Flugfiskar

Cheilopogon heterurus

 

torfur af fljúgandi fiskum komu á móti mér

 

Var tilbúinn í göngutúr er ég sá frostþokuský úr fjarska

-eins og dreka á vatni-

 

það voru torfur af fiskum að koma fljúgandi úr norðri

eins og skriðdrekar sem kæmu skyndilega inn götuna og ég væri ekki búinn að frétta

af neinu stríði

 

hver og einn flugfiskur 33-35 cm að lengd

 

ég var undrandi

óttasleginn – hélt mig inni

eins og þegar manneskjan kemst ekki út vegna andlegra veikinda

 

gatan var blaut og leit út eins og gruggug á

 

flugfiskarnir svifu á eyr- og kviðuggum

sumir þeirra flugu á rúðuna

aðrir í ræsin og svo uppúr þeim

 

þetta virtist endalaust, eins og engisprettufaraldur

og rúðan sífellt óhreinni, og við það að fara að springa

 

ég þorði ekki út

 

þorði ekki út eins og þegar smáhundur nágrannans er sígeltandi

og nágranninn segir mér með augnaráðinu að ég sé ábyrgur fyrir geltinu