Kvikmyndir sem heimspeki: brot úr viðtali við Stanley Cavell (1926 – 2018)

Heldur lítið hefur farið fyrir umræðu um Stanley Cavell og kvikmyndaheimspeki hans á íslensku. Þrátt fyrir andlát hans á síðasta ári. Og þrátt fyrir að hér sé einn stærsti heimspekingur síðari hluta 20.aldarinnar (þótt það sé að sjálfsögðu erfitt að leggja mat á slíkt – að mínu mati a.m.k.). Sem vildi bara svo til að var einnig fantískur kvikmyndaaðdáandi – áhugi og ástríða sem hann blandaði saman við og innlimaði í heimspeki ástundun sína og verk.

 

Mikilvægasta verk hans er án efa The Claim of Reason: Wittgenstein, Skepticism, Morality and Tragedy (1979) en þess fyrir utan skrifaði hann einnig þrjár stórmerkilegar og áhugaverðar bækur um kvikmyndir sem ég get ekki séð að séu mikið lesnar af kvikmyndaáhugamönnum eða innan kvikmyndafræða – eða heimspekingum í rauninni: The World Viewed: Reflections on the Ontology of Film (1971), Pursuits of Happiness: The Hollywood Comedy of Remarriage (1981) og Contesting Tears: The Melodrama of the Unknown Woman (1996).

 

Í ljósi þessa áhugaleysis – sem er þó auðvitað að miklu leyti skiljanlegt, hann er ekki sá auðveldasti – þýddi ég allavega eftirfarandi brot úr viðtali við hann, titlað „What Becomes of Thinking on Film?“ tekið af Andrew Klevan, og má finna í bókinni Film as Philosophy: Essays on Cinema after Wittgenstein and Cavell.

 

Því hann er svo sannarlega einhver sem á skilið meiri athygli kvikmyndaunnenda – áhugamanna jafnt og fræðimanna. Sem og allra sem kunna að meta djúpa hugsun um list, menningu og bókmenntir einnig. Stanley Cavell er einfaldlega maðurinn.

 

Hér útskýrir hann sumsé tengsl heimspekinnar við kvikmyndir – eins og hann sér þau – í smá bíógrafískri lýsingu á ferli sínum.

 

 

A.K.: Hvernig hafa Ludwig Wittgenstein og J.L. Austin verið mikilvægir fyrir verk þín og ennfremur: hvers vegna gætu verk þeirra, eða skilningur þinn á verkum þeirra, verið gagnlegur í hugsun um kvikmyndir? Hvernig er það gagnlegt fyrir nemanda í kvikmyndafræðum að hafa tilfinningu fyrir þessum höfundum?

 

S.C.: Almenna staðreyndin um kynni mín af þeim er að þeir sannfærðu mig í rauninni um að halda áfram í heimspeki. Ég veit ekki hvort ég hefði náð að koma mér burt, keypt mér annan grammófón [Cavell byrjaði að læra tónlist áður en hann flutti sig í heimspeki] og reynt að draga fram lífið, en ég var mjög ósáttur við það sem ég var að gera í doktorsnámi. Ég áttaði mig þó ekki á nákvæmlega hversu ósáttur ég var fyrr en Austin kom í heimsókn til Harvard 1955, sem varð til þess að ég henti u.þ.b. hálfri ritgerðinni í ruslið. Hafði lesið Austin, en það hafði ekki slegið mig hart fyrr en ég hitti hann og fór í tíma hjá honum. Svo spurningin um mikilvægi Austin, og svo Wittgenstein síðar meir, er spurningin um mikilvægi heimspekinnar fyrir mér yfirhöfuð. Þeir tveir leyfðu mér, hvöttu mig, til að hugsa um hvað sem ég hafði áhuga á, andstætt því sem ég hafði verið að vinna í þar sem ég þurfti að fylgja tóni, reglum, ætlun, hefðum atvinnuheimspekinnar sem krafðist ákveðinnar gerðar af svari, ákveðinnar gerðar af ritgerð, ákveðinnar röð kafla í doktorsritgerð – eitthvað sem gaf mér viðfangsefni en gerði það að verkum að ég hafði ekkert að segja um það. Ég var verðlaunaður fyrir þá vinnu, en hafði enga trú á því sem ég var að gera. Fannst ég ekki vera á heimspekilega ríkum stað, að koma orðum að hlutum sem snerti mig í raun og veru, eða þar sem ég var sáttur við niðurstöðurnar. Austin breytti því, á afgerandi hátt en ekki algjörlega. Hann fékk mig til að hugsa ávallt um heillandi hluti, en ég var óviss um hvort hér væri um heimspeki að ræða.

