fótmál

i

aldin hjón frá shenzhen
sem mitt íslenska málbein
gerir að takk kærlega sje sje
búa hér við longjinveg
í vesturbæ gvangsáborgar
við ósa perlufljóts zhujiang

miklir göngugarpar
í cintamani treyjum
ganga tvisvar á dag
um verslunargötuna
inn að bejing lu

þegar sól skín á þéttum plexígráum himni
þegar logn bærir ekki dún
þegar andar suðrið hlýjum tvíkolóðum vindum
þegar fáni blaktir við hún

skór þeirra þremur númerum of stórir
til heiðurs afmyndun meybarnafóta fyrrum
er tær voru reyrðar undir il með léreftslinda
til að fegra gang smáfættra stúlkna
gera þær kvenlegar að ganga í augu karla
forða flótta þeirra undan gildandi körlum

undan augnaráði valdsins

bæði kommar og kristnir eigna sér fótalausn
breyttan sið sem síðasti keisarinn lögfesti
árið sem honum var steypt

ii

í shenzhen keypti ég sjesje grófbotna skó
í réttri stærð svarta uppháa gönguskó
hræbillega fallega gervilega glansandi skó

gekk heim á leið upp í spænska hverfi
sól í gráu heiði rauðir bláir gulir veggir
stinga í stúf við grámað litleysi shenzhen

sólar fylgja ekki skrefum mínum
verða eftir á blásvörtu jarðbiki
biksvartir skór einfaldir sólalausir sjesje
verða eftir í tunnu hjá rútu til gvangsá

iii

kannski eiga þau einn son
eitt foldarskart hér í kína
að annast sig í ellinni
kannski hjákonuson í sveit
einn fagran smávin
sem á þeim gott upp að unna
ekki fleiri börn leyfð
í sínlensku mannhafi einbirna

hún í hvítum skóm hann í svörtum
hann álappalegur slangrandi
í svörtu óskasteinsúlpunni
hún kyrrlát hægfara
einu skrefi fyrir aftan í rauðu
hann framar óðamála brosir breitt
baðar út höndum slettir til fótum
hún niðurlút skrefstutt
athugul þögul hæglát
gætir að hverju fótmáli

í carrefour gengur hann á undan
velur kaupin með orðum fingrabendingum
lúnum höndum setur hún vörur í körfu
á leiðinni heim er hann á undan
hún á eftir með pokana
bundin í báða skó allt of stóra
máni glottir grátt um aftanhúm

(úr smávinir fagrir foldarskart, 2019)