Brot úr fyrsta drafti að „Út að drepa túrista“

Kalmann Pétur Jónsson mundi vel eftir því þegar hann kom fyrst inn í þessa hliðarveröld á efri hæð þjónustumiðstöðvarinnar á Geysi. Hversu oft hafði hann ekki skimað yfir borðraðirnar eftir kunnuglegum andlitum? 

Núna var salurinn tómur og einu hljóðin sem heyrðust voru frá rigningardropum sem lömdu litlu rúðurnar undir súðinni.

Hún hafði verið svo heillandi, fjölmenningin í þessu rými nálægt miðju Íslands, steinsnar frá Langjökli. Við eitt borðið höfðu setið Þjóðverjar, við annað Frakkar, það þriðja Spánverjar, loks einstaka kínverskir leiðsögumenn sem sötruðu súpu með svo miklum hávaða að það bergmálaði undir súðinni. Þarna við hinn endann sátu yfirleitt nokkrir bílstjórar í einlitum einkennisbúningum Gray Line, Kynnisferða eða Bus Travel. Ökuleiðsögumenn voru oftast óeinkennisklæddir, óháðir og stundum svolítið borubrattir því sumir þeirra áttu sína bíla, nítján manna steypireiði. Karlar voru í meirihluta en þó voru þarna lífreyndar valkyrjur í bland við snaggaralegar stelpur með glæný meirapróf upp á vasann. Fólkið sat gjarnan í hnapp yfir matnum og stakk saman nefjum um kjaramál eða skiptist á kjaftasögum úr bransanum. 

„Heyrðu, heldurðu ekki að Emil hafi skilið Vesnu eftir í Jökulsárlóni í gær?“ 

„Er það?!“

„Hún sagði víst ekki orð allan daginn.“

„Mér er alveg sama! Svona gerir maður ekki!“

Í brúnum leðursófum lágu stórir menn í  lopapeysum eða kuldaúlpum og fengu sér kærkominn lúr undir þykkum sauðargærum.

 Oft voru þetta lausráðnir leiðsögumenn, stundum mislukkaðir listamenn eða kennarar á eftirlaunum sem höfðu verið sjanghæjaðir á túristavertíð, þótt margir þeirra þekktu varla Langjökul frá nærbuxunum sem þeir gengu í. Stundum ógæfumenn sem höfðu drukkið frá sér meiraprófin á kvennafari, lausgirtir og angandi af handmjólkuðu sæði og blautum sígarettum. 

„Maður trúir þessu varla,“ sagði Magnús Hlífar svo hátt að Kalmann Pétur hrökk við – hann hafði ekki tekið eftir bílstjóranum sem grúfði sig yfir einmanalegan tölvuskjá  við lítið skrifborð úti í horni. Tröllið var að rýna í veðurspána eins og venjulega.

„Að þetta sé allt búið, á ég við. Og allt út af einum skitnum flensuvírus? Hvað ef þetta er síðan bara allt í plati? Hefurðu spáð í það, Kalmann Pétur?“