í þeim efnum ljóðið „Við“ sem, að forminu til minnir sumpart á „Tímann og vatnið“ þótt frekari samanburður sé langsóttur.

V

Við ólumst upp
á sígrænu engi
í suðandi neind

Við héldum á birtu
og spegluðum heiminn
í ljóskjarnaeind

Og enginn vissi
með vissu
hvort hann var þar í reynd

(bls. 7)

Aðalþráðurinn, og raunar sá tónn sleginn á fyrstu síðu í „Formála“ er internetið eða netnotkun nú til dags sem virðist einkum og sér í lagi fara fram í spretthlaupsformi enda er flæði upplýsinga slíkt að ógjörningur er að komast yfir nema brotabrot þeirra og „hver stund er/ hundraðlitur hávaðasinfónn/og þú sundurtættur táknmyndaspónn“ (bls. 1). Og það jafnvel þótt viðkomandi héldi sig einvörðungu við vísi.is.

Skapast því óneitanlega vissar andstæður við lestur verksins þar sem það krefst öllu meiri yfirlegu heldur en grein um partístand Katy Perry og hve vinir umræddrar listakonu hafi þungar af því áhyggjur að það kunni að vera farið úr böndunum. Ljóðin sem birtast í stað athugasemda krefjast þess, eða ættu að krefjast þess, af lesandanum að hann hægi á sér og gefi sér meiri tíma en ella, að því gefnu að hann allajafna skauti yfir athugasemdirnar. Svo er það auðvitað spurningin hvort netspretthlauparinn gefi sér þann tíma.

Hér mætti með nokkuð góðu móti draga upp samfellu og kasta sér aftur í tímann. Árið 1996, þegar háhraðatenging almúgamannsins var draumsýn ein, kom ljóðabók Andra Snæs Magnasonar, Bónusljóð út. Líkindin eru kannski ekki svo mikil hvað inntak varðar, bók Andra tekur mið af Hinum guðdómlega gleðileik Dantes og er sögusvið hennar, eins og gefur að skilja, Bónus. Er þar ferðast um deildir verslunarinnar í gegnum ljóðin.

Það sem skylt er með verkunum eru óvanalegir „sölustaðir“ þeirra, sem gefa tilefni til samfélagsskoðunar, einkum og sér í lagi hvað neyslu varðar. En verk Andra var á þeim tíma, sem það kom út, einvörðungu fáanlegt í Bónus. Bæði verkin eiga því aðgengileika sameiginlegan. Það er að segja að Bónus var á þeim tíma staður sem „allir“ sóttu og var og er boðorð dagsins oftar en ekki að hafa hraðar hendur við matvælatínsluna og því ekki beinlínis sá staður sem spyrtur var saman við ljóðalestur. En allavega var óhjákvæmilegt að reka ekki, í það minnsta, augun í kápu Bónusljóða algerlega burtséð frá því hvort gripurinn endaði í innkaupakörfunni eður ei.

Líkast til munu þó Vísur Birkis Blæs Ingólfssonar ekki njóta viðlíka athygli og Bónusljóð nutu á sínum tíma þótt „bók“ hans birtist á „markaðstorgi“ sem er öllu fjölsóttara en Bónus. Ástæðan er að úrvalið endurnýjar sig í sífellu og þess vegna munu Vísur að líkindum hverfa fljótlega úr „internet-hillunum.“

visur3Aðalþema Vísna er tengt barnæskunni og einhvers konar fortíðarþrá sem á sér til að mynda góðan málsvara í lunkinni lýsingu á æskustöðvum „okkar“ í ljóðinu „Við.“ Ljóð það á sér, svo að segja, stað „á sígrænu engi“ (bls. 3) skjáborðsins og er þá vísað til vinsællar skjámyndar fyrir Windows stýrikerfið, sem vel að merkja er bakgrunnur textans, og þess hvernig „tölvukynslóðin,“ ég leyfi mér að nota það hugtak fyrir einstaklinga sem fæddir eru í kringum 1990, eyddi æsku sinni fyrir framan tölvuskjáinn. Eða til að notast við brot úr verkinu: „[…] þar bernska mín/fjaraði út/á stafrænum bárum.“ (bls. 6).

Í ljóðunum „Stutt skilaboð“, „Mjólkurkex“ og „Það“ má svo greina áðurnefnda fortíðarþrá eða þrá eftir einfaldleika barnæskunnar – þeirrar sem ekki fór fram fyrir framan skjáinn – og er auðvelt að stilla henni upp sem mótvægi við internetupplýsingaflóðið þar sem maður kann að flakka á milli stríðshörmungafrétta, hver fór upp á hvern eða hver datt í það með hverjum, með viðkomu á Bárðarbungu til þess svo að enda í brúðkaupi Brangelinu.

Og til að vitna í „Það“ þá situr eftir „óljós grunur um allt það sem fór framhjá […] [manni]“ (bls. 10) og tómleysis tilfinning. Það má óneitanlega greina heimsósóma í verkinu jafnvel þótt „textinn“ sé ekki beinlínis með fingurinn á lofti.

Téða fortíðarþrá mætti svo vel spyrða saman við forgengileika hvað innihald ljóðanna varðar en ekki síður formið sem þau líta dagsins ljós á. Formið er forrit. Og hvað eiga forrit sameiginlegt? Jú, þau eiga það til að úreldast sem þýðir að, líkt og þær greinar sem ljóðin birtast undir, mun það verða forgengileikanum að bráð (reyndar verður hugsanlega auðveldara að finna greinina um drykkjustand Katy Perry en Vísur í framtíðinni). Allt breytist víst hratt á gervihnattaöld. En það er þó spurning hvort það eigi ekki hreinlega vel við verkið. Sérstaklega ef líta má á það sem gjörning. Ljóðagjörning.

En er eitthvað varið í verkið? Því er fljótsvarað: Já, það er margt spunnið í þetta verk. Fyrir það fyrsta er hugmyndin góðra gjalda verð; að setja texta sem ætti allajafna ekki að renna yfir á hundavaði í viðlíka hraðsuðuketil og www.visir.is er sem og að ganga enn lengra með hugmyndina um ljóð fyrir alla eða að ljóð eigi að vera öllum aðgengileg, líka þeim sem ef til vill eru vanalega ekki áhugasamir um ljóðalestur. Verkið, innihaldslega og formlega séð, rímar líka ágætlega við miðilinn þar sem það birtist og er vel þess virði að glugga í. En þá er bara að gefa sér tíma í það. Og mikilvægasta spurningin í því samhengi er hvort fólk, eða lesendur síðunnar, séu reiðubúnir til þess atarna. En alltént má segja að hér sé ljóð!

P.S. Þess ber einnig að geta að hönnun kápu og umbrots var í höndum Katrínar Helenu Jónsdóttur og ábyrgð á hönnun hugbúnaðar var á herðum Jóns Eðvalds Vignissonar. Er hvort tveggja vel úr gerði gert og passar vel við viðfangsefnið.

   [ + ]

1. Meðgönguljóð. 2014. Sjá: http://www.medgonguljod.com/um-okkur/