Starafugl snýr nú aftur úr sínu vetrarhíði eftir sex vikna hlé og hefur misst af fjörinu svo um munar. Gunnlaugur Blöndal gerði allt vitlaust með hátt í aldargömlum nektarmyndum í Seðlabankanum, Elli Grill, Barði í Bang Gang og Hatari eru að gera góðan leik í Eurovision – og sjálf keppnin er í senn umdeild vegna staðsetningar og þar með stökkpallur fyrir kassavana gyðingahatara – og nú standa smáborgarar á öndinni yfir glerhjúpuðum pálmatrjám Karinar Sander, sem þykja minna á óráðsíuna í kringum Braggann. Það er búið að veita Fjöruverðlaunin (Ástin, Texas; Þjáningarfrelsið og Fía Sól), Íslensku bókmenntaverðlaunin (60 kg af sólskini, Flóra Íslands og Silfurlykillinn), Ljóðstaf Jóns úr Vör (Brynjólfur Þorsteinsson) og tilnefna til Eyrarsólarinnar (Act Alone, Gamanmyndahátíð Flateyrar, List í ljósi, LungA, Norðanáttin og Plan B) sem og viðurkenninga Hagþenkis (heil gomma af fólki og bókum).
Jólabókaflóðið er að koma út í kilju, leikhúsin keppast við að frumsýna, hljómsveitirnar skipta um strengi, húðir og blöð og skipuleggja komandi tónleikaferðalög og að minnsta kosti ein ný íslensk kvikmynd hefur birst á hvíta tjaldinu – Tryggð, byggð á Tryggðarpanti Auðar Jónsdóttur, og vekur athygli að konur gegna öllum helstu hlutverkum beggja vegna linsunnar. Og ég er ekki einu sinni kominn út fyrir landsteinana – þar sem Óskarsverðlaunatilnefningar eru komnar í hús og sjálfur Man, eða sjálft Man (?) í hinum alþjóðlegu Man Booker verðlaunum hefur bakkað út úr stuðningi við verðlaunin og GLAAD hefur ákveðið að sleppa því að tilnefna Bohemian Rhapsody vegna ásakana um kynferðisbrot leikstjórans, Bryans Singer, og ný heimildamynd áréttar kynferðisbrot söngvarans Michaels Jackson. Já og svo er Blazroca orðinn vegan, Einar Kárason var sviptur listamannalaunum fyrir að hafa (að sögn) ekki sótt um, Friðrik Dór er hættur við að flytja til Ítalíu og allir karakterarnir í kvikmyndinni Ótrúleg saga um risastóra peru eftir danann Jakob Martin Strid eru karlkyns, nema Mitsó sem var strákur í bókinni, og það hefur vakið svo mikla athygli að enginn hefur tekið eftir því að allar aðrar breytingar umfram þessi kynskipti Mitsóar jaðra við að teljast listræn hryðjuverk. Af því það var enginn gagnrýnandi á vaktinni.
Því á meðan allt þetta gerðist vorum við bara að jafna okkur á jólasteikinni, hlaupa af okkur konfektið og að minnsta kosti hálf ritstjórnin er hætt að reykja. Sic transit gloria mundi.
Vefurinn verður fimm ára eftir þrjár vikur. Sennilega gerum við ekkert til að minnast þess nema kannski að afþakka blóm og kransa. En við erum samt af og til voða ánægð með okkur. Það er lífstíðarverkefni að reka góðan vef, hann verður kúltúr í sjálfum sér, með öllum sínum kostum og kenjum og innbyggðu göllum, og stundum ritstýrir hann okkur meira en við honum. Við erum alltaf að reyna að verða betri, skemmtilegri, dýpri, spanna breiðara svið og fjölbreyttara sjónarhorn á listir og menningu. Það gengur stundum framar öllum vonum og stundum brotlendum við bara viðstöðulaust. Bara einsog gengur. Við reynum að láta okkur standa á sama um læk og deilingar af því leiðin til helvítis er vörðuð lækum og deilingum en erum líka þakklát fyrir læk og deilingar og höfum í huga að vefur stendur og fellur með því að einhver lesi hann og enginn les það sem enginn lækar og deilir. Ekki láta okkur grátbiðja, lækið og deilið!
Það verða einhverjar örfáar stefnubreytingar á vorönn – við ætlum að reyna að birta meira af viðtölum, fréttum og pistlum og það verður á kostnað hryggjarstykkisins, sem er sem fyrr gagnrýni á hin ýmsustu listaverk. Þá verður Bíó vikunnar endurvakið – en nú á tveggja vikna fresti – og ljóðum fækkað á móti.
Annars erum við bara kát.