 

Heimspeki er eitthvað sem er skrýtið að vilja leggja stund á og ég varð að halda áfram að hugsa að það væri einhver metnaður í mér, einhver fantasía, um hvernig það væri að rannsaka mig sjálfan og nota það svo á skynsaman og fræðilega djúpan hátt sem önnur fög buðu ekki uppá. En Austin gaf mér beinan innblástur fyrir titilritgerðina í fyrstu bók minni, Must We Mean What We Say? Ég vissi að hvað sem ég gerði, þá gæti ég hér eftir tekið þetta með mér, látið það leiðbeina mér. Ein mikilvægustu áhrifin voru að þetta gerði mér kleift að lesa Wittgenstein með einhverri alvöru uppskeru (eitthvað sem kemur mér enn á óvart, svona miðað við ólíkar áherslur þeirra og hugmyndir um heimspeki). Ég hafði reynt að lesa Heimspekilegar rannsóknir hans nokkrum árum fyrr, og hún þýddi í rauninni ekkert fyrir mér. Fannst hún vera áhugaverð, uppfinningasöm, en í rauninni ekkert meira en ókerfisbundinn pragmatismi. Margir heimspekingar hugsa enn þannig um þetta verk Wittgenstein. Fyrir mér var skrefið sem Wittgenstein tók lengra en Austin tortryggni hans gagnvart tungumálinu, ásamt á sama tíma trausti hans til þess. Þetta byrjaði að opna fyrir mér það sem mér fannst ég vanta frá heimspekinni, þessa blöndu af algjöru trausti og algjörri efahyggju um hvert einasta orð sem ég lét frá mér.

 

Ég gæti sagt að það frelsi sem mér fannst ég sjá í þessum heimspekingum kristallist einmitt í hversu mikið það kom mér á óvart að þeir leyfðu mér að hugsa markvisst og gefandi um kvikmyndir. Þetta gerðist þó ekki strax. Þeim bregður ekki fyrir í The World Viewed, en þeir voru í bakgrunni síðari ritgerðanna í Must We Mean What We Say?, og þegar hugmyndin um litla bók um Walden Thoreaus var að taka á sig mynd. Það sem ég á semsagt við er að ég var að vinna úr afleiðingum verka Austins og Wittgenstein, láta þá opna aðgang að afrekum Beckett og Kierkegaard og Shakespeare og Thoreau, og þessi vinna tel ég hafa verið bráðnauðsynlega fyrir The World Viewed.

 

Ég gæti jafnvel greint þrjár gerðir af hvatningu og innblæstri sem ég fékk frá Austin og Wittgenstein, með tilliti til hugsun minnar um kvikmyndir. Fyrir það fyrsta með því að leyfa mér efast um þá hugmynd að samband ljósmyndar og þess sem hún er ljósmynd af er best skilið sem ímynd [e. representation]. Annað er hlutverk hins óáhugaverða eða óspennandi í kameru kvikmyndanna og framsetningu hennar á því sem hún telur áhugavert – sérstaklega þegar kemur að hinu mennska andliti og líkama. Hið þriðja var að þeir leyfðu mér að finnast ég bæði vera að stunda heimspeki og vera á sama tíma opinn og móttækilegur fyrir öllu því endalausa (áhugavert og óáhugavert, eins og gengur) sem gerist í kvikmyndum. Án þess að geta verið svo opinn, hefði ég aldrei öðlast sannfæringu um að ég gæti talað um hina ótrúlegu og einstöku staðreynd að fyrirbæri eins og kvikmyndir eigi sér yfirhöfuð tilvist. Ég gæti jafnvel kallað þetta sannfæringuna um að kvikmyndin á sameiginlegt með hinum stóru listunum að allt skiptir máli þar – samtímis með að þú vitir ekki hvað allt þýðir.