Ég bíð þess


Ég bíð þess að það komi að mínu máli
og ég bíð þess
að undrunin endurfæðist
og ég bíð þess að einhver
uppgötvi loks Ameríku
og góli
og ég bíð þess
að þau uppgötvist
hin nýju táknrænu endimörk vestursins
og ég bíð þess að
bandaríski skallaörninn
breiði loks út vængi sína
rétti úr sér og fljúgi greitt
og ég bíð þess
að þessi kvíðaöld
setji upp tærnar
og ég bíð þess
að þeir hái stríð
sem geri heiminn óhultan
fyrir stjórnleysi
og ég bíð þess
að öll stjórnvöld
visni loks
og ég bíð þess eilíflega
að undrunin endurfæðist

Ég bíð annarrar endurkomu Krists
og ég bíð þess að trúarvakningu
skoli yfir Arizona-fylki
og ég bíð þess að Þrúgur reiðinnar fari í geymslu
og ég bíð þess
að þeir sanni að
Guð sé í raun Bandaríkjamaður
og ég bíð þess í fullri alvöru
að Billy Graham og Elvis Presley
skipti um hlutverk í alvöru
og ég bíð þess
að sjá Guð í sjónvarpinu
út um pípur ofan á altörin
ef bara þeim tækist að finna
rétta rás
til að stilla inn
og ég bíð þess
að síðasta kvöldmáltíðin verði borin á borð á ný
með einhverjum nýstárlegum lystauka
og ég bíð þess eilíflega
að undrunin endurfæðist

Ég bíð þess að einhver kalli upp númerið mitt
og ég bíð þess
að lifandi endalokin renni upp
og ég bíð þess
að pabbi komi heim
með vasana fulla
af geisluðum silfurdölum
og ég bíð þess
að kjarnorkutilraununum ljúki
og ég bíð þess glaður
að ástandið versni til muna
áður en umbæturnar hefjast
og ég bíð þess
að Hjálpræðisherinn taki völdin
og ég bíð þess
að mannþröngin
ráfi fram af bjargi einhvers staðar
með kjarnorkuregnhlífina í krepptum hnefa
og ég bíð þess
að Ikea geri eitthvað
og ég bíð þess
að hinir hógværu hljóti blessun
og erfi jörðina
skattfrítt
og ég bíð þess
að skógarnir og dýrin
nemi aftur jörðina sem sína
og ég bíð þess
að einhver finni upp aðferð
til að gera út af við alla þjóðrembuna
án þess að drepa neinn
og ég bíð þess
að finkur og stjörnur falli einsog regn
og ég bíð þess að elskendur og grátendur
liggi saman á ný
í nýrri endurfæðingu undrunar

Ég bíð þess að móðan mikla verði þveruð
og ég bíð þess óþreyjufullur
að leyndardómur eilífs lífs verði uppgötvaður
af óþekktum heimilislækni
sem bjargi mér að eilífu frá vísum dauða
og ég bíð þess
að lífið hefjist
og ég bíð þess
að stórhríðir lífsins
líði hjá
og ég bíð þess
að sigla á vit hamingjunnar
og ég bíð þess
að endursmíðuð Mayflower
nái landi í Ameríku
með kvikmyndarétt sögunnar og sjónvarpsrétt
seldan fyrirfram til innfæddra
og ég bíð þess
að hin týnda tónlist hljómi á ný
í týndri heimsálfu
í nýrri endurfæðingu undrunar

Ég bíð þess dags
að allir hlutir skýrist
og ég bíð þess
að Ole Man River
fljóti ekki bara áfram
framhjá köntríklúbbnum
og ég bíð þess
að dýpsta suðrið
hætti að endurflytja sig sjálft
í eigin mynd
og ég bíð þess
að hin ljúfa kynþáttasameinaða stríðskerra
fljúgi lágt
og flytji mig aftur til gömlu Virginíu
og ég bíð þess
að gamla Virginía uppgötvi
nákvæmlega hvers vegna negrar fæðast
og ég bíð þess
að Guð líti út fram af
Lookout-fjalli
og sjái Óðinn til fallinna Suðurríkjahermanna
sem alvöru farsa
og ég bíð málagjalda
vegna þess sem Bandaríkin gerðu
Tom Sawyer
og ég bíð þess eilíflega
að undrunin endurfæðist

Ég bíð þess að Tom Swift vaxi úr grasi
og ég bíð þess
að bandaríski drengurinn
afklæði fegurðina
og skríði upp á hana
og ég bíð þess
að Lísa í Undralandi
endurflytji mér
fullkominn sakleysisdraum sinn
og ég bíð þess
að Childe Roland komi
að síðasta myrkasta turninum
og ég bíð þess að Afródíta
láti sér vaxa handleggi úr holdi
á síðustu ráðstefnu heimsins um afvopnun
í nýrri endurfæðingu undrunar

Ég bíð þess
að mér berist einhver vísbending
um ódauðleika
með því að rifja upp bernsku mína
og ég bíð þess
að grænir morgnar snúi aftur
heimskuleg græn engi æskunnar snúi aftur
og ég bíð þess
einhverjir stofnar óviljandi lista
hristi ritvélina mína
og ég bíð þess að ég skrifi
hið stórfenglega og óafmáanlega ljóð
og ég bíð þess
að síðasta langa kæruleysislega algleymið birtist
og ég bíð þess eilíflega
að flýjandi elskendurnir á gríska vasanum
nái hvor í annan á endanum
og fallist í faðma
og ég bíð þess
eilíflega og alltaf
að undrunin vakni á ný

Birt í tilefni af 100 ára afmæli skáldsins, bókaútgefandans og eiganda City Lights bókabúðarinnar, Lawrence Ferlinghetti. Ljóðið er ættað úr einu frægasta safni skáldsins, A Coney Island of the Mind, en tilheyrir þeim hluta þess sem var í raun ætlaður til upplestrar fremur en til birtingar á síðu. Verandi orðinn 100 ára, og enn við bærilega heilsu, hefur Ferlinghetti augljóslega lifað flesta samtímamenn sína og raunar líka frægustu skjólstæðinga sína sem útgefandi, Frank O’Hara (1926-1966) og Allen Ginsberg (1926-1997) – og var þó nærri áratug eldri en þeir. Fræg er orðsending hans til Ginsbergs eftir að hafa heyrt hann lesa upp Ýlfur (Howl) á upplestri í Gallery Six, þar sem hann falaðist eftir ljóðinu til útgáfu með orðunum: „Ég fagna þér við upphaf stórfenglegs ferils“. Ferlinghetti varð svo alræmdur sem útgefandi Ýlfurs – kærður fyrir að dreifa klámi og stóð í gríðarmiklu stappi hennar vegna árum saman – en hefur æ síðan verið máttarstólpi bókmennta og tjáningarfrelsis á vesturlöndum, intellektúal og tákn fyrir gullöld San Franciscoborgar.