Listamannaspjall um Samhengissafnið

Harbinger býður ykkur hjartanlega velkomin á listamannaspjall Önnu Líndal um Samhengissafnið / Línur í Harbinger fimmtudaginn 11/9 ( í dag ) kl. 16.00. Þar mun Anna segja frá bókverki sem unnið var sérstaklega fyrir sýninguna og opna lokaða kassa.

Samhengissafnið er hjúpur fyrir áþreifanlega hluti, staka atburði, upplifun eða samfélagslegan núning sem skilur eftir sig punkt í vitundinni.

Árið 1435 skrifaði Leon Battista Alberti:

Punktur er merki/tákn sem ekki er hægt að skipta upp í einingar (…) … þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína (…) … Ef margar línur vefast saman eins og þræðir í klæði, þá búa þær til hjúp.

(Lauslega þýtt og endursagt, AL)

Á sýningunni mun Anna sýna valda hluti úr Samhengissafninu, safni sem er eins og „amaba” eða teygjudýr sem vex í allar áttir og á sér óljósan upphafspunkt. Meðal annars verður til sýnis næstum 40 ára gamll afleggjari, KZ-3 epli sem Korbinian Aigner (eplapresturinn) í útrýmingabúðum nasista í Dachau ræktaði upprunalega, sjórekið plast úr Surtsey, vatn úr gígnum sem myndaðist í Grímsvatnagosinu 2011, dagbækur og spreyjaðar línur á mosa.

Þessir hlutir hafa allir tilfinningalegan snertipunkt, sem myndast við margþætta skoðun þar sem skoðandinn notar sjálfan sig á svipaðan hátt og landmælingamenn nota sín tæki, að safna gögnum frá mismunandi stöðum sem síðan safnast saman í hugskoti okkar og búa til heildræna túlkun, svokallað þekkingarkort.

Bókverkið er til sýnis og sölu á sýningunni.