Þú ert þá draugur fyrst þú ert eins dauður og þú vilt vera láta

Alltof stór fötin lágu á gólfinu. Ég var ekki lengur karlmaður. Ég var ský í buxunum af konunni minni. Sverðdansarinn mikli frá Khachaturian. Í sokkabuxum. Leið betur þannig fann fyrir öryggistilfinningu í kvennmannsfötum í karllægum heiminum. Lá ofan í baðkarinu í sjávarseltunni svo næmur að ég sá andlit í sveppagróðrinum í loftinu. Fannst það hafað verið faðir minn. Eða ég sjálfur. Hvarflaði jafnvel að mér að þetta hefði verið Lucifer. Því lengur sem ég horfði fór gróðurinn að taka á sig munstur sólkerfis í kringum ljósaperuna. Ég var í garðinum táknsær. Framdi ósjálfrátt helgiathafnir. Á biðstofunni horfði ég á bláu plastskóhlífarnar sem ég átti stundum vísvitandi til með að ganga með síðan á skónum út án þess að taka þær af mér. Þarna var hillan með geðbæklingunum. Hafði fengið allar þessar greiningar um ævina. Aldrei í lífinu hafði ég verið eins frjáls þegar ég hætti að taka mark á þeim. Þegar ég þorði að hætta að taka lyfin. Morgunninn varð til í mér. Innra með mér braust fram hið ósigrandi sumar. Aldrei þolað þessa bæklinga. Gékk að hillunni og snéri þeim öllum við þannig að ekkert nema geðorðin tíu blöstu við þeim sem voru að bíða. Ég gékk á milli opinberra stofnanna og skilaði sektinni. Kvíðanum, aðgerðarleysinu. Kvölinni í andlitunum á Hlemmi. Þegar teknar eru ákvarðanir um að vista ópið í fangaklefa sökum andlegs ástands. Þegar angistin er ekki lengur talin hæf til þess að vera á mannlausum götum borgarinnar. Þegar allir eru orðið innandyra og fara aðeins út til að fara inn annarsstaðar.