Í minningu Yahya Hassan

Ljóðið er ort fyrir fimm árum, skömmu eftir að hann heimsótti Ísland.

Elskhugar

Ég hef alltaf verið fyrir óþekka stráka. Síðhærða reiða flotta gæja sem rífa kjaft. Eru með mótþróa. Ég hef fundið þá víða. 

Ballettdansari frá Armeníu. Stökk frá borði á leið í sýningarferð. Drakk vodka á Borginni. Hann var svo fallegur maðurinn. Eins og gefur að skilja. Og svo reiður. Ennþá skiljanlegra. Þetta var löngu fyrir glasnost. Eina sem hann vildi var að fara til Ameríku. Hver skilur það? 

Sænskur efnafræðingur. Hafði varpað frá sér hugsjónum. Ekkert skrítið. Fannst allt til einskis. Þróaði efnavopn. Hver kærir sig um þau? 

Síðhærði kaninn.  Stofnaði sjálfbært býli. Las Nietzsche. Djúpvitur andstæðingur bandarískrar markaðshyggju. Varð seinna slökkviliðsstjóri. Áður en hann fór í hundana. Hippinn. Hver varð hissa á því? 

Daninn sem fór á Grænlandsjökul. Safnaði loftbólum úr ísnum. Greiddi aldrei ljósan lubbann.  Greinar hans neistuðu af þekkingu. Sönnuðu að global warming mun að lokum steikja okkur. Hver hlustar á það? 

Hálfsænski rithöfundurinn. Dökkeygur Marokkómaður. Með sænska stelpuklippingu. Sefandi rödd.  Les ljóð á youtube. Boðberi réttlætis og jafnréttis. Textinn flæðir. Rasisminn og óttinn mun gera út af við okkur. Von til framtíðar. Eða engin von? 

Og enn finn ég nýjan. Í Danmörku. Palestínumaður án vegabréfs. Verður tvítugur bráðum. Með útlit fullorðins manns. Eldgamla sál. Skrifar ljóð með hástöfum. Reiðin ólgar. Hatar föður sinn. Ofbeldið. Er ekki komið nóg? 

Það verður að breyta heiminum. Fyrir þá. Fyrir mig